Fyrrverandi ráðherra stígur á svið

Kolbrún Halldórsdóttir í hlutverki sínu í stykkinu Konur og krínólín.
Kolbrún Halldórsdóttir í hlutverki sínu í stykkinu Konur og krínólín.

Kolbrún Halldórsdóttir fyrrverandi ráðherra útskrifaðist sem leikkona 1978. Hún hafði ekki stigið á svið síðan á níunda áratugnum þegar sýningin Konur og krínólín varð til en Kolbrún er hluti af leikhópnum Leikhúslistakonur 50+ sem hefur sett upp sýningar í Iðnó. Sýningin Konur og krínólín var sýnd 17. júní í tengslum við hátíðarhöld Reykjavíkurborgar. Þá komust færri að en vildu og því verður sýningin sýnd á sunnudag og þriðjudag í Iðnó. Kolbrún segir að það að búa til þessa sýningu hafi verið mikil ævintýraferð. 

„Við erum níu leikkonur á sviðinu, en svo er annar eins hópur baksviðs í hlutverkum „dressera“ og förðunar- og hárgreiðslumeistara. Á æfingatímanum skiptum við með okkur verkum og það kom í hlut Eddu Björgvins að halda um leikstjórnartaumana og ég var henni lítillega innan handar, en á lokasprettinum kölluðum við til reynda leikstjóra, Maríu Reyndal og Maríu Sigurðardóttur. Svo tókum við Vilborg Halldórsdóttir að okkur að hlusta á ógrynni af tónlist og koma með tillögur fyrir hópinn, þá lögðum við allar eitthvað af mörkum í vali á kjólum og skarti, og loks lagði ég eitthvað til vinnunnar hennar Ásdísar Magnúsdóttur sem aðstoðaði okkur við danssporin og hreyfimunstur. Annars var þetta bara virkilega skemmtileg hópvinna þar sem allar lögðu sín lóð á vogarskálarnar og verkið er lifandi vitnisburður um slíka samvinnu,“ segir Kolbrún í samtali við Smartland. 

Spurð um verkið segir hún að að kventíska komi töluvert við sögu í verkinu. 

„Sýningin rekur í samanþjöppuðu formi sögu kvenfatatískunnar frá 1890 til 1990; frá krínólíni til rasspúða, frá efnislitlum Charleston-kjólum til tjullkjóla í ætt við rjómatertur og konfektkassa, frá „the little black dress“ til Hagkaupssloppsins, allt í bland við tónlist hvers tímabils, kryddað með laufléttu glensi.“

Hvernig tilfinning er það að stíga á svið eftir svona langt hlé?

„Ég hef ekki stigið á svið sem leikkona í síðan á níunda áratugnum og það er gaman að það skuli ég gera núna á leiksviðinu sem ég steig mín fyrstu spor á eftir útskrift úr Leiklistarskóla Íslands 1978. Ég hef auðvitað talsverða reynslu af því að koma fram fyrir fólk, sem veislustjóri, ráðstefnustjóri, fundarstjóri eða ræðumaður, en það er frábrugðið því sem ég er að gera núna. Núna er ég í brjáluðum búningaskiptingum, með hárkollur og höfuðbúnað, tjúttandi og flörtandi, sem er nokkuð frábrugðið því sem krafist er af mér alla jafna,“ segir hún. 

Leikkonur kvarta töluvert yfir því að hlutverkum fækki eftir fimmtugt. Kolbrún segir að það sé aldrei hægt að ganga að neinu vísu í lífinu. 

„Samfélag leikhússins er lífrænt og síbreytilegt, þar gengur enginn að sínu vísu. Það verða kynslóðaskipti í leikhúsinu með reglulegu millibili, sem er auðvitað eðlilegt að ákveðnu marki og ef þeim er stýrt af meðvitund þá þurfa ekki að verða neinar kollsteypur í lífi listamannanna. Það má alltaf nýta reynslu þeirra sem eldri eru til góðs fyrir þá sem yngri eru. Eins geta yngri leikarar haft sín áhrif á þá eldri og endurnýjað vinnubrögðin. Sjálf hef ég ekki upplifað það að vera „eldri“ leikkona og þurft að víkja fyrir aldurssakir, en við þekkjum öll slík dæmi. Þá er nú gott að hafa svona hóp eins og „Leikhúslistakonur 50+“ þar sem öll reynsla er nýtt sem efniviður í verkefni fyrir leiksvið,“ segir Kolbrún. Þær sem eru með henni í stykkinu eru Ásdís Magnúsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Elín Edda Árnadóttir, Guðbjörg Thoroddsen, Guðrún Þorvarðardóttir, Helga Björnsson, Ingveldur E. Breiðfjörð, Júlía Hannam, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristín B. Thors, Lilja Þórisdóttir, María Reyndal, María Sigurðardóttir, Ólöf Sverrisdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Salvör Aradóttir og Vilborg Halldórsdóttir.

Edda Björgvinsdóttir í sýningunni Konur og krínólín.
Edda Björgvinsdóttir í sýningunni Konur og krínólín.

Hvernig finnst þér að eldast?

„Það er jafnþroskandi nú og það var meðan ég var yngri, slíkt breytist ekki. Alltaf skal eitthvað óvænt bíða handan við hvert horn og hverja beygju.“

Spurð um æfingaferlið segir Kolbrún að það hafi verið býsna skemmtilegt að búa til þessa sýningu. 

„Samveran með vinkonum, skólasystrum og samstarfskonum verður það eftirminnilegasta, forréttindin við að fá að kynnast þeim upp á nýtt. Svo var auðvitað gaman og gefandi að velta fyrir sér kvenfatatískunni og ræða bæði fagurfræði hennar og pólitík.“

Hvað hefur þú lært af þessu verkefni?

„Ef frá er talin áminningin um hversu hollt okkur er að dansa og hlæja, þá styrktist ég í trúnni á fjölbreytni og margbreytileika mannlífsins.“

En svona fyrir utan leikhúslífið og vinnuna í kringum það. Hvað gerir þú til að rækta líkama og sál?

„Stunda útiveru og líkamsrækt, les uppbyggilegar bókmenntir, dansa og borða hollan mat.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Ljómandi vel, sannfærð um að hann á eftir að færa mér ný og óvænt tækifæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál