„Unnum þrátt fyrir að spila ekki okkar besta leik“

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur gekk vel í dag þrátt fyrir að spila ekki okkar besta leik. Við vorum þéttir og skipulagðir,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 1:3 sigur liðsins á Fjölni í Pepsi-deild karla í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Tvenna Hólmberts tryggði sigur Stjörnunnar í Grafarvogi. „Við byrjuðum leikinn fantavel og svo var grunnvinnan til staðar. Við mættum sterku liði Fjölnis sem vann FH í síðustu umferð þannig að við vissum að við vorum að fara að mæta mjög spræku liði. En við vorum sterkir. Það sýnir styrkleika að vinna þrátt fyrir að spila ekki okkar besta leik.“

Aðspurður hvað hafi ekki verið nægilega gott hjá liðinu í dag segir Rúnar:

„Við vorum að tapa miklu af öðrum boltum og öðru slíku. Síðan vorum við ekki að finna millisvæðin sem þeir buðu upp á í fyrri hálfleik sérstaklega eins og við höfðum lagt upp með.“

Framherjar liðsins, þeir Hólmbert Aron Friðjónsson og Guðjón Baldvinsson, hafa verið funheitir í upphafi tímabils og skoruðu báðir í dag. 

„Þetta byrjar vel. Þeir eru búnir að skora helling af mörkum í deildinni. Við höfum ekkert rætt það innbyrðis að þeir þurfi að skora mörk frekar en einhverjir aðrir en það er hlutverk þeirra sem eru framarlega á vellinum að skora mörk,“ sagði Rúnar Páll að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert