Eins og að setja niður keilu á æfingu

Ejub Purisevic.
Ejub Purisevic. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, var skiljanlega óhress með úrslitin eftir 2:1-tap fyrir Breiðablik í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Kópavoginum í kvöld.

„Við byrjuðum rosalega vel og mér hefði fundist sanngjarnt að komast yfir. En svo kemur korters-kafli þar sem við spilum rosalega illa. Við fengum tvö mörk í andlitið og eftir það var þetta ansi erfitt. En við svöruðum því samt rosalega vel og vorum óheppnir að jafna ekki í fyrri hálfleik. En til að skora mark gegn svona liði þarf að sýna meiri áræðni og hafa smá heppni jafnvel líka,“ sagði Ejub við mbl.is eftir leik.

„Breiðablik er með marga góða einstaklinga. Við vorum ekki opnir til baka, við vorum með rosalega marga til varnar, en ef þú pressar ekki boltann eða dekkar þinn mann þá lítur þetta út eins og að setja niður keilu á æfingu,“ sagði Ejub, en Blikar komust yfir eftir að varnarmaður Ólafsvíkinga hafði klikkað í rangstöðu.

„Við höfum bæði spilað leikkerfin 4-4-2 og núna 3-5-2, en stundum virka hlutirnir og stundum ekki. Það skiptir engu máli með hversu marga þú ert að verjast – ef þú verst ekki rétt þá ertu ekki tilbúinn til þess að dekka menn eða halda línu. Eins og í fyrsta markinu þá varð einn maður eftir og gerði alla réttstæða,“ sagði Ejub.

Hann breytti aðeins til í hálfleik og skipti úr þriggja manna varnarlínu í fjögurra manna línu.

„Ég vildi taka meiri áhættu í seinni hálfleik og setja meiri pressu. Við náðum að halda boltanum og pressa en náðum ekki að skapa nógu góð færi þótt við höfum átt góðar fyrirgjafir. Eftir að hafa lent 2:0 undir get ég ekki verið annað en ánægður með liðið og spilamennskuna. En eins og ég sagði í klefanum þá var þessi tíu mínútna kafli ekki boðlegur,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert