Íslensk í ofurstærð og fer aldrei í partí

Oddný Ingólfsdóttir er ein skærasta instagramstjarna landsins með 189 þúsund fylgjendur. Hún er förðunarfræðingur og starfar á Beautybar. Þótt hún njóti vinsælda á Instagram þarf hún reglulega pásu frá miðlinum því oft verður veran þar of yfirþyrmandi. Hún er 25 ára gömul og segist hafa orðið hissa á vinsældunum. 

„Þetta þróaðist hægt og rólega. Ég var alltaf meðvituð um að bæta mig á Instagram, allavegana fyrst, síðan þegar ég fór að taka myndir af mér í nærfötum frá vinsælum fyrirtækjum sem framleiða undirföt fyrir stærri skálastærðir, eins og Curvy Kate, þá fór þetta að ganga hraðar,“ segir Oddný. 

Aðspurð hvort hún hafi búist við þessum vinsældum segir hún svo ekki vera. 

„Ég hugsaði ekkert um það, en ég reyndi samt alltaf að bæta mig.“

-Hvað veldur þessum rosalegu vinsældum? 

„Það er blanda af þröngu áhugasviði sem ég fell undir og litlu framboði af sambærilegum stelpum miðað við aðra hópa af stelpum á Instagram,“ segir hún. 

-Hvað er þú að gera sem aðrir áhrifavaldar eru ekki að gera?

„Voða fátt, held persónulega að aðrar stelpur sem eru í þessu séu að gera þetta mun betur en ég, en markaðurinn minn er mun þrengri.“

-Lifir þú af því að vera áhrifavaldur? 

„Nei, það geri ég ekki. Ég hef ekki verið dugleg við að koma mér á framfæri, en það er nokkuð sem ég væri alveg til í að prófa. Ég myndi framleiða miklu fallegra efni ef ég gæfi mér tíma í það.“

-Hvernig pródúserar þú instagramreikninginn þinn? 

„Ég geri allt sjálf, ég dett inn í tímabil þar sem ég hef mjög gaman af þessu og eyði miklum tíma í að framleiða efni til þess að setja inn. Svo eyði ég nokkrum mánuðum þar sem ég fer varla inn á samfélagsmiðla. Annars er ég rosalega hrifin af snapseed sem myndvinnsluforriti í síma og photoshop í tölvunni.“

-Ertu í marga klukkutíma að taka hverja mynd eða er þetta meira spontant? 

„Það er mismunandi, ég hef gaman af hvoru tveggja. Mér finnst flott að hafa selfies í bland við uppstilltar myndir en ég fíla líka lifestyle-instagröm. Mér finnst ég ekki vera búin að finna mér minn eigin stíl því ég er hrifin af of mörgu,“ segir Oddný. 

Aðspurð hvernig lífi hún lifi segist hún alltaf vera á fullu. 

„Ég lifi mjög hröðu lífi. Ég er alltaf að gera eitthvað og gef mér of lítinn tíma í allt. Ég er með of mikið af langtímaplönum.“

Aðspurð hvað hún geri um helgar segist Oddný vera frekar leiðinleg týpa.  

„Ég er mjög leiðinleg, ég fer aldrei í partí. Ég vinn bara allar helgar, en þegar ég vinn ekki er ég yfirleitt til í stefnumót eða afslöppun með kallinum mínum,“ segir hún. 

Oddný segist hugsa vel um heilsuna. 

„Ég fer mikið í ræktina og sund og svo hef ég mikinn áhuga á lyftingum. Svo þarf ég alltaf tíma þar sem ég fer ekki inni á samfélagsmiðla af því að ég dæmi sjálfa mig of mikið, svo ég forðast það oft.“

-Uppáhaldsmatur?

„Saltkjöt og baunir.“

-Ertu a- eða b-manneskja? 

„Ég verð að vakna snemma og fara snemma að sofa, annars líður mér illa. Ég reyni að halda mér í algeri rútínu.“

-Hver eru þín framtíðarplön? 

„Ég ætla að vinna meira með myndlistina mína og koma mér í meira myndlistarnám. Svo langar mig að auka sjálfstraustið og koma mér meira á framfæri á netinu.“

-Hvað gerir þig hamingjusama?

„Maðurinn minn, Birkir Freyr Guðbrandsson, sem er kokkur. Við erum búin að vera saman í fimm og hálft ár. Hann gerir mig hamingjusama, ég gæti ekki verið heppnari með kall. Og svo auðvitað þegar ég næ að gera það sem ég ætla mér, hvort sem það er lítið eða stórt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál