Margir myndu segja við þig „hentu mannhelvítinu út!“

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs.
Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs. mbl.is/Árni Sæberg

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er ósátt við manninn sinn. 

Hæ! 

Ég komst að því um daginn að maðurinn minn hafði farið á vændishús í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er mikið áfall fyrir mig því ég hélt að hann væri ekki svona týpa. Hvað gera konur í svona málum? Kynlífið hefur alltaf verið ótrúlega venjulegt og ekkert út á það að setja og því kemur þetta eins og vatnsgusa yfir mig og okkar líf. Gera menn bara svona?

Kveðja, 

ein brjáluð. 

Sæl brjálaða kona! 

Nú væru eflaust margir sem myndu segja við þig „hentu mannhelvítinu út!“

Og það er vissulega eitthvað sem þú getur gert.

En mér finnst þetta vera gott tækifæri til samtals.

Byrjum á einu, hélt hann framhjá þér? Því ef svo er, þá erum við að tala um trúnaðarbrest og það er alveg sér samtal útaf fyrir sig.

Ef þetta er var fyrir þína tíð þá getum við farið beint í málið.

Í fyrsta lagi þá er engin sérstök týpa sem fer á vændishús. Rannsóknir sýna að það eru allskonar menn sem vilja allskonar kynlíf af allskonar ástæðum. Svo það er fyrsta málið. 

En það er greinilegt að þetta hefur hrist upp í heimsmynd þinni af manninum þínum, sambandinu ykkar og kynlífinu.  Og kannski hvernig kona þú ert, ert þú kona sem værir með manni sem hefur farið á vændishús? En hvernig týpa fer á vændishús? Ert þú týpan sem „myndi aldrei vera með slíkum manni“? Og hvað ætlarðu að gera með það? Hvað viltu gera með þetta? Viltu ræða þetta? Viltu gleyma þessu? Viltu vita meira um þetta? Viltu að hann skammist sín? Skammast þú þín? Finnst þér hann síðri? Jafnvel spilltur eða skítugur? Finnst þér eins og hann eigi einhver leyndarmál? Ertu hrædd um að hann geri þetta aftur í framtíðinni? Og jafnvel hvað meira leynist í fortíðinni? Er jafnvel einhver kynlífslöngun sem hann deilir ekki með þér? Er þetta spurning um traust og trúnað?

Þetta er samtal sem þið megið eiga. Hvaða hugmyndir hefur þú um þetta? Hverju viltu spyrja að og hverju viltu fá svör við?

Erfið samtöl eru kaldar vatnsgusur. Þau neyða okkur til að endurskoða heimsmyndina okkar og svara erfiðum spurningum og skoða okkur sjálf, fordóma, væntingar og tilfinningar. Fólk er ekki annað hvort vont eða gott og fólk tekur allskonar mis skynsamlegar ákvarðanir með lífs sitt. En er það þitt að vera í dómarasæti gagnvart honum? Getur verið að þetta snúi líka að þinni sjálfsmynd (eins og ég kem inn á fyrr í svarinu) og að þú upplifir að hans gjörðir leggi dóm á þig sem konu og maka? Jafnvel segi eitthvað um þig? Ert þú ekki nóg? Er ykkar kynlíf nóg?

Þetta eru óþægilegar spurningar, ég veit. Og þú getur alveg sleppt þessu öllu saman, sópað undir teppið, pantað ferð til Tene og bara skál og áfram gakk.

En þetta er þroskatækifæri fyrir ykkur. Þegar við stígum inn í erfið samtöl þá er það tækifæri fyrir okkur að vaxa saman, auka nánd og þroskast, og ég myndi vilja hvetja þig til að nýta þetta mál til þess. Fyrir þig sjálfa og fyrir ykkur sem par. Og ef þið þurfið aðstoð til að eiga samtalið, þá bara pantið þið tíma hjá kynlífsráðgjafa.

Gangi ykkur vel!

Kær kveðja, 

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Siggu Dögg spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál