Kjóllinn sem spariguggurnar slást um

Aldís María Firman Árnadóttir, Máxima Hollandsdrottning og Madeleine Svíaprinsessa eiga …
Aldís María Firman Árnadóttir, Máxima Hollandsdrottning og Madeleine Svíaprinsessa eiga allar Margot kjólinn frá Roksanda.

Brúðkaup ársins í Bretlandi var án efa þegar Pippa Middleton gekk að eiga James Matthews. Spariklæddir gestir í streymdu í brúðkaupið en þar á meðal var Aldís Kristín Firman Árnadóttir. Aldís klæddist bláum Margot kjól frá Roksanda. Við kjólinn var hún í húðlituðum sokkabuxum og húðlituðum skóm.

Kjóllinn Margot frá Roksanda hefur notið vinsælda hjá hinum ríku og frægu en Melania Trump klæddist hvítum kjól af sömu tegund síðasta sumar þegar hún og eiginmaður hennar, Donald Trump, voru í kosningabaráttu. Tískublaðamenn í Bandaríkjunum höfðu orð á því þegar frú Trump birtist í kjól Roksöndu að hún væri að feta í fótspor Jackie Kennedy og Katrínar hertogaynju af Cambridge sem tískufyrirmynd.

Melania Trump fer ekki út úr húsi nema vera mað …
Melania Trump fer ekki út úr húsi nema vera mað vel blásið hár sem er krullað í endana. Hér er hún í kjólnum góða frá Roksanda. mbl.is/AFP

Madeleine Svíaprinsessa á líka einn slíkan kjól en hún klæddist honum fyrir um ári síðan í skírn systursonar síns eða þegar Viktoría Svíaprinsessa skírði Óskar son sinn. Máxima Hollandsdrottning á líka einn slíkan og hefur hún klæðst honum opinberlega. Við kjólinn hefur hún líka verið í húðlituðum sokkabuxum og húðlituðum skóm.

Hægt er að fá kjólinn í nokkrum efnum. Blái kjóllinn sem Aldís og Máxima klæddust er úr krep efni og með sniðsaum í mittinu og á maga. Hálsmálið á þeim bláa er slétt á meðan það er felling á hálsmáli kjól Madeleine Svíaprinsessu.

Aldís Kristín Firman Árnadóttir, sem er á myndinni til vinstri …
Aldís Kristín Firman Árnadóttir, sem er á myndinni til vinstri í bláum kjól, var gestur í brúðkaupi Pippu og James um helgina. Ljósmynd/Samsett

En hvers vegna er kjóllinn svona vinsæll? Jú, mögulega vegna þess að hann er klæðilegur. Hann er aðsniðinn án þess þó að vera alveg sleiktur við líkamann. Hann er líka með ermum sem er klæðilegt og hentar vel hvernig sem viðrar. Kvenpeningurinn er oft og tíðum viðkvæmur fyrir berum handleggjum og því er gott að geta pakkað þeim inn í kjól með ermum. Púffið á ermunum gefur kjólnum fallegt yfirbragð og veitir honum sérstöðu.

Nú svo eru það húðlituðu sokkabuxurnar. Þær þóttu ákaflega töff fyrir um 20 árum en duttu svo algerlega úr tísku. Á tímabili þótti ekkert eins sorglegt og kona í húðlituðum sokkabuxum en nú eru þær komnar inn aftur. Það sem er gott við húðlitaðar sokkabuxur að þær er hægt að fá með aðhaldi sem gerir það að verkum að magasvæðið verður ansi fínt þegar því er pakkað inn í kjól frá Roksanda.

Þegar konur eru komnar í húðlitaðar sokkabuxur við húðlitaða skó virkar fótleggur lengri því það er ekkert sem truflar sjónlínuna. Það að klæða sig fallega snýst nefnilega ekki bara um að velja flott föt heldur úthugsa allar línur og hvert einasta smáatriði. Þetta trix að klæðast húðlituðum sokkabuxum við húðlitaða skó má nota við nánast hvaða kjól sem er og ef þú vilt uppfæra þig aðeins fyrir sumarið þá virkar þetta trix vel. Passaðu bara að vera í skóm með lokaðri tá – ekki opinni! Og svo er ekki vitlaust að láta vaxa á sér fótleggina því mjög loðnir leggir í húðlituðum sokkabuxum er vond hugmynd (nánari útskýringa er ekki þörf).

Hver er Roksanda?

Merkið var fyrst kynnt á tískuvikunni í Lundúnum árið 2005 en prímusmótor þess er Roksanda Ilincic sem er frá Serbíu. Hún lærði í Central St Martins´s. Síðan merkið var fyrst kynnt hefur það vaxið og dafnað og er í dag ákaflega vinsælt. Það sem er heillandi við merkið er að það býr til föt sem láta kvenlegan vöxt njóta sín til fulls. Þótt fatnaður frá Roksanda sé seldur í 40 löndum víða um heim þá opnaði tískuhúsið ekki sína eigin verslun fyrr en 2014. Hún er staðsett í Lundúnum á 9 Mount Street í Mayfair.

Roksanda Ilincic.
Roksanda Ilincic.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál