Nauðsynlegt að nota maska út af fluginu

Einhildur Ýr Gunnarsdóttir er bæði snyrtifræðingur og flugfreyja. Hún hugsar …
Einhildur Ýr Gunnarsdóttir er bæði snyrtifræðingur og flugfreyja. Hún hugsar vel um heilsuna og húðina.

Einhildur Ýr Gunnarsdóttir, snyrtifræðingur og flugfreyja, hugsar vel um heilsuna og húðina. Hún er sérfræðingur í Guinot-meðferðum og notar til dæmis alltaf dagkrem og maska frá þeim til þess að húðin sé glóandi. Ég spurði hana spjörunum úr. 

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Ég er jákvæð að eðlisfari og horfi á lífið með björtum augum. Ég stunda reglulega líkamsrækt, passa vel upp á svefninn og borða hollan mat.“

Hvað gerir þú til að láta þér líða betur?

„Ég á yndislega fjölskyldu og vini sem styðja mig í einu og öllu. Mér finnst fátt betra en að vera í góðra vina hópi.“

Hvað borðar þú á hverjum degi til að stuðla að betri heilsu?

„Ég fæ mér alltaf morgunmat og hugsa um það sem ég set inn fyrir mínar varir. Ég borða fjölbreytta fæðu og er dugleg að drekka vatn. Það hentar mér mjög vel að vera á 5:2 mataræðinu.“

Hvernig pródúserar þú 5:2 mataræðið?

„Ég fasta einu sinni til tvisvar í viku. Á þeim dögum sem ég fasta borða ég um 500 hitaeiningar. Þá daga sem ég fasta ekki borða ég það sem ég vil. Þetta mataræði hentar mér vel. Ég skipti hitaeiningunum upp og fæ mér morgunmat og kvöldmat. Ég byrja daginn yfirleitt á hafragraut eða hafraklöttum með banana og í kvöldmat fæ ég mér yfirleitt ommilettu.“

Er eitthvað sem þú borðar ekki?

„Ég reyni að forðast unnar kjötvörur og ég er ekki mikið fyrir mjólkurvörur.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég hreinsa húðina ávallt kvölds og morgna. Ég nota mildan djúphreinsi einu sinni til tvisvar sinnum í viku og nota maska (mismunandi) þrisvar sinnum í viku. Ég er dekurskotta og reyni að fara einu sinni í mánuði í andlitsmeðferð.“

Uppáhaldskrem?

„Hydra finish, litað dagkrem frá Guinot og svo er ég háð augnkreminu Eye Fresh sem dregur úr þrota og baugum.“

Hvernig farðar þú þig dags daglega?

„Ég farða mig létt. Nota litað dagkrem (Hydra finish) og Bare Minerals-steinefnapúður yfir. Ég er yfirleitt alltaf með maskara og litað gloss.“

En spari?

„Það fer eftir tilefninu, set samt yfirleitt alltaf á mig eyeliner og örlítið dekkri varalit til þess að vera fínni. Það sakar ekki heldur að setja smá kinnalit og highliter á kinnbeinin.“

Hvað gerir þú til að glóa klukkan sex á morgnana þegar þú mætir í flug?

„Ég reyni að ná góðum svefni og svo er ég dugleg að næra húðina með rakagefandi og nærandi möskum. Húðin verður svo þurr í fluginu og því nauðsynlegt að nota maska reglulega, enda gefa þeir húðinni glóa og frískleika.“

Hvernig farðar þú þig um augun?

„Ég vil vera létt förðuð um augun. Ég nota augnkrem, maskara og baugahyljara eftir þörfum.“

Hvað gerir þú til að halda þér í formi? „Ég fer í ræktina fimm sinnum í viku en markmiðið fyrir sumarið að fara oftar í sund og jóga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál