Hefði ekki gert neitt öðruvísi

Linda Pétursdóttir varð Ungfrú heimur fyrir 30 árum. Síðan þá …
Linda Pétursdóttir varð Ungfrú heimur fyrir 30 árum. Síðan þá hefur hún verið viðriðin keppnina.

Linda Pétursdóttir varð Ungfrú heimur fyrir 30 árum og hefur nú tekið við keppninni á Íslandi. Hennar fyrsta verk var að velja Erlu Alexöndru Ólafsdóttur sem fulltrúa Íslands en keppnin fer fram í Kína í nóvember. 

„Það kom reyndar afar óvænt upp í hendurnar á mér og ekki eitthvað sem ég hafði séð fyrir, hvað þá haft á dagskrá enda er ég á kafi í háskólanámi. Ég var önnum kafin við að læra um efnahagssamruna Evrópu og bandarísk stjórnmál þegar ég var beðin að taka við þessu! 

En Miss World fyrirtækið óskaði sumsé eftir samvinnu við mig, þau vita jú eðli máli samkvæmt að ég hef mikla þekkingu á þessu, beggja vegna borðsins, sem vinningshafi og auk þess hef ég starfað sem alþjóðlegur dómari fyrir keppnina til margra ára. Ætli þau hafi ekki bara treyst mér fyrir starfinu, en þau hafa unnið með mér og þekkt mig persónulega í 30 ár.

Auðvitað var ég til í að aðstoða svo Ísland hefði nú þátttakanda í keppninni, nú sem endra nær, enda farsæl þjóð í þessari keppni,“ segir Linda í samtali við Smartland. 

Í hverju felst starfið nákvæmlega? 

„Það er að mörgu að huga, sér í lagi með svona stuttum fyrirvara, að undirbúa fulltrúa okkar fyrir ferðalagið sem hún er á í heilan mánuð og hvers er ætlast til af henni þann tíma sem hún er í Kína. Auk þess eru samningar og töluverð pappírsvinna sem fylgir þessu en ég legg mikla áherslu á að vera til staðar fyrir Erlu og svara þeim spurningum sem upp koma hjá henni. Nú svo get ég gefið henni ágætisráð þegar kemur að viðtölum við dómara,“ segir Linda og hlær enda hefur hún sjálf verið í dómarasætinu. 

Hvað hefur Erla Alexandra fram að færa sem gæti komið henni á verðlaunapall? 

„Fyrst og fremst sá ég þarna glæsilega og ekki síður eldklára stúlku sem hefur margt til brunns að bera og ég taldi vera afburðafulltrúa lands og þjóðar og hún gæti sannarlega sómt sér vel sem andlit og talsmaður Miss World-fyrirtækisins.“

Hvað er svona spennandi við fegurðarsamkeppnalífið, fær fólk svona bakteríu sem það losnar ekki við? 

„Get nú ekki sagt að ég hafi nokkurn tímann fengið einhverja bakteríu er þessu viðkemur. Þetta er einn af þessum hlutum í lífinu sem varð hluti af mínu lífi án þess að ég hafi haft einhver markmið um að svo yrði og það hentar mér bara ágætlega. Ég tengist þessu fyrst og fremst út af minni eigin sögu, fólkinu á bak við keppnina sem ég hef átt í einstaklega góðum samskiptum við allt frá því er ég var Ungfrú heimur og síðast en ekki síst því ötula góðgerðarstarfi sem keppnin snýst um.

Mér finnst mikilvægt og gaman að geta stutt við fólk sem mér er annt um, og að geta verið brú út í heim fyrir stúlkur sem hafa áhuga á þessum geira, finnst mér bara alveg sjálfsagt. Þetta er því nokkurs konar „Pay it forward”-verkefni fyrir mig.“

Nú eru 30 ár síðan þú varst krýnd, hvað hefðir þú vilja vita um lífið þá sem þú veist núna?

„Ég held ég hefði ekki kosið að breyta neinu þar að lútandi, í raun ágætt að vera blautur á bak við eyrun og taka fagnandi á móti því ferðalagi sem fram undan var þá. Það sem skipti mestu máli og gerir enn í dag, er að hafa elskulegt og traust fólk í kringum sig. Það hef ég alltaf gert og met mikils.“

Linda var dómari í Ungfrú heimi.
Linda var dómari í Ungfrú heimi.
Linda mun þjálfa Erlu Alexöndru í að tala við dómarana …
Linda mun þjálfa Erlu Alexöndru í að tala við dómarana í Ungfrú heimi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál