Afmælissigur og Fylkir á toppnum

Oddur Ingi Guðmundsson og Hákon Ingi Jónsson hjá Fylki setja …
Oddur Ingi Guðmundsson og Hákon Ingi Jónsson hjá Fylki setja pressu á HK-inginn Viktor Helga Benediktsson í Kórnum í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fylkir fagnar 50 ára afmæli á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, eftir öruggan sigur á HK í Kórnum í dag, 3:0, en Árbæjarfélagið var stofnað þennan dag árið 1967.

Fylkismenn eru komnir með 10 stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar, á undan Þrótti sem er með níu stig og Fram sem er með 8 stig. HK er í sjötta sætinu með 6 stig.

Eftir jafnan fyrsta hálftímann þar sem HK byrjaði betur en Fylkir náði smám saman undirtökunum kom Emil Ásmundsson Árbæingum yfir á 31. mínútu með góðu skoti af 20 m færi með jörðu í vinstra hornið.

Rothöggið kom svo undir lok fyrri hálfleiks þegar Fylkir bætti við tveimur mörkum. Albert Brynjar Ingason skoraði eftir snögga sókn á 42. mínútu og um níu sekúndum seinna gerði Emil sitt annað mark, aftur með skoti af 20 metra færi og nú var það þrumufleygur í hægra hornið. Staðan var því 3:0 fyrir Fylki í hálfleik.

HK-ingar náðu aldrei að ógna þessari forystu Árbæinga í seinni hálfleiknum og þeir sigldu því sigrinum heim af öryggi. Bæði lið fengu ágæt færi en mörkin urðu ekki fleiri.

HK 0:3 Fylkir opna loka
90. mín. Ásgeir Börkur Ásgeirsson (Fylkir) fær gult spjald Eitthvað hefur fyrirliðinn látið útúr sér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert