Ögmundur aftur til Sandnes Ulf

Ögmundur Kristinsson er kominn til Noregs á ný.
Ögmundur Kristinsson er kominn til Noregs á ný. mbl.is/Ómar

Ögmundur Kristinsson, markvörður og fyrirliði knattspyrnuliðs Fram, er kominn til æfinga hjá norska úrvalsdeildarliðinu Sandnes Ulf á nýjan leik.

Hann fór þangað strax og Íslandsmótinu lauk í lok september en varð þá fyrir því óláni að fingurbrotna á fyrstu æfingunni. Nú tekur hann upp þráðinn á ný og æfir með liðinu til föstudags.

Eins og fram hefur komið er Sandnes Ulf líka með Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörð úr KR, í sigtinu en hann æfði með liðinu fyrr í þessum mánuði til að halda sér í formi fyrir umspilsleikina  gegn Króatíu.

Sandnes Ulf náði að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni eftir harða baráttu í haust. Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur leikið með liðinu undanfarin þrjú ár en er nánast örugglega á förum þaðan. Steven Lennon, samherji Ögmundar hjá Fram undanfarin ár, gekk til liðs við félagið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert