Íslenskt par er hætt að sofa saman - hvað er til ráða?

Ljósmynd/Unsplash

Kynfræðingurinn Sigga Dögg sem rekur fyrirtækið Betra kynlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er ekki sátt við hvernig samband hennar er að þróast. Hún segir að þau séu alveg hætt að sofa saman. Hvað er til ráða? 

Hæ Sigga Dögg. 

Þegar ég kynntist kærastanum mínum fyrir um þremur árum vorum við fyrstu mánuðina eins og samloka með skinku og osti. Stunduðum kynlíf nánast daglega og vorum alltaf saman. Eftir fjóra mánuði fórum við að búa saman og þá fannst mér við fjarlægjast mjög mikið. Núna er þetta þannig að við sofum varla saman. Ef ég reyni eitthvað ýtir hann mér í burtu og er aldrei til í neitt. Segist vera þreyttur. Það er ekki nema kannski þegar hann er búinn að drekka óhóflega með vinum sínum þá virðist hann vera til í tuskið. Hvað er hægt að gera við samband eins og þetta? Er þetta dauðadæmt? Á ég að hætta með honum? Ertu með einhver ráð til að bjarga þessu hjá okkur?

Kveðja, 

JB

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs.
Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl JB.

Það er nú einu sinni þannig með nýja ást að þá er hiti og ástríða og losti, rétt eins og þú lýsir. Þetta tímabil dofnar svo því sem lengra líður á sambandið. Sem betur fer, annars værum við óstarfhæf, og mögulega óþolandi fyrir allt og alla í kringum okkur, ekki síst okkur sjálf því taugakerfið réði ekki við svona mikla spennu til lengdar. Hvað um það, nú er komin ró í ykkur. Eða kannski bara hann? Saknar þú spennunnar og lostans? Hvað er að sofa „varla“ saman? Það hljómar fyrir mér eins og þið glímið við algengasta kynlífsvanda para, ósamræmi í kynlöngun og útfærslu á kynlífi. Ég kalla þetta tvennt saman stundum væntingarstjórnun. 

Nú er tími sjálfskoðunar.

Hvað er kynlíf fyrir þér? Er það bara að sofa saman? Og af hverju stundar þú kynlíf? Er það gredda? Er það nánd? Er það athygli? Er það útrás? Þetta eru allt spurningar sem þú mátt sitja með. Hvað væri fullkomið kynlíf í þínum huga? Hvaða kynlífsathafnir? Hvernig upphitun? Hvernig erótík? Hvernig rómantík? Hvernig daður?

Því ég sé að þú er í „aldrei“ tali þá er gott að byrja á því að kjarna sjálfa sig áður en samtalið við hann fer fram. Segðu hvernig þú hugsar hlutina og hvernig þér líður. En ekki með „aldrei / alltaf“ tali eða með „þú ert…“. Hér byrjar þú allt á fyrstu persónu, talar út frá þér og hvernig þú upplifir hlutina og þínar tilfinningar. Gott að taka þetta samtal í göngutúr eða bíltúr. Edrú.

Leyfðu honum að hlusta, melta og skoða sig. Hann þarf líka að fá rými til að velta þessum spurningum fyrir sér og þessu samtali. Ákveðið svo tíma, kannski eftir nokkra daga, til að tala aftur saman.

Eftir það samtal geturðu séð hvar hann stendur og hann veit hvar þú stendur og þið getið reynt að finna sameiginlegan grundvöll, eða ekki, og þá þarftu kannski að skoða þinn gang. Kannski er ráðgjöf næsta skref. Sjáðu allavega til hvernig samtalið gengur. Ef enginn vilji er til samtals þá ertu komin með svarið við spurningunni þinni.

Gangi ykkur vel!

Kær kveðja, 

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent inn spurningu HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál