Er hægt að stækka brjóst með fituflutningi?

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica, er spurð að því hvort hægt sé að stækka brjóst með því að sjúga fitu af öðrum líkamshlutum. 

Sæl

Hvar get ég fundið upplýsingar um fituflutning í brjóstin?

Ég hef verið að pæla í því vegna þess að mig langar að stækka brjóstin um 1-2 skálastærðar, án þess að fara í svakalega aðgerð og setja púða, mig langar í eitthvað aðeins náttúrulegra.

Hvað kostar svona aðgerð og hvað er maður lengi að jafna sig á henni?

Eru brjóstin líklegri til að síga ef maður setur meiri fitu í þau?

Er það vandamál ef ég er ekki með mikla fitu á mér? Ég er frekar mjó og langar ekki sérstaklega mikið að losna við fitu neins staðar nema fyrir þessa aðgerð.

Ég hef leitað á heimasíðu Dea Medica en finn ekki upplýsingar um svona aðgerð.

Kveðja, S

Sæl „S“ og takk fyrir spurninguna.

Í dag er hægt að fletta öllu upp og lesa sér til um allt. Þegar þín eigin fita er sett í brjóstin þá heitir það „lipofilling in breasts“.

Þetta hefur verið gert í rúmlega áratug með misgóðum árangri og verið umdeilt í heimi lýtalækna. Jafnvel bannað í sumum löndum vegna gruns um tengsl við brjóstakrabbamein.

Oft er „gulli og grænum skógum lofað“ eða frábærum árangri lofað á heimasíðum erlendra lýtalækna. En það er nú ekki alltaf gull sem glóir!

Ég hef persónulega oft stækkað brjóst með eigin fitu kvenna, oftast frá magasvæði. Fitan er einangruð og hreinsuð, síðan sprautað framan við kirtilinn eða undir hann. Mikilvægt að fitan fari í kirtilvefinn sjálfann. Svo er alltaf gert ráð fyrir að hluti af fitufyllingunni eyðist, misjafnt hve mikið. Yfirleitt er miðað við 20% tap af fitunni, en það getur verið meira. Og flókin staða ef mismikið hefur tapast úr brjóstunum, þá getur kona sem var með jöfn brjóst fengið misstór brjóst eftir tímafreka og dýra aðgerð.

Ég mæli með þessu f.o.fr. fyrir yngri konur með misstór brjóst sem hafa umframfitu á magasvæði og eru ánægðar með stærra brjóstið!

Nú eða fyrir konur sem hafa farið í uppbyggingu á brjóstum eftir krabbamein.

Í þínu tilfelli hljómar það eins og þú sért ekki kandídat í þessa aðgerð en samt alltaf gott að meta í hverju tilviki fyrir sig.

Ég ráðlegg þér að panta þér tíma á stofu hjá lýtalækni.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir Dea Medica.

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál