„Við tökum bara einn leik í einu“

Kristinn Ingi Halldórsson, kollegi Dions Acoff í framlínu Vals, brennir …
Kristinn Ingi Halldórsson, kollegi Dions Acoff í framlínu Vals, brennir af í upplögðu marktækifæri. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var erfiður fyrri hálfleikur, þeir eru sterkt lið. En ég var sáttur þegar boltinn fór svo loksins inn,“ sagði Dion Acoff leikmaður Vals eftir sigur liðsins á Víking Ólafsvík á Valsvelli fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Acoff átti góðan leik og nýttist hraði hans vel í sóknarleik Valsmanna. Þeim gekk erfiðlega að klára færin sín þar til boltinn datt fyrir fætur Acoffs um miðbik síðari hálfleiks.

„Við hefðum átt að skora meira því við fengum nóg af færum. En við fengum líka þrjú stig og það er það sem skiptir máli. Ég er sáttur með eigin frammistöðu, hún var góð á heildina litið,“ sagði Acoff.

Hann segist vera í fínu formi í upphafi tímabilsins. 

„Ég hef ekki áður komið til liðsins svona snemma á Íslandi og er í góðu standi. Mér hefur verið tekið mjög vel hjá Val og hér eru fínir strákar sem er auðvelt að umgangast.“

Val hefur verið spáð mjög góðu gengi í sumar en hverjar skyldu væntingar leikmannahópsins vera fyrir tímabilið? „Við tökum bara einn leik í einu og náum í eins mörg stig og við getum,“ sagði Acoff.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert