Sigga Heimis: Glerið er efni framtíðarinnar

Hér er Sigga Heimis með foreldrum sínum, Önnu Lovísu Tryggvadóttur …
Hér er Sigga Heimis með foreldrum sínum, Önnu Lovísu Tryggvadóttur og Heimi Sindrasyni. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis hefur verið upptekin af líffærum og líffæragjöf eftir að hún fékk að gera tilraunir með að blása gler árið 2007. Hún segir að gler sé framtíðarefni því það sé gott til endurvinnslu og bendir á að í starfi sínu sem iðnhönnuður rannsaki hún hvernig næstu kynslóðir munu lifa og búa.  

„Þetta byrjaði árið 2007 sem tilraunir með munnblásið gler þegar CMOG (Corning Museum of Glass) bauð mér til Art Basel í Miami og til samvinnu. Við tók næsti fundur í Art Basel í Basel sem endaði með listamannavist í Corning í NY en þar er safnið og einstakar aðstæður til munnblásturs glers. 

Ég vinn mikið með fjöldaframleiðslu og þessi tegund vinnslu er algjör mótsögn við hana og það heillar mig. Hver hlutur er einstakur og krefst mikillar þekkingar, kunnáttu og listræns handbragðs. Og gler er ótrúlega spennandi efni og svo miklu víðar í okkar umhverfi en við gerum okkur grein fyrir.  Svo ég einfaldlega heillaðist af efninu og öllu því sem við kemur,“ segir Sigga í samtali við Smartland. 

Grunnefni glers er kísill sem er eitt algengasta efni jarðskorpunnar …
Grunnefni glers er kísill sem er eitt algengasta efni jarðskorpunnar og við Íslendingar þekkjum vel. Þrátt fyrir það er hverfandi lítið unnið með gler hérlendis.  Einungis einn aðili hefur unnið mikið með gler en sú starfsemi er að mestu hætt. „Við viljum sýna Íslendingum eiginleika og möguleika glers enda gríðarlega spennandi efni. Listamenn hafa töfrast af þessu efni og unnið með frá örófi alda og svo verður um alla framtíð.“ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigga segir að við munum sjá meira af gleri í framtíðinni í umhverfi okkar því gler sé svo gott til endurvinnslu. 

„Einnig er það sterkt og þolið og þess vegna endingargott. Umhverfismeðvitund mun án vafa vera stærsti fókusinn hjá framleiðslufyrirtækjum á komandi árum og þá kemur glerið sterkt inn. Efni og eiginleikar munu móta mikið útlit og stefnur í innanhúshönnun og hefur þegar gert. En það mun aukast enn meir, fólk er betur upplýst og yngri kynslóðir kröfuharðar á gegnsæi og heiðarleika, sem er frábært,“ segir hún. 

Sigga segir að þörf fólks fyrir tilgangslausa hluti sé að minnka og áhugi á nothæfum og breytanlegum hlutum sé að aukast. 

„Ungt fólk vill ekki binda sig við eigur heldur hafa aðgengi að réttum hlutum á réttum tíma í lífi sínu þannig að það mun aukast að leigja eða skipta á t.d. húsgögnum. Þá þarf að vera auðvelt að taka sundur og flytja stærri hluti svo það mun einnig lita hönnun framtíðarinnar.  Svo höldum við áfram að flytja til borganna, árið 2050 munu 80% jarðarbúa vera borgarbúar, svo húsnæði minnkar enn meira og fermetrar þurfa að nýtast vel. Þá gilda hentugar og sniðugar lausnir. Við viljum náttúruna með okkur svo enn eykst eftirspurn eftir plöntum, ómeðhöndluðum efnum og lýsingu sem líkist dagsljósinu. Fólk vill endingargóð og skaðlaus efni sem ganga ekki á forðabúr jarðarinnar og það mun einfaldlega stýra hönnun næstu ára.“

Starf hennar sem iðnhönnuðar snýst um að fylgjast með hvernig næstu kynslóðir hugsa og hverjar séu þeirra þarfir.   

„Ég skipulegg allt samstarf við hönnunarskóla í heiminum fyrir IKEA og þvælist út um allan heim til að vinna með hönnuðum framtíðarinnar.  Verkefni sem ég hef einlægan og óbilandi áhuga á enda búin að vera viðloðandi kennslu hönnunar frá því fyrir aldamót!“

Tómas Guðbjartsson og Hlynur Atli Tryggvason skoða glerlíffæri Siggu Heimis …
Tómas Guðbjartsson og Hlynur Atli Tryggvason skoða glerlíffæri Siggu Heimis á opnun sýningarinnar í Ásmundarsal. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Sigga segir að viðhorf fólk til líffæra og líffæragjafar hafi breyst mikið síðan hún fór að skoða þessi mál fyrir alvöru 2007. 

„Líkaminn er endalaust spennandi og til að vinna glerlíffærin á trúverðugan hátt þá lagðist ég í rannsóknarvinnu. Þar fór ég að rekast á alls konar upplýsingar sem mér fannst mikilvægt að fólk gerði sér grein fyrir. Umræðan þótti frekar óþægileg fyrir 10 árum, þegar ég fór að skoða þessi mál, en þar hefur orðið gríðarleg viðhorfsbreyting sem er frábært. Þó þarf að gera enn betur því það ríkir margs konar misskilningur varðandi líffæragjöf sem þarf að leiðrétta.

Þess vegna er þessi sýning mikilvæg og áhugaverð fyrir alla unga sem aldna. Þess ber að gæta að hlusta á allar hliðar og mismunandi skoðanir því núna um áramótin gerðust þau stórtíðindi að við verðum öll mögulegir líffæragjafar við gildistöku nýrra laga. Þessi breyting varðar alla landsmenn og því fannst mér kjörið á þessum tímamótum að skapa viðburð og nota áhrifaríkt mynd-, hreyfi-, ljós- og hljóðefni til að notast við á því stefnumóti. Ég var svo ótrúlega heppin að fá með mér draumateymi Íslands að öðrum ólöstuðum og án þess teymis hefði þetta aldrei orðið að veruleika. Við eigum alveg jafnan hlut í þessari sýningu, sem við erum mjög stolt af, sem er upplifunarsýning og á sér engan líka. Ég verð að fá að monta mig af þessum einstaka hæfileikahópi, Gagarín, Kristjáni Kristjánssyni og Gunnari Árnasyni og teymi Ásmundarsalar, því betra og hæfara fólk hefði ég ekki getað fundið,“ segir hún. 

Aðferðin við að munnblása gler hefur ekkert breyst í hundruð …
Aðferðin við að munnblása gler hefur ekkert breyst í hundruð ára og öll tæki og tól þau sömu. Einfaldleikinn þar er sláandi heillandi, sérstaklega í heimi tækninýjunga.  Glerblásarar CMOG eru þeir bestu í heimi og krefst slík kunnátta margra ára þjálfunar, einbeitingar og snerpu. Verkin á sýningunni kröfðust að lámarki þriggja blásara samtímis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Sigga Heimis og Alma Möller.
Sigga Heimis og Alma Möller. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál