Egill tekur pásu frá Íslandi og fer til Balí

Egill Fannar ætlar að fara með hóp til Balí í …
Egill Fannar ætlar að fara með hóp til Balí í nóvember.

Egill Fannar Halldórsson, Instagram-stjarna og eigandi Wake Up Reykjavík, hefur ferðast um allan heim. Hann hefur synt með hákörlum á Koh Tao, skjaldbökum á Gili-eyjum, krókódílum í Mexíkó, riðið á úlfalda í Dubai, sofið undir berum himni í Sahara-eyðimörkinni og stokkið af klettum á ítölsku riveriunni svo eitthvað sé nefnt. Nú ætlar hann að fara með hóp til Balí á vegum Sumarferða í nóvember og upplifa það besta sem eyjan hefur upp á að bjóða. 

Egill Fannar segir að þetta sé góður tími til að heimsækja eyjuna og fá smá hvíld frá íslenska vetrinum. 

„Mér finnst ekkert skemmtilegra en að skoða heiminn okkar og safna ógleymanlegum augnablikum. Og það sem er svo magnað við að ferðast er að við lendum alltaf í ævintýrum, upplifum eitthvað nýtt og förum út fyrir þægindarammann okkar. Ég held að allir hafi alveg ótrúlega gott af því. Og ég veit að allir sem eru að fara koma með mér í þessa ævintýraferð til Balí eiga eftir að gera nákvæmlega það, og eignast svona ótrúleg augnablik sjálf,“ segir hann í samtali við Smartland. 

Egill Fannar segir að þetta sé mjög góð tímasetning til að fá smá pásu frá Íslandi.

„Þetta verður sannkölluð draumaferð til paradísareyjunnar Balí í byrjun nóvember, akkúrat þegar íslenski veturinn fer láta finna fyrir sér. Og ef þú þráir að komast í alvöruafslöppun í sólinni, upplifa eitthvað nýtt og spennandi eða lenda í ævintýrum þá finnur þú ekki til þess betri stað en Balí.

Við erum meira að segja búin að skipta ferðinni í tvennt til þess að upplifa algjörlega allt það besta sem Balí hefur upp á að bjóða. Fyrri helming ferðarinnar munum við gista í frumskóginum í Ubud sem er alveg fáránlega fallegt svæði og er uppáhald margra frægustu Instagram-stjarnanna í dag. Seinni hluta ferðarinnar munum við svo færa okkur niður á strönd til þess að fá smá sand á milli tánna og upplifa sjóinn og öldurnar sem Balí er svo þekkt fyrir,“ segir hann. 

Aðspurður hvers vegna Balí varð fyrir valinu segir hann að veðrið og náttúran skipi stóran sess. Og svo séu Balí-búar afar sjarmerandi. 

„Það er einhver leyndardómsfull hamingja og lífsgleði sem ræður þarna ríkjum og hún virðist vera alveg bráðsmitandi. Fyrir mig persónulega er ég rosalega spenntur að komast aftur þangað út af því að Balí er einfaldlega engu lík. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að skoða þennan heim og lenda í ævintýrum og á Balí er hægt að kafa í svo ótrúlegum aðstæðum að ég ætla ekki einu sinni að reyna útskýra það hér og það sama gildir um brimbretta- eða sörf-kúltúrinn. Ég ætla svo sannarlega að hvetja alla sem hafa áhuga til þess að fara út í sjó og prófa að sörfa með mér.“

Þegar ég spyr Egil Fannar hvað sé að frétta af honum fyrir utan þessa Balíferð kemur í ljós að hann hefur staðið í ströngu. 

„Það eru mjög spennandi hlutir í loftinu. Þessa daganna er ég fyrst og fremst að koma nýju og mjög spennandi fyrirtæki á fót sem heitir Gorilla House og það gengur allt saman mjög vel. Þegar ég er ekki þar fer tíminn minn helst í að hjálpa ferðamönnum í Reykjavík að upplifa fallega landið okkar í gegnum mat og drykk hjá Wake Up Reykjavík. 

Fyrir utan þessa skemmtilegu vinnu erum við Tanja í óða önn að innrétta nýju íbúðina okkar í miðbænum, ofdekra hana Bellu okkar og reyna að skoða eins mikið af Íslandi og við getum þess á milli.“

Í sumar hafa Egill Fannar og Tanja unnusta hans notið íslenska sumarsins. Hann segist hafa verið að spara sig fyrir Balí. Þegar ég spyr hann hvort hann sé byrjaður að pakka niður segir hann ekki svo vera en hann veit upp á hár hvað hann ætlar að taka með sér. 

„Sundskýla og sími ætti að súmma upp það eina sem ég gæti ekki hugsað mér að vera án. Það er ekkert flóknara en það. En svo finnst mér líklegt að dróninn minn fái að koma með ef við freistumst til þess að taka nokkrar fallegar myndir í Ubud.“

Muntu kenna ferðafélögum þínum að taka Instagram-myndir?

„Á svona fallegum stöðum eins og Balí er, þá ætti ég alveg rosalega erfitt með að halda aftur af mér og taka ekki neinar myndir. Allt er svo rosalega ólíkt því sem við þekkjum hér heima og fegurðin er alveg einstök. Svo já, ég mun vafalaust taka einhverjar myndir sjálfur og þætti mjög gaman að fá ferðafélaganna með í það. Og það verður auðvitað enn skemmtilegra ef ég get leiðbeint einhverjum til þess að fanga enn flottari minningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál