Þægilegt en hættulegt

Emil Ásmundsson í leik með Fylki gegn FH í fyrrasumar.
Emil Ásmundsson í leik með Fylki gegn FH í fyrrasumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta kórónar afmælisdag félagsins, það var frábært að setja tvö mörk og ná í góðan útisigur," sagði Emil Ásmundsson miðjumaður Fylkis við mbl.is eftir 3:0 sigur á HK í Kórnum í dag í 1. deild karla í knattspyrnu.

Afmælissigur og Fylkir á toppnum.

Fylkir hélt uppá 50 ára afmælið í dag og það snertir flestalla leikmenn félagsins, sem nær allir eru uppaldir í Árbænum. Emil er þar á meðal, fyrir utan þrjú ár í röðum Brighton á Englandi hefur hann spilað með Fylki í öllum flokkum.

„Jú, ég hef alltaf verið hérna, Fylkir hefur verið mitt félag frá fimm til sex ára aldri. Það var veisla í morgun, kvennaleikurinn var klukkan tvö og flott umgjörð í kringum hann. Svo þurftum við að skila okkar verkefni og ná í þrjú stig hérna í Kórnum og að það skyldi takast gerir daginn enn betri. Nú getum við fagnað afmælinu vel," sagði Emil.

Hann tók undir það að Fylkir hefði þurft nokkurn tíma til að komast inn í leikinn.

„Já, þeir voru yfir í baráttunni fyrstu 20 mínúturnar og við þurftum að venjast vellinum en svo spiluðum við okkar leik. Mér fannst við vera yfir í baráttunni það sem eftir var af leiknum og það skilaði okkur sigrinum. Það var mjög þægilegt að fara inn í hálfleikinn með 3:0 forystu, en um leið er slíkt alltaf hættulegt. Við máttum ekki koma of rólegir inní seinni hálfleikinn, heldur halda okkar striki og klára verkefnið á 45 mínútum sem voru eftir, og það gerðum við."

Mörk Emils voru glæsileg, bæði með skotum af 20 metra færi og hann var að vonum ánægður með þau.

„Já, ég var heppinn að hitta vel á rammann í dag og vonandi er þetta fyrirboði um að mörkin verði fleiri. Í fyrra skiptið þurfti ég að leggja boltann aðeins fyrir mig áður en ég skaut en í seinna skiptið steinlá þetta bara."

Fylkir er með 10 stig á toppnum eftir fjórar umferðir en Árbæjarliðið er fyrirfram talið mjög líklegt til að vinna sér sæti í úrvalsdeild á ný í fyrstu tilraun. Emil sagði ekkert sjálfgefið í þeim efnum.

„Alls ekki. Það er mjög mikið eftir en við virkum sannfærandi. Við höfum byggt upp góðan anda í vetur, komum á fljúgandi siglingu inní mótið og það er ekkert annað í boði en að halda áfram á þessari braut. Þó við séum taldir líklegir þá er þetta allt undir okkur komið. Við tökum einn leik í einu. Í dag tókum við þrjú stig og í næsta leik þurfum við að gera það sama, einbeita okkur að honum og taka aftur þrjú stig. Svo einfalt er það," sagði Emil Ásmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert