Við erum greinilega að gera eitthvað rétt

Kolbrún Kristjánsdóttir hárgreiðslumeistari og einn af eigendum Portsins.
Kolbrún Kristjánsdóttir hárgreiðslumeistari og einn af eigendum Portsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbrún Kristjánsdóttir hárgreiðslumeistari rekur hárgreiðslustofuna Portið ásamt Sverri Diego og Önnu Stefaníu Aðalsteinsdóttur. Hún segir að draumar þeirra hafi ræst þegar þau opnuðu stofuna en þau fengu Arnar Gauta Sverrisson til að hann stofuna fyrir sig. Stofan þykir það flott að aðrar hárgreiðslustofur hafa apað smartheitin upp eftir þeim. 

„Portið er drauma vinnustaðurinn. Við erum þrjú sem rekum stofuna og höfum mikla reynslu samanlagt. Við ákváðum að grípa boltann þegar þetta sturlaða rými bauðst og skapa okkar eigin stofu. Við erum með tíu stóla og hjá okkur vinnur flott fagfólk og er því alltaf líf og fjör hjá okkur. Ég gæti ekki verið sáttari með fólkið í kringum mig,“ segir Kolbrún. 

Stofan hefur vakið athygli fyrir smekklega hönnun. Þegar Kolbrún er spurð að því hverju þau hafi viljað ná fram segir hún að þau hafi sóst eftir að hafa afslappað og fallegt umhverfi sem tekur vel á móti kúnnanum. 

„Við vorum svo heppin að fá að velja okkur rými í nýju húsnæði. Við fengum bókstaflega steypuklump upp í hendurnar þar sem við gátum farið algjörlega okkar leiðir og gert allt frá grunni. Rýmið er með gríðarlegri lofthæð, bjart og opið.  Við vildum vinna með andstæður þar sem hrá steypa, sléttflauel í húsgögnum og dökkir litatónar koma saman. Við vildum hafa stílinn grófan og hráan með messing og speglum sem skapar algjörlega frábæra stemningu. Okkur finnst útkoman eitthvað allt annað en á öðrum stofum og það var einmitt þar sem við hittum naglann á höfuðið. Það er mikill „Wow factor“ í stóra speglaverkinu sem við eyddum miklum tíma í að vinna. Grétar arkitekt hannaði það með okkar óskum. Þetta voru um það bil 60 speglabrot í sitthvorri stærðinni, lögun og litum sem við settum saman. Ég hef sjaldan verið jafn glöð og þegar þetta var komið upp óbrotið. Það hlýtur allavega að boða 7 ára gæfu ef ekki meir,“ segir Kolbrún. 

Hún segir að þau hafi viljað hafa stofuna þannig innréttaða að viðskiptavininum fyndist hann mjög velkominn. 

„Við ákváðum að hafa miðjuna í rýminu sem biðstofu, það kemur rosalega vel út. Fólk gengur yfirleitt beint þangað og tyllir sér í fallegu flauelsstólana og fær sér kaffi.  Við höfum fengið einstaklega mikið hrós frá viðskipavinum hvað biðstofan er hlýleg og býr til skemmtilega stemningu. Við erum þakklát Arnari Gauta fyrir hönnunina á stofunni. Hann er mjög góður í því að blanda saman ódýrum og dýrum lausnum þannig að útkoman verði falleg. Viðmótshönnun er eitthvað sem hann kann vel og nær fram á sinn einstaka hátt,“ segir hún. 

Eitthvað hefur borið á því að aðrir í bransanum séu að apa eftir hönnun Arnars Gauta. Kolbrún segir að þau líti á það sem hrós. 

„Við erum greinilega að gera eitthvað sem fólki finnst flott og tekur eftir og er því greinilega að virka. En persónuleg færi ég aldrei þá leið. Það er búið að eyða miklum tíma, pælingum og peningum í eitthvað einstakt þá fyndist mér það frekar taktlaust,“ segir hún. 

Aðspurð um hvað einkennir góða hárgreiðslustofu segir hún að það sé góð samvinna á milli fagfólks. 

„Þetta er svo lifandi fag að maður þarf alltaf að vera á tánum og opin fyrir nýjungum.  Fylgjast vel með tískustraumum og vera svolítið með´etta.  Fallegt og þægilegt umhverfi þar sem kúnnanum líður vel og getur notið sín til fulls skiptir líka máli. Þetta eru svo miklar gæðastundir sem kúnninn á þegar hann mætir í stólinn að það skiptir máli að hafa góða tónlist, gott kaffi, blöð og extra gott höfuðnudd og svo er ekki verra ef hægt er að fara á trúnó. Mér finnst líka skipta máli að klippistólar og vaskastólar séu xtra þægilegir og lögðum við mikið uppúr því. Svo skiptir vöruval miklu máli. Við erum með það besta á markaðnum í dag, HH Simonsen, label m og Davines. Það fullkomnar alls em kúnninn þarf í hárið hvort sem það er sjampó eða næring, raftæki eða litir.“

Hvað um hártíska vorsins, hvað er fólk að biðja um núna sem það hefur ekki beðið um áður?

„Mér finnst frábært hvað strákar hafa miklar skoðanir á hárinu á sér og eru farnir að vera óhræddir að sýna myndir og gera kröfur. Herratískan er aðeins að breytast og eru þeir farnir að vilja toppa og aðeins meira „retro look“ og sterkar línur. Klassíska herralookið og skinfade heldur líka áfram inní sumarið. Mér finnst áberandi hvað dömurnar eru farnar að biðja meira um styttur, svolítið 70´s fíling og eru jafnsíðu bob klippingarnar aðeins að víkja fyrir meiri náttúrulegum liðum, hreyfingu og stuttum klippingum. Toppar í öllum formum eru alltaf skemmtilegir og poppa oft upp lúkkið, hvort heldur sem sterka beina toppa eða mjúka hliðartoppa. Tíska finnst mér alltaf svolítið afstætt hugtak og finnst mér alltaf flottast þegar fólk er eins og það vill vera. Það er svo margt í gangi og hrífst ég alltaf mest af týpum sem eru nákvæmlega eins og þær vilja vera óháð öðrum, það er eitthvað heillandi við það! Hlýir litatónar verða áberandi í sumar í ýmsum tónum gyllt, peach, kopar og svo auðvitað náttúrulegir ljósir litir. Fallegir súkkulaðibrúnir fyrir þær dökkhærðu, jafnvel með smá hreyfingu. Þær sem vilja vera djarfar er alveg málið blanda saman hlýjum og köldum tónum í hárið og fá ennþá meiri stemmingu! Andstæðir litir gefa skemmtilegan fíling,“ segir hún. 

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í vinnunni?

„Alveg frá því ég var lítil vissi ég hvað ég vildi verða. Ég ætlaði að verða hárgreiðslukona!  Þannig að allir dagar eru skemmtilegir í vinnunni minni. Ég hef gríðarlega ástríðu fyrir litum og klippingum, það er það sem ég brenn mest fyrir í faginu. Ég elska skærin mín og allskonar klippitækni og blanda á litabarnum þar gerast oft miklir töfrar! Að fá fólk í stólinn og setja réttan lit i hárið miðað við augn-og húðlit, klippa form sem hæfir andlitsfalli er eitthvað sem mínir dagar snúast um. Ekkert skemmtilegra en þegar fólk labbar ánægt og sátt frá mér með nýtt og flott útlit. Elska að gera eitthvað nýtt og öðruvísi! Ég er svo heppin í mínu starfi að hef ég fengið að kenna og halda námskeið bæði öðru fagfólki og nemendum, gefa reynslu mína og þekkingu hér heima og erlendis. Fengið að vinna fyrir stór fyrirtæki og að upplifa að vinna með fólki sem er á heimsvísu í faginu. Eigum við ekki að segja að allir dagar séu skemmtilegir og gefandi í vinnunni,“ segir hún. 

Dökkir litir eru áberandi á Portinu. Hér má sjá hillur …
Dökkir litir eru áberandi á Portinu. Hér má sjá hillur úr messing sem koma vel út. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Mikið er lagt upp úr þægindum á stofunni.
Mikið er lagt upp úr þægindum á stofunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Speglaveggurinn skapar mikinn wow-factor.
Speglaveggurinn skapar mikinn wow-factor. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál