Hvernig myndi Ewing hitta okkur í dag?

J.R. Ewing var algerlega hömlulaus þegar kom að drykkju og …
J.R. Ewing var algerlega hömlulaus þegar kom að drykkju og framhjáhaldi. Ljósmynd/Samsett

Í byrjun apríl, nánar tiltekið 2. apríl, voru 40 ár frá því Dallas-þættirnir voru gerðir. Í þáttunum kynntist heimsbyggðin mögulega meðvirkustu fjölskyldu í heimi með öllu því veseni sem fylgir því að drekka vín á hverjum degi. Hvernig yrðu viðbrögðin við Dallas-þáttunum í dag ef þeir hefðu verið frumsýndir í gær?

Um leið og þættirnir fóru í sýningu kviknaði í heimsbyggðinni því fólk náði ekki andanum yfir þessum greifum sem voru með lögheimili á Southfork. Þættirnir komu reyndar ekki til Íslands fyrr en 1981 og gerðist nákvæmlega sama hérlendis. Fólk stóð á öndinni yfir ósvífninni í JR Ewing, flottheitunum, alkóhólismanum, meðvirkninni og lúxuslífinu sem ræflar þessa lands þekktu ekki. Mestu greifar Íslands áttu nefnilega ekki breik í þetta glanslíf, jafnvel þótt þeir hefðu plantað ljónastyttum fyrir utan einbýlishús sín, væru með viðhöld og drykkju hraustlega. Útrásarvíkingar þessa lands komust kannski næst því að feta í fótspor JR Ewings en þeir náðu þó ekki þeim klassa sem fylgdi herra Ewing.

Ewing fjölskyldan samankomin.
Ewing fjölskyldan samankomin.

En hvers vegna finnst venjulegu fólki spennandi að fylgjast með slíku glanslífi? Jú, vegna þess að glanslífið er af þeirri stærðargráðu að venjulegur lúði mun aldrei komast þangað. Alveg sama þótt hann ræni og rupli, klæði sig flott og gæti þess að líf hans sé óflekkað á samfélagsmiðlum. Og það er það sem er svo spennandi. Í dag horfir fólk á Crown og The Peaky Blinders til þess að fá tilbreytingu í líf sitt, en það er sama hvað framleitt er af sjónvarpsefni – það er býsna erfitt að leika þetta plott eftir.

Handritshöfundar Dallas-þáttanna voru nefnilega ansi góðir í að halda fólki límdu við skjáinn og gættu þess vel að ganga fram af fólki allavega einu sinni í hverjum þætti.

Enda var margt bæði skrítið og mjög framandi við þættina. Það sem var framandi var að tveir bræður hefðu ákveðið að flytja ekki að heiman. Þegar þeir hnutu um ástina hófu þeir ekki nýtt líf á hlutlausum stað og bjuggu sér til sitt eigið hreiður heldur fluttu kærusturnar inn á foreldra sína. Og það með mjög slökum árangri. Þótt Ewing-bræðurna, foreldra þeirra, maka og börn hafi ekki skort peninga sést með mjög áberandi hætti að peningar kaupa ekki hamingju. Alveg sama hvað reynt er.

Peningar eru góðir og allt það en þeir laga ekki vonda stemningu á milli fólks. Allir heimsins demantar, perlur og platína geta ekki búið til kemestrí eða ástríðu í samböndum og slíkir dýrgripir bæta ekki upp framhjáhöld og óheiðarleika. Þótt þættirnir hafi gengið fram af heimsbyggðinni á sínum tíma þá eru allt aðrir hlutir sem ganga fram af okkur í dag. Ef við skoðum Dallas út frá nútímasamfélagi þá eru nokkrir hlutir sem stinga mjög í stúf.

Á Southfork blómstraði karlremban og það þótti bara eðlilegt að tveir fullorðnir kvæntir karlar, bræðurnir JR og Bobby, væru þjónustaðir eins og smástrákar af móður sinni. Mamma þeirra hefði brytjað matinn ofan í þá ef þeir hefðu óskað eftir þeirri þjónustu og svæft þá á kvöldin ef þeim hefði þótt það betra. Ég tel ólíklegt að þetta hefði gengið í dag, allavega ekki ef mamman væri útivinnandi og ætti sína eigin tilveru. En kannski átti mamma þeirra ekkert líf annað en að stjana við hrokafullan eldri son og svo hryllilega myndarlegan yngri son að annað eins hafði ekki sést. Kannski réð hún bara ekkert við aðstæðurnar.

Annað sem er athyglisvert er hvað neysla sterkra drykkja var normalíseruð. Á Southfork voru allir alltaf að sturta í sig víni. Þetta fólk þurfti náttúrlega ekki að koma við í matvöruverslun á heimleiðinni eins og við hin heldur gafst meira rými til þess að drekka óhindrað á hvaða tíma dags sem var. JR Ewing fékk sér vín um leið og hann mætti í vinnuna í stað þess að fá sér prótínsjeik eða hafragraut eins og við hin. Í hádeginu drakk hann líka og oftar en ekki var vín haft um hönd á vinnufundum dagsins. Eftir að hafa drukkið um það bil fimm til sjö einingar af vískíi keyrði hann heim eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég veit ekki hvort löggæslan í Dallas í Texas sé tjillaðri en löggæslan í Reykjavík en ég tel hæpið að venjulegur íslenskur greifi kæmist upp með þetta.

Sue Ellen og J.R. Ewing á meðan allt lék í …
Sue Ellen og J.R. Ewing á meðan allt lék í lyndi.

Sue Ellen, eiginkona JR Ewings, sem hann nota bene byrjaði með vegna þess að hún var fegurðardrottning, drakk líka hraustlega en þó ekki næstum því jafn mikið og eiginmaðurinn. Samt var alltaf gert mun meira úr hennar áfengisneyslu en hans. Hvers vegna sást aldrei vín á honum en hún var alltaf á herðablöðunum? Er þetta alveg eðlileg nálgun?

Og hvers vegna unnu Sue Ellen og Pamela ekki fyrir sér? Í stað þess að moka inn peningum eins og eiginmenn þeirra eyddu þær deginum í að kaupa sér föt, hitta vinkonur sínar eða ná sér í sólbrúnku við sundlaugarbakkann. Það segir sig sjálft að það er ekkert líf og ekki furða að Sue Ellen skyldi ákveða að fara í gegnum lífið með Bakkusi. Það er næs að hafa það náðugt og nauðsynlegt fyrir mannslíkamann að fá hvíld en þegar eini tilgangur þinn í lífinu er að líta út eftir sérstökum fegrunarstöðlum í Dallas í Texas er lífið orðið töluvert rýrt. Enda sprakk þetta allt í loft upp á endanum og Pamela fann sér nýjan greifa til að elska.

Sue Ellen komst langt á því að hafa verið fegurðardrottning en þegar útlitið er það eina sem þú hefur er erfitt að eldast og þroskast. Og það veitir ekki lífsfyllingu eitt og sér að vera fallegur. Alveg sama hvort fólk fylgir fyrirframgefnum útlitsstöðlum eða ekki þá eldast allir og hingað til hefur ljómi æskunnar þótt eftirsóknarverðari en ljómi ellikerlingar.

Ég horfði síðast á alla gömlu Dallas-þættina fyrir um tíu árum og ætti kannski að horfa aftur frá byrjun því það er margt hægt að læra af Dallas-þáttunum. Og þá aðallega hvernig fólk á ekki að haga sér – allavega ekki ef fólk vill eiga gott líf. Það er nefnilega ekki sérlega notaleg tilfinning að vera með allt niðrum sig eins og sagt er og ekki vænlegt til árangurs. Fólk getur komist áfram á óheiðarleika í ákveðinn tíma en upp um öll svik kemst að lokum. Þannig er bara lífið.

Sue Ellen var fegurðardrottning áður en þau kynntust.
Sue Ellen var fegurðardrottning áður en þau kynntust.
Pamela eiginkona Bobby Ewing þótti mjög falleg og fékk reglulega …
Pamela eiginkona Bobby Ewing þótti mjög falleg og fékk reglulega að heyra það frá J.R. Ewing að hún væri ekki nógu góð.
J.R. Ewing og Sue Ellen á brúðkaupsdaginn sinn.
J.R. Ewing og Sue Ellen á brúðkaupsdaginn sinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál