„Flóknustu ástarsambönd sem til eru“

Sæunn Kjartansdóttir hefur skrifað bók um samband sitt við móður …
Sæunn Kjartansdóttir hefur skrifað bók um samband sitt við móður sína. mbl.is/Árni Sæberg

Sálgreinirinn Sæunn Kjartansdóttir hefur nýlokið við að skrifa bók um eigin barnæsku sem lýsir margbrotnu sambandi hennar við móður sína. Hún segir alla eiga sér sögu og með því að deila þeim sjáum við skýrar hversu margslungið líf okkar allra getur verið. Hún segir flóknustu ástarsamböndin sem til eru vera tengslin á milli foreldris og barns. 

S æunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur og sálgreinir frá Arbours Association í London, er einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna. Hún starfar með fólki en hefur einnig í gegnum árin skrifað vinsælar bækur um barnæskuna.

Nýverið lauk hún við að skrifa bókina Óstýriláta mamma mín... og ég – sem fjallar að hluta um hennar eigin barnæsku en einkum þó um ævi móður hennar og sambandið þeirra á milli.

Hún segir töluverðan mun á þessari sögu og því sem hún hefur látið frá sér á prenti áður.

„Þessi bók á sér langan aðdraganda en kveikjan að henni var andlát mömmu fyrir 12 árum sem bar að með nokkuð óvenjulegum hætti. Ég fann sterka þörf til að vinna mig út úr tilfinningum sem vöknuðu þá en þurfti að bíða í fjögur ár með að byrja að skrifa. Ég þurfti tíma og næði því að ég gat ekki unnið þessa bók með sama hætti og annað sem ég hef skrifað, þegar frítími hefur gefist hér og þar. Í fyrstu vissi ég ekki hvað ég myndi gera við þessi skrif, hvort þau yrðu bara fyrir mig og fjölskyldu mína. Þetta var fyrst og fremst mikilvæg úrvinnsla fyrir mig.“

Hér má sjá kápumyndina af bókinni.
Hér má sjá kápumyndina af bókinni.

Óstýrilát móðir sem var á undan sinni samtíð

Sæunn segir úrvinnslu tilfininga geta gerst með svo margvíslegum hætti.

„Við getum skrifað hluti niður eða rætt þá við góðan vin eða fagaðila. Smám saman undu skrifin upp á sig og tóku aðra stefnu en ég hafði séð fyrir. Þau urðu ekki síður um mig en mömmu enda er aldrei hægt að fjalla um fólk án samhengis. Það var því mjög stórt skref fyrir mig að ákveða að deila bókinni með hverjum sem lesa vildi. Annars vegar sjálfrar mín vegna, en líka vegna skjólstæðinga minna. Sem sálgreinir ræðir maður aldrei sín persónulegu mál eða setur sína eigin persónu í fókus. Það er ein ástæða þess að ég var hikandi við að gefa bókina út og ég er að sama skapi tvístígandi að koma í svona viðtal. Ég vil ekki þröngva mér inn í líf skjólstæðinga minna með blaðaviðtali, þeir eiga að geta lesið blaðið sitt í friði án þess að ég sé mætt við morgunverðarborðið með mína sögu. Þeim eins og öðrum er frjálst að lesa bókina, en það þarf að vera þeirra val.“

Að mati Sæunnar eigum við öll margbrotna barnæsku og enginn á einungis góða reynslu eða slæma. Hún lýsir mömmu sinni sem óstýrilátri, en margt sem hún gerði þegar Sæunn var að alast upp þykir ekki tiltökumál í dag.

„Þegar ég var að alast upp voru aðrir tímar en við þekkjum núna. Sem lítið dæmi má nefna að þegar ég var að komast á unglingsár fóru flestar konur á mömmu aldri vikulega í hárlagningu en hún var með stuttan drengjakoll, alltaf berfætt í skónum og með öðruvísi fatasmekk og lífsviðhorf en almennt þekktist. Þetta vakti athygli og umtal. Hún hafði búið erlendis og ferðast víða sem gerði það að verkum að hún var frjálslyndari og með öðruvísi viðhorf en almennt voru gild á þessum tíma. Hún var líka uppreisnargjörn og lét ekki segja sér fyrir verkum. Þetta eru dæmi um litlu hlutina en aðrir voru stærri og alvarlegri, eins og að hún glímdi við alkóhólisma sem hafði mikil áhrif á hana og fjölskylduna.“

Missti föður sinn þegar hún var ung að aldri

Sæunn átti eldri bróðir sem var sammæðra henni en ólst að stórum hluta upp hjá ömmu þeirra og afa. Hún á einnig þrjár systur. Allar misstu þær föður sinn ungar að aldri, sem hún segir að hafi haft mikil áhrif á fjölskyldulífið.

Hvaða áhrif hefur það fyrir barn að alast upp á heimili þar sem foreldri/foreldrar glíma við fíkn?

„Börn eru viðkvæm og háð og þess vegna verður líf þeirra flókið og ófyrirsjáanlegt þegar foreldrar þeirra eru ekki áreiðanlegir. Í mínu tilviki kom drykkja mömmu í kjölfar andláts pabba en hvort tveggja olli mér miklu óöryggi. Ég átti erfitt með að treysta á mömmu því ég gat ekki gengið að því sem vísum hlut að hún væri í lagi. Mér fannst ég oft ekki skipta hana máli þegar hún tók áfengi og vímu fram fyrir mig og mínar þarfir. Ég brást við eins og algengt er með börn, með því að reyna að stjórna hlutum sem ég gat ekki stjórnað, lesa í aðstæður, verða „góð“ og taka of mikla ábyrgð.“

Sæunn segir mikilvægt fyrir alla að skoða barnæskuna sína.

Erfið reynsla í æsku getur haft áhrif

„Við höfum öll tilhneigingu til að fegra barnæskuna okkar, annars vegar til að forðast sársauka barnsins sem við vorum en hins vegar hefur það áhrif á sjálfsmyndina að standa í þeirri trú að maður hafi átt góða foreldra og hamingjusama barnæsku. En það er sama hversu góðir foreldrarnir voru, það kemst enginn sársaukalaust frá barnæskunni. Það þarf ekki að vera vegna þess að foreldrarnir hafi brugðist heldur er svo mikið valdamisvægi á milli foreldris og barns. Börn geta ekki lifað án foreldra og þau eiga allt undir þeim. Sama hversu vænt foreldrum þykir um börnin sín þá geta þeir lifað án þeirra. Þeir þurfa að fórna mjög miklu fyrir þau en eru misjafnlega færir eða tilbúnir til þess. Ekkert foreldri er bara gott eða slæmt. Foreldrar eru manneskjur með misgóða reynslu sem hefur mótað þá. Það er m.a. þess vegna sem ég ákvað að birta mína sögu. Mamma mín var sannarlega erfið en hún var miklu meira en það. Hún var líka ástrík, hlý og mjög skemmtileg. Markmið mitt er ekki að stilla mér upp sem fyrirmynd fyrir aðra í úrvinnslu tilfinninga, en ég yrði ánægð ef bókin yrði hvatning fyrir einhverja til að skoða sína eigin barnæsku betur. Þar liggja oft rætur vanlíðanar og tómleika enda hafa rannsóknir sýnt að stærsti áhættuþáttur fyrir heilsubresti og vanlíðan á fullorðinsárum er erfið reynsla í æsku. Hún er ekki alltaf sýnileg, vanræksla er til dæmis oft mjög ósýnileg.“

Sæunn segir mikilvægt að börn séu ekki skömmuð eða smánuð fyrir tilfinningar sínar.

„Börn þurfa að geta treyst því að þau séu tekin alvarlega og þeim mætt af virðingu og áhuga þegar þau leita til fullorðinna.“

Hugsi yfir skilgreiningum samfélagsins

Hvað með fordóma í samfélaginu? Gerum við lítið úr fólki með því að hópa það niður í hólf?

„Ég er mjög hugsi yfir öllum þeim skilgreiningum sem við erum búin að búa til yfir vanlíðan barna ekki síður en fullorðinna og erum stöðugt að bæta við. Ég skil þægindin sem í því felast en með því að einblína á hegðun finnst mér við oft smætta vandann og missa sjónar á mikilvægum orsakaþáttum. Við þurfum til dæmis alltaf að skoða vanda barna í samhengi við umhverfi þeirra, hvort sem er á heimili, í skóla eða öðru félagslegu samhengi. Burtséð frá greiningum þá eru engir tveir einstaklingar eins og engar aðstæður þær sömu. Í stað þess að setja á fólk merkimiða þarf að skoða vel aðstæður og sögu hvers og eins. Það er jú tímafrekt en fólk er í eðli sínu flókið. Það getur reynst mjög dýrkeypt að horfa bara á yfirborðið.“

Áfengisdrykkja eyðileggjandi bjargráð

Sæunn segir það gang lífsins að takast á við ýmiss konar vandamál en það verður töluvert viðráðanlegra ef fólk er læst á tilfinningar sínar.

„Ólíkar tilfinningar s.s. reiði, öfund, eða depurð kalla á ólík viðbrögð. Ef veruleiki okkar í barnæsku var sá að ekki hafi verið hlustað á okkur og okkur ekki hjálpað við að takast á við vanlíðan eigum við erfiðara með að bregðast við henni á fullorðinsaldri. Ef við greinum ekki á milli ólíkra tilfinninga eykst hættan á að við grípum til óviðeigandi og eyðileggjandi bjargráða. Áfengisdrykkja getur verið dæmi um slíkt.“

Sæunn hefur hógværar hugmyndir um áhrif bókar sinnar. Hún hugsar sér ekki heimsyfirráð eða byltingu í kjölfar útkomu hennar, nema síður sé.

„Ég er fyrst og fremst að segja sögu sem mér finnst áhugaverð og svo á eftir að koma í ljós hvort lesendur séu sammála því. Ég held ekki að bók geti breytt fólki eða heilað það, en bækur geta sannarlega hreyft við tilfinningum og vakið okkur til umhugsunar. Mér hafa lengi verið hugleikin tilfinningatengsl barna og foreldra og hef áður skrifað um mótunaráhrif barnæskunnar. En hér set ég það efni í persónulegt samhengi. Hvernig mamma mótaði mig og hvernig hún var mótuð af sínum foreldrum. Mig langar að vekja athygli á flóknustu ástarsamböndum sem til eru, sem eru tengslin á milli foreldris og barns, og þau eru aldrei bara góð eða bara slæm. Ég átti góða mömmu en ég átti líka mjög erfiða mömmu og tilfinningar mínar til hennar spönnuðu allt litrófið.“

Stundum getur verið erfitt að hlusta á barnið

Hvað þýðir það fyrir þig að setja barn í fyrsta sæti?

„Það mikilvægasta sem við gefum börnum er tími og athygli. Það þarf að hlusta á börn, leyfa þeim að tjá sig og reyna að setja líðan þeirra í samhengi. Við megum aldrei gera lítið úr orðum þeirra, jafnvel þó að okkur langi ekki að heyra það sem þau hafa að segja. Foreldri sem til dæmis hefur upplifað höfnun getur liðið of illa þegar barni þess er hafnað og þá reynir það kannski að dreifa athyglinni frá vanlíðan þess. En frekar en að reyna að hressa barnið við eða fá það til að hugsa um eitthvað annað er svo mikilvægt að viðurkenna líðan þess. Börn eiga mun auðveldara með að sleppa vanlíðan og snúa sér að öðru þegar þau hafa fundið skilning og viðurkenningu, hvort sem þau eru vikugömul eða unglingar. Með því móti læra þau að þola og þekkja erfiðar tilfinningar og geta til dæmis greint á milli þess hvenær þau eru einmana, sár, svöng eða reið svo dæmi séu tekin. Slíkt viðmót fullorðinna dregur úr líkum á að tilfinningar barnsins verði eins og grár „massi“ innan í því sem það hvorki skilur né kann að takast á við en reynir þess í stað að eyða t.d. með því að borða eða breyta líðan sinni með skaðlegri aðferðum þegar það eldist.“

Sæunn segir okkur mannfólkið sífellt vera að spegla okkur hvert í öðru.

„Við speglum okkur með því að segja hvert öðru sögur og þannig getum við aukið víðsýni og skilning okkar á milli. Vonandi verða einhverjir forvitnari um sína eigin fortíð þegar þeir lesa mína sögu. Áhugasamari um sína eigin fjölskyldusögu. Saga hvers okkar er margbrotnari en blasir við í fyrstu.“

Hún segir algengt að fólk muni lítið úr eigin æsku og telji hana óáhugaverða.

„Mjög margir hafa sagt mér í fyrsta viðtali að ævi þeirra hafi verið tíðindalítil. Að allt hafi verið slétt og fellt þegar þeir hafi upp úr þurru orðið kvíðasjúklingar eða fíklar. Í mínum huga eru svona frásagnir rannsóknarverkefni. Markmiðið er ekki að leita sökudólga heldur skilnings. Hvaðan spretta hugmyndirnar, tilfinningarnar og hegðunin? Hvaða saga er þarna sem hefur ekki verið færð í orð?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál