FH staðfestir brottför Finns Orra

Finnur Orri Margeirsson í leik með Breiðabliki.
Finnur Orri Margeirsson í leik með Breiðabliki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Finnur Orri Margeirsson sem gekk í raðir FH í haust frá Breiðabliki hefur ákveðið að taka tilboði norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström. Birgir Jóhannsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH staðfesti þetta við mbl.is í dag.

„Ég get staðfest að Finnur er farinn frá okkur því hann hefur ákveðið að taka tilboði frá Lilleström og fer til félagsins fljótlega í janúar. Þegar Finnur samdi við okkur í haust var ákvæði í samningnum að hann gæti farið ef eitthvað svona kæmi uppá. Við reyndum að gera allt sem við gátum til að reyna að halda honum en það dugði ekki til. Það er mjög erfitt að ætla að halda mönnum ef það kemur tilboð að utan. Við erum auðvitað mjög leiðir yfir því að missa Finn Orra því lögðum mikið á okkur til að fá hann,“ sagði Birgir við mbl.is.

„Nú tekur við að finna mann í hans stöðu. Þetta kom fljótt uppá svo við byrjum að taka stöðuna í dag með Heimi þjálfara og fara yfir málin,“ sagði Birgir en líklegt má telja að FH-ingar horfi út fyrir landsteinanna til að finna leikmann í stað Finns Orra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert