Ert ekki í liðinu ef þú mætir ekki á réttum tíma

Milos Milojevic fylgist með sínum fyrsta leik sem stjóri Breiðabliks.
Milos Milojevic fylgist með sínum fyrsta leik sem stjóri Breiðabliks. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Hann þarf bara að fara eftir sömu reglum eins og allir hinir,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is um bekkjarsetu Michee Efete í 2:1-sigri liðsins á Víkingi Ólafsvík í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Efete var á síðustu stundu settur á bekkinn, en hann kom of seint til móts við liðið fyrir leikinn.

„Ég talaði við hann og hann skilur þetta. Hann er atvinnumaður og veit að ef þú mætir ekki á réttum tíma þá ertu ekki í liðinu. En ég tek þetta á mig, ég tala serbnesku, íslensku og ensku en hann bara ensku svo kannski er erfitt að skilja mig. Ég tek ekki hausinn af honum fyrir þetta, hann kom inn síðustu 15 mínúturnar og lokaði vinstri kantinum hjá þeim,“ sagði Milos.

Hann var að stýra Blikum í fyrsta deildarleiknum og aðspurður hvort væri ekki léttir að byrja á sigri sagði Milos:

„Sigur í fyrsta leik gefur mér bara aðeins meira svigrúm að vinna aftur í næstu viku. Við erum ekki að fara að sofna á þessum þremur stigum, við þurfum að halda áfram en ef við endurtökum þessa frammistöðu þá verð ég ánægður. Strákarnir voru að berjast allan tímann og spila með hjartanu og ég er mjög ánægður með það,“ sagði Milos.

Blikar komust yfir með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla snemma í fyrri hálfleik en náðu aldrei að gera almennilega út um leikinn.

„Mér fannst við vera sterkari aðili í leiknum og stjórnuðum honum í rauninni, en hleypum hættunni heim með því að fá á okkur mark eftir hornspyrnu. Eftir það vorum við eiginlega of hneykslaðir til þess að gera eitthvað meira, en Víkingur er með flott lið og áttu mjög flott færi líka. Í seinni hálfleik fengum við tvö færi til þess að gera út um leikinn en gerðum ekki, svo þá er alltaf hætta,“ sagði Milos og var ósáttur með mark Víkinga.

„Þetta var aðeins of ódýrt en eitthvað sem við þurfum að laga. Þetta er samt ekki stórmál heldur bara einbeitingarleysi. Kannski var spennustigið of hátt, nýr þjálfari og við komnir yfir. Svo þetta lagast,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert