Elísa með slitið krossband og spilar ekki á EM

Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Elísa Viðarsdóttir, leikmaður Vals, staðfestir í samtali við vefinn fótbolti.net að hún sé með slitið krossband í hné en hún varð fyrir meiðslum strax á upphafsmínútunum í vináttuleiknum gegn Hollendingum í síðustu viku.

Þar með er ljóst að Elísa spilar ekki með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Hollandi í sumar en mikil meiðsli hafa herjað á leikmenn landsliðsins í vetur.

„Þetta er þungt högg en þessi spil eru lögð á borðið núna og við þurfum að spila úr því,“ sagði Elísa í samtali við fótbolti.net.

Dóra María Lárusdóttir, samherji Elísu með Val, sleit krossband í leik á Algarve-cup í síðasta mánuði og verður ekki með á EM og þá varð Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, fyrir því óláni að slíta fremra krossband á sama móti en sá möguleiki til staðar að hún verði búin að ná sér áður en flautað verður til leiks á EM.

Hólm­fríður Magnús­dótt­ir ristarbrotnaði í lok janú­ar, Dagný Brynj­ars­dótt­ir hef­ur verið að glíma við bak­meiðsli og Harpa Þor­steins­dótt­ir er ný­byrjað að æfa eft­ir barns­b­urð. Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska landsliðsins, held­ur enn í von­ina um að þær þrjár verði klárar áður en hann velur endanlegan leikmannahóp fyrir EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert