„Ég mun aldrei drekka aftur“

Tinna ætlar að klæða sig upp á alla hátíðisdagana sem …
Tinna ætlar að klæða sig upp á alla hátíðisdagana sem framundan eru.

Það er áhugavert að fylgjast með Tinnu Aðalbjörnsdóttur vaxa og dafna í lífinu. Hún er þessa dagana að vinna fyrir RVK Studios að þáttaseríunni Ófærð 3. Þar á undan var hún í þáttaseríunni Kötlu. Tinna sagði á einlægan hátt í viðtali í sumar frá kraftaverkinu sem hún upplifði í lífinu þegar hún setti hugbreytandi efni á hilluna og vann í óleystum málum sem höfðu hrjáð hana lengi. 

„Það hefur margt jákvætt gerst hjá mér frá því í sumar. Ég er enn í Grettistaki endurhæfingu sem ég elska að hafa fengið upp í hendurnar í byrjun edrúmennskunnar þvi þetta hefur verið æðislegur tími með frábæru fólki. Ég klára það í lok apríl á næsta ári og þá er þeim áfanga í lífinu lokið. Einnig klára ég Ófærð í janúar og ætla ég að fara á fullt í minn eigin rekstur eftir það og taka að mér „casting“-verkefni og jafnvel fleiri búningaverkefni ef það býðst.

Lífið gengur svo vel hjá mér. Ég náði 25 mánaða edrú afmæli 1. desember og held ótrauð áfram. Ég hef tekið þá ákvörðun fyrir löngu að ég mun aldrei drekka aftur og ég þarf þess ekki. Ég skemmti mér svo vel edrú. Við Kristófer sonur minn búum saman í æðislegri íbúð og eigum svo fallegt líf saman. Bati minn hefur gefið syni mínum styrk og vellíðan og er hann að „brillera“ í skólanum þessa dagana sem ég er svo stolt af og hann er svo heilbrigður og góður drengur. Ég er þakklát alla daga fyrir hann. Einnig hef ég kynnst svo fallegum, góðum og heilbrigðum manni sem ég alveg dýrka. Hann er frábær manneskja sem hefur kennt mér fullt. Hann er heilbrigður á alla kanta og á fallega fjölskyldu sem mér er farið að þykja mjög vænt um. Ég er líka að tengjast sjálfri mér á svo heilbrigðan hátt.“

Tinna Aðalbjörnsdóttir á forsíðunni.
Tinna Aðalbjörnsdóttir á forsíðunni.

Ætlar að njóta sín með syninum á aðfangadag

Hvað ætlarðu að gera á jólunum?

„Við Kristófer ætlum að vera tvö heima á aðfangadag og njóta þess að vera saman. Við ætlum að elda góðan mat og hafa það eins rólegt og gott og við viljum. Stress er bannað á okkar heimili og ríkir bara kærleikur og ást hjá okkur. Við ætlum að elda dýrindis hátíðarmáltíð. Við ætlum að hafa humarsúpu í forrétt, nautalund og bernes með sætum bökuðum kartöflum og svo gerum við okkar eigin tobleroneís líka. Við hlökkum virkilega mikið til að eiga þennan dag bara tvö. Svo verðum við með fjölskyldu og vinum eins og má um hátíðina. Ég ætla að vera dugleg að fara í göngutúr alla hátíðina því ekkert jafnast á við íslenska náttúru á þessum tíma. Allt er svo hljótt og hátíðlegt og mikill kærleikur í loftinu sem ég ætla að anda að mér.“ 

Tinna og sonur hennar Kristófer ætla að vera tvö saman …
Tinna og sonur hennar Kristófer ætla að vera tvö saman á aðfangadag. Ljósmynd/Dóra Dúna

Strengir þú áramótaheit?

„Já, ég geri það. Núna síðustu tvö ár hef ég strengt þau heit að vera glöð og þakklát fyrir lífið og temja mér þakklæti. Einnig eru þau heit strengd að huga vel að líkama og sál. Þetta árið ætla ég að vera dugleg að vinna að markmiði mínu sem er fyrirtækið mitt og einnig að sinna útivist af bestu getu. Það er svo gott að hreyfa sig utandyra.“ 

Ætlar að hjálpa öðrum konum að fóta sig í lífinu

Tinna ætlar einnig að leggja áherslu á gleði, þakklæti og að hjálpa öðrum konum sem eru að koma aftur út í samfélagið eftir neyslu. 

„Ég ætla að veita þeim virðingu og vinsemd og hjálp við að ná sér á strik með því að vera til staðar fyrir þær. Það besta sem ég veit er að hjálpa öðrum konum.“

Hún segir frábært að vera komin til baka í starf fyrir RVK Studios og mikil forréttindi að fá að vinna við það sem hún elskar að gera.  

Áttu ráð fyrir þá sem sem dreymir um að fara meira inn í lífið sem þá langar að lifa?

„Mín ráð eru þau að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er. Eftir reynslu eins og mína þarf maður að byrja á því að fyrirgefa sjálfri sér og taka upp nýtt líf. Ég var með dagsplan í heilt ár eftir að ég fór í meðferð og með því náði ég mínum besta árangri. Ég setti allt á listann á þessu ári sem mig langaði að ná og þegar ég var búin að ná einni til tveimur vikum með allt í plús setti ég inn næsta markmið. Það þarf að byrja smátt og bæta svo við sig. Ég lífi enn með dagsplan í hausnum því ef ég næ ekki því sem mig langar þá held ég áfram næstu daga. Ég skamma mig ekki fyrir að ná ekki settu marki heldur leyfi mér að gera mistök og segi sjálfri mér að ég geri betur á morgun. Þá einhvern veginn næ ég alltaf þeim markmiðum sem ég set mér fyrir vikuna. Hvíld og heilbrigð næring er einnig mikið atriði. Bæn er mér mikilvæg og heldur það mér gangandi. Án bænarinnar næði ég ekki þessum markmiðum. Svo er það heilbrigði sem maður þarf að velja í kringum sig. Svo er gullið. Það er að vera góð og sátt við sjálfan sig og huga vel að því. Ég náði því með því að æfa mig í að vera ein og þá náði ég að setja mig í fyrsta sæti og hvað það var sem gladdi mig og gerði mér gott.“ 

Setur heilsuna í forgang

Tinna segir heilsuna skipta sig öllu máli.

„Ég passa upp á svefninn. Ég vel að borða hollan og næringarríkan mat og drekk mikið vatn. Ég elska svo að eiga tíma með sjálfri mér og vera með dekurdaga, þar sem ég byrja á að kveikja á kertum heima, þurrbusta á mér húðina og ber svo á mig brúnkukrem. Næstu tvo tímana set á ég mig naglalakk á tær og fingur, fæ mér kaffi og eitthvað gott með því. Set á mig rakamaska í andlitið og dunda mér heima við á meðan brúnkan sest inn í húðina. Svo fer ég í góða sturtu og ber á mig Lauga Spa Skincare-skrúbb og svo eftir á krem frá sömu línu. Stundum leggst ég svo upp í rúmið mitt eða sófa og hlusta á hlaðvarp eða les smávegis í bók.“

Tinna vekur eftirtekt hvar sem hún kemur fyrir að vera alltaf fallega klædd. Hún getur því ekki beðið eftir að klæða sig upp á alla hátíðisdagana sem fram undan eru. 

„Mér finnst svo gaman að klæða mig upp á. Ég er búin að vera að vinna mikið úti síðan í september svo fínu fötin mín hafa hangið mestmegnis inni í skáp. Ég er búin að kaupa mér nokkur dress fyrir hátíðarnar og hlakka mikið til að eiga tíma með mér og hafa mig til alla hátíðardagana. Ég ætla að kíkja á Andreu fyrir jólin og splæsa á mig skóm fyrir áramótadressið svo ég hlakka mikið til að klæðast fínum fötum þessa daga.“

Þessi mynd var tekin af Tinnu í vor þegar hún …
Þessi mynd var tekin af Tinnu í vor þegar hún prýddi forsíðu tímarits Smartlands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál