„Ef ég dey, þá verður það að vera svoleiðis”

Ljósmynd/YouTube

Iaroslav Lekhterov er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Lekhterov er Úkraínumaður sem kom hingað til lands eftir að stríðið í Úkraínu hófst og þurfti að byrja nýtt líf með tvær hendur tómar. Hann segir daginn sem innrásin átti sér stað í raun vera óraunverulegan.

„Tilfinningin þegar stríð brýst út í landinu þínu er nánast óraunveruleg. Konan mín og dóttir mín voru inni í herbergi og ég var með hundinn okkar í næsta herbergi. Dóttir mín sofandi og ég að leika við hundinn þegar allt í einu byrja sprengingar. Við þurftum að flytja okkur um set og næstu daga voru sprengingar það oft að þrisvar sinnum á dag þurftum við að fara í sprengjubyrgi í kjallaranum. Ég byrjaði strax að hugsa um leiðir til að koma konunni minni og barninu mínu úr landi. Ef það væru mín örlög að deyja yrði það að vera svoleiðis, en ég lofaði mér því að koma þeim í skjól fyrst. Við höfðum því sett allt okkar mikilvægasta dót í nokkrar töskur til þess að vera reiðubúin ef það kæmi upp möguleiki á að flýja land. Þegar sá möguleiki kom hoppuðum við upp í bíl sem keyrði okkur til Vesturhluta Úkraínu. Þegar við vorum komin að landamærunum hittum við vin minn sem gat komið konunni minni og dóttur úr landinu, en lögin bönnuðu mér að fara af því að ég er karlmaður á aldrinum 18-60 og gæti þurft að fara í herinn. Þannig að þær fóru til Írlands og ég ákvað að ég myndi finna leið til að komast til þeirra á næstu dögunum,“ segir hann. 

Eftir að hafa komist í samband við menn sem gátu smyglað honum yfir landamærin tók við lengra ferli en hann hefði getað ímyndað sér.

„Þetta átti að taka nokkra daga, en mörgum vikum síðar var ég enn fastur við landamærin. Þeir sem ætluðu fyrst að koma mér yfir höfðu af mér pening og stóðu ekki við orð sín. En ég fann loksins aðra leið til að koma mér yfir og notaði allan peninginn sem ég átti eftir og fékk lánað frá fólki sem ég þekkti. En þegar það var loksins komið að því að yfirgefa Úkraínu, tjáði konan mín mér að hún vildi skilnað. Hún hafði farið mjög illa út úr öllu ferlinu og var með slæma áfallastreitu. Þegar hún loksins komst úr landi er eins og hún hafi viljað skilja alla fortíð sína eftir í Úkraínu, þar með talið mig. Eftir það sem á undan var gengið helltist yfir mig gríðarlegt vonleysi og algjört þunglyndi. Ég var enn fastur við landamærin og allt sem ég hafði lifað fyrir var fjölskyldan mín, sem nú virtist vera að splundrast. Ég varð gríðarlega þunglyndur og sá enga leið aðra til að deyfa mig en að byrja að drekka. Í nokkrar vikur drakk ég mig fullan alla daga og var fastur í algjöru vonleysi. Það hefði líklega endað mjög illa ef kunningi minn hefði ekki haldið utan um mig og stappað stanslaust í mig stálinu.“

Lekhterov og konan hans eru enn í sitt hvoru lagi og hann er nú einn á Íslandi, en samskipti þeirra eru að hans sögn góð og þau eru sammála um að dóttir þeirra sé í fyrsta sæti.

„Ég fór fyrst til Írlands til að hitta þær og þar gátum við rætt málin. Þaðan fór ég til Austurríkis, þar sem mér buðust í raun tveir valkostir, að flytja lengst upp í sveit, eða að fá vel borgað fyrir að fara út í glæpi, en fann að mér leist vel á hvorugan kostinn. Á endanum kom ég til Íslands og líður mjög vel hér. Ég hef heila, tvo fætur og tvær hendur og veit að ég get unnið fyrir mér hvar sem er í heiminum. Það er skrýtin tilfinning að byrja allt algjörlega upp á nýtt, en það er eini valkosturinn sem ég hef. Hingað til finnst mér fólkið á Íslandi hafa tekið mér frábærlega og þetta virðist vera stórkostlegt land,“ segir Lekhterov. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál