Ástand húðarinnar hefur áhrif á sjálfstraustið

Bryndís Alma býr í Sviss sem er að margra mati höfuðvígi heilsunnar. Þar býr hún með 22 mánaða gömlum syni sínum og eiginmanni. Hún er hagfræðingur að mennt, með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja. Hún á fjölskyldu ytra og nær að sameina áhugamál og vinnu í gegnum starf sitt hjá Húðfegrun þar sem hún gegnir stöðu framkvæmdastjóra.

„Ég er dugleg að ferðast á milli landa og þegar ég er í Sviss sinni ég vinnunni minni í gegnum tölvuna. Það eru forréttindi að starf mitt sé líka áhugamál mitt og að ég geti nýtt menntun mína vel í starfinu. Ég á lítinn fallegan snáða og mann hérna í Sviss sem ég elska að vera í kringum. Það getur verið krefjandi á köflum að sameina starfið og fjölskylulífið. Það krefst mikillar skipulagningar að púsla öllu saman svo allir dagar gangi upp fyrir alla. En ég er svo lánsöm að vera mjög skipulögð að eðlisfari og ég hef ánægju af allri þeirri skipulagningu sem ég þarf að sinna. Við erum með dásamlegan au-pair hjá okkur í Sviss sem hjálpar okkur með strákinn og gerir mér kleift að ferðast oftar til Íslands og taka strákinn minn með mér í vinnuferðir til Íslands.“

Hátæknifyrirtækið Húðfegrun

Húðfegrun er fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið í rekstri í 19 ár en móðir hennar, Díana Oddsdóttir hjúkrunarfræðingur, er stofnandi þess. „Við skilgreinum okkur sem hátæknifyrirtæki í heilbrigðisgeiranum á sviði húðmeðferða og leggjum metnað í að að bjóða meðferðir framkvæmdar með nýjustu leysitækni hverju sinni. Það er markmið okkar hjá Húðfegrun að hjálpa fólki að viðhalda heilbrigði húðarinnar án þess að verið sé að breyta útliti,“ segir Bryndís Alma og útskýrir að starfsfólk Húðfegrunar sé sérþjálfað hjúkrunarfólk.

Það er vandmeðfarið að halda í náttúrulegt útlit með aðgerðum á andliti en Bryndís Alma er án efa besta sönnun þess að meðferðir stofunnar virka. Hún er með undurfagra húð sjálf, náttúrulega fegurð og mikla útgeislun.

„Að viðhalda heilbrigði húðar er lífsstíll og það hefur lengi vel verið í tísku að hafa fallega húð á andliti og líkama. Ég hef alltaf hugað vel að minni húð en hef nýtt mér meðferðir hjá okkur til að gera hana ennþá betri.

Nánast frá upphafi stofunnar hef ég farið reglulega í kristalls- og demantshúðslípun til að hreinsa ysta lag húðarinnar. Þannig losa ég húðina við dauðar húðfrumur svo virku efnin í góðu kremunum mínum nái að komast niður í undirlag hennar. Þetta kemur í veg fyrir exem og þurrk í húðinni, ásamt því að gefa henni fallega áferð og endurheimtan ljóma.

Á unglingsaldri var ég með fitustíflur og exemþurrkbletti í andlitinu. Með því að hafa farið alltaf reglulega í kristalls- og demantshúðslípun í gegnum árin er ég laus við þessi vandamál í dag.

Núna á síðustu árum hef ég tekið eftir að húðslípunarmeðferðin hefur aðstoðað við að draga úr opnum svitaholum og smá óhreinindum á nefinu sem ég var farin að taka eftir en er nánast ekki sjáanlegt í dag.

Eftir að ég eignaðist strákinn minn fyrir tæpum tveimur árum hef ég þurft að nýta mér flottu tæknina hjá okkur enn meira. Það hefur verið lítið um svefn síðan litli kúturinn fæddist og fyrir um ári fannst mér þreytumerkin vera farin að sjást á andlitinu. Ég var komin með mikla bauga og mér fannst ég rosalega þreytuleg þegar ég leit í spegil. Mér fannst tilvalið að prófa þá svokallaða leysilyftingu á augnsvæðinu. Eftir hverja meðferð sá ég mikinn mun; baugarnir og þreytumerkin voru orðin minni. Þrátt fyrir að svefnleysið sé viðvarandi eru þreytumerkin horfin.“

Bryndís Alma segir að heilbrigði húðarinnar geti aukið lífsgæði og uppfyllt þrána eftir að vera besta útgáfan af sjálfum sér. „Þegar ástand húðarinnar er slæmt getur það haft mikil áhrif á sjálfstraust fólks. Mér finnst skipta miklu máli að veita faglega þjónustu til þeirra sem vilja viðhalda húðinni og halda útlitinu fersku og heilbrigðu með árunum.“

Jafnrétti kynjanna marktækt eftir á í Sviss

Að hvaða leyti er ólíkt að búa í Sviss og á Íslandi?

„Fyrst og fremst finnst mér fólk í Sviss hugsa betur um heilsuna hvað varðar mataræði og almenna hreyfingu. Bæði öfgar og offita einstaklinga eru minna áberandi. Það er auðveldara að hreyfa sig í daglegum erindum og halda þannig við heilbrigðum lífsstíl án þess að þurfa að mæta í líkamsrækt. Veðurfarið spilar þar stóran þátt. Það er töluvert öðruvísi matarmenning í Sviss, það er mikil áhersla á hollan og „bio“-merktan mat. Það er áberandi hvað fjölskyldur setja mikinn metnað í að elda hollan mat heimavið og lítið er um skyndibita.

Allar samgöngur eru mjög góðar í Sviss og það er auðvelt að komast á milli staða innanlands. Svo er auðvelt að ferðast til annarra landa, enda er Sviss vel staðsett með landamæri að Ítalíu, Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og Liechtenstein.

Ekki er allt þó jákvætt við búsetu í öðru landi, jafnrétti kynja er marktækt eftir á í Sviss samanborið við Ísland. Sem dæmi þá er hefð fyrir því að konur minnki við sig vinnu eftir að þær eignast börn en þá eru þær oft í 40-60% starfshlutfalli. Á heimilum þar sem báðir foreldrar vinna fulla vinnu er algengt að ráðin sé au-pair til aðstoðar. Einnig er mun dýrara að hafa börn á leikskóla í Sviss en á Íslandi.“

Bryndís Alma segir það hafa tekið langan tíma að koma upp kerfi svo hlutirnir gætu gengið upp hjá fjölskyldunni. „Fæðingarorlofið í Sviss er einungis þrír og hálfur mánuður fyrir konur og tveir til sjö dagar fyrir karlmenn. Ég sótti um á ungbarnaleikskóla þegar ég var komin þrjá mánuði á leið til að reyna að fá pláss þegar barnið yrði þriggja og hálfs mánaðar en fékk ekki pláss fyrr en hann var orðinn sjö mánaða. Það tók því við erfiður tími að púsla saman fullri vinnu og heimili með ungbarn. Allur tími sem gafst var vel nýttur og ég vann með litla ungann framan á mér. Það er algengast hérna í Sviss að börn fari á ungbarnaleikskóla svona ung eða að ráðin sé svokölluð „nanny“. Ég tók mörg viðtöl við ýmsar stelpur sem titluðu sig sem nanny meðan ég var að bíða eftir að fá pláss á leiksskólanum en ég fékk mig ekki til að ráða neina þeirra til að aðstoða mig. Mér þótti erfitt að treysta þeim fyrir syni mínum svona ungum. Þegar hann varð sjö mánaða fékk ég pláss á leikskóla fyrir hann tvo daga í viku. Í kjölfarið fór ég að leita að „au-pair“ til að aðstoða mig með hann yfir daginn og með heimilið. Það tók sex mánuði að finna hana og svo þrjá mánuði í viðbót að bíða eftir að hún væri laus svo hún gæti komið til okkar. Það kom upp í huga mér á köflum að hætta vinna og vera heimavinnandi. En ég fann að þegar ég sinnti vinnunni gaf það mér svo mikið, enda er hún stór hluti af mér. Að vera staddur erlendis með enga aðstoð er meira en að segja það. Ég fékk smávegis aðstoð frá fjölskyldu og vinum, sem var mér mjög dýrmætt. Þessi yndislegi en erfiði tími kenndi mér svo mikið. Kerfið hérna í Sviss finnst mér mjög mikið á eftir nútímanum. Þetta gerir mörgum konum svo erfitt fyrir að komast aftur til vinnu.“

Það er hægt að vinna húðina til baka

Hvað viltu segja við konur sem eru ungar í anda en húðin farin að sýna merki öldrunar?

„Það er alltaf hægt að vinna húðina til baka. Þegar konum jafnt sem körlum finnst húðin vera orðin þreytuleg og farin að slappast og ekki lengur í takt við ungan anda er gríðarlega fjölbreytt úrval af meðferðum í boði og margt sem hægt er að gera til að vinna húðina til baka. Það er alltaf gott að byrja að fyrirbyggja og huga að heilbrigði húðar á andliti og líkama í kringum þrítugt. Það er margt sem er í boði í húðmeðferðum sem getur aukið heilbrigði húðar og haldið henni heilbrigðri og unglegri fyrir þá sem það kjósa. Það er auðvelt að bæði losna við djúpar línur og slappa húð.“

Innleiðir það allra nýjasta

Bryndís Alma hefur verið dugleg að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast í Sviss og öðrum nágrannalöndum. „Við höfum innleitt allt það nýjasta sem er að gerast hjá Húðfegrun og eins besta tækjabúnaðinn. Við tókum nýlega í notkun nýjan og betri háreyðingarleysi sem getur eytt öllum gerðum og litum af hárum, ljósum, millilituðum og dökkum. Hann eyðir einnig hárum á mismunandi vaxtarstigi sem gerir það að verkum að einstaklingur þarf færri meðferðir. Áður var erfitt að eyða ljósum hárum og ekki neinn leysir hér á landi sem hefur getað gert það almennilega svo nýi háreyðingarleysirinn hjá okkur er mjög skemmtileg viðbót hérna á Íslandi.“

Engir tveir dagar eins

Hvernig er hinn dæmigerði dagur í þínu lífi?

Það eru engir tveir dagar eins í mínu lífi og engar vikur eins. Það er mikið púsluspil að reka fyrirtæki í öðru landi og vera með lítið barn. Flesta morgna vakna ég rúmlega sex með litla stráknum mínum, sem er mikill morgunhani. Við fáum okkur morgunmat saman og kveðjum pabbann sem leggur af stað í vinnu snemma. Við mæðgin njótum okkar morgunstundar saman á hverjum degi. Síðan taka við ýmis plön hjá mér sem eru breytileg eftir því hvaða verkefnum ég er að vinna að hverju sinni. Það geta verið fjármál, áætlanir, markaðsmál eða eitthvað óvænt sem viðkemur rekstrinum. Öll kvöld borðum við fjölskyldan hollan og góðan kvöldmat saman. Svo tekur við kvöldbað og sögustund.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál