Kynntist eiginmanninum á Airbnb

Jónas og Anna kynntust í gegnum airbnb.
Jónas og Anna kynntust í gegnum airbnb.

Anna Sigurbjörg Þórisdóttir starfar í verslun og sem hárgreiðslukona. Hún er ein af glæsilegustu konum landsins að margra mati, algjörlega tímalaus og virðist ekki eldast með árunum. Anna var búin að vera 20 ár ein áður en hún kynntist eiginmanni sínum, honum Jónasi, á Airbnb. 

Anna kynntist eiginmanni sínum þann 5. maí árið 2017. Hún var ekki beint að leita sér að manni, enda hafði hún verið lengi ein, en hún var tilbúin að hitta hinn eina rétta – og hafði látið veröldina vita af því.

„Ég er mjög lífsglöð í eðli mínu og jákvæð og ég er trúuð. Ég sat heima hjá mér á þessum tíma og Jónas eiginmaður minn sat á Norður-Spáni að plana ferð til Amsterdam að hitta vini sína. Ég hugsaði með mér allt í einu: Hvað með þennan mann sem Guð ætlar mér? Hvar skyldi hann vera. Ég man að ég kallaði svona út í loftið heima hjá mér: Eiginmaður hvar ertu? – Er ekki tími til að þú farir að koma?“

Á sama tíma sat Jónas að panta flug til Amsterdam en ákveður skyndilega að breyta ferðinni og fara til Íslands. Hann hafði dreymt landið þegar hann var ungur maður og hafði lofað sér að koma til Íslands áður en langt liði. „Jónas hefur greinilega fengið skilaboðin mín því hann pantar flug og síðan gistingu hjá mér í gegnum Airbnb. Hann sagði mér seinna að hann hefði gert athugun á netinu á íbúðinni og mér sem leigjenda, því hann hélt að þetta væri of gott til að vera satt. Ég gerði það einnig og leist í fyrstu ekki á að hann hafði engin meðmæli með sér á forritinu.“

Hér eru Anna og Jónas ásamt börnunum sínum.
Hér eru Anna og Jónas ásamt börnunum sínum.

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Nei alls ekki, en við náðum strax mjög vel saman sem vinir. Hann hafði planað að ferðast um landið þessa viku sem hann ætlaði að dvelja hér, en það varð lítið um ferðalög því við enduðum á að vera saman alla vikuna.“

Anna segir að þeir sem þekkja til hennar telji atburðarásina mjög áhugaverða og ólíka því sem gengur og gerist í hennar lífi.

„Ég er alls ekki vön að tengjast þeim gestum sem koma hingað á þennan hátt og hef ekki átt kærasta lengi, enda lá mér ekkert á í þeim málum. Þetta var í höndum æðri máttar.“

Eftir viku dvöl á Íslandi þótti Jónasi erfitt að fara. En þau ákváðu að vera í reglulegu sambandi, í raun heyrðust þau daglega í gegnum Whatsapp forritið eftir þetta.

„Ég vissi alltaf að sá maður sem yrði maðurinn minn yrði að tengjast Guði fyrst og síðan mér. Jónas varð veikur hér hjá mér og ég spurði hann hvort ég mætti biðja fyrir honum. Hann læknaðist af hausverknum og sagðist hafa fundið mikla andlega tengingu sem færði hann nær Guði og trúnni líka.“

Bað hennar á Sardínuhátíðinni

Eftir að Jónas fór út heimsótti Anna hann til Norður-Spánar og heillaðist að því umhverfi sem hann bjó í. „Einnig af kærleikanum sem bjó innra með honum og hvaða mann hann hefur að geyma. Við fundum bæði mikla tengingu og vorum viss um að við vildum kynnast meira. En ég vildi vera viss um að hann væri rétti maðurinn fyrir mig og ég rétta konan fyrir hann, þó hann hafi strax vitað hvað hann vildi þessu tengt.“

Eftir að Anna fór til Jónasar í heimsókn til Spánar varð ekki aftur snúið.

„Jónas bað mín á Sardínuhátíðinni sem haldin er árlega í Galicia. Það er sagt að nóttin sé töfranótt þeirra sem verða ástfangnir um nóttina og að ástin muni endast allt lífið.“

Þau giftu sig tæplega ári eftir að þau hittust fyrst þann 7. janúar árið 2018 og síðan létu þau blessa samvistir sínar aftur í Mosfellskirkju þann 18. ágúst sama ár.

Biðin þess virði

Hvernig var brúðkaupið?

„Þetta var yndislegt brúðkaup. Við áttum fallega litla athöfn í kirkjunni minni CTF Reykjavík og vorum þá með lítið boð heima eftir brúðkaupið. Síðan fórum við og gistum á svítunni á Loftleiðum og dagurinn var mjög einstakur á allan hátt.“

Anna segir að athöfnin í ágúst hafi verið stærri í sniðum og með allra þeirra nánustu, vinum og vandamönnum.

„Ég man þegar ég horfði yfir mannskapinn í kirkjunni hvernig ég klökknaði að fá að upplifa þetta augnablik með fólkinu sem okkur þykir vænst um.“

Jónas starfar á Bryggjunni Brugghúsi í dag og kann vel við sig í íslensku samfélagi. Anna segir að veðrið sé ekki svo ósvipað því sem hann á að venjast á Norður-Spáni, þó svo að vinirnir og maturinn sé einstakt fyrir hann á Spáni. „Ég er mikið fyrir að ferðast og við höfum ákveðið að fara árlega til Spánar, eins er Jónas til í ferðalög með mér víða um heiminn. Við erum náin hjón og miklir vinir og það var svo sannarlega þess virði að bíða eftir manni eins og honum í tuttugu ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál