„Þetta er mannorðsmorð fyrir mig“

Hvert einasta verkefni lífsins gefur okkur tækifæri á að vaxa …
Hvert einasta verkefni lífsins gefur okkur tækifæri á að vaxa og þroskast. Það er dásamlegt að fá að eldast í sátt við sjálfan sig og umhverfið. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Karlmaður sendir inn fyrirspurn á Elínrós Líndal, einstaklings og fjölskylduráðgjafa, og spyr hvað er best að gera tengt barnsmóður sem hann segir ljúga upp á hann. Barnsmóðirin segir að hann sé vondur. 

Komdu sæl

Mig vantar svör við því hvað ég á að gera þegar móðir barns er að segja barninu að ég hafi verið vondur við það og hana? Móðir byrjar sem sagt að segja þetta við barnið nokkru eftir skilnað. Ég er ekki líffræðilegur faðir barnsins en ól barnið upp frá unga aldri. Barnið er stálpað í dag, ekki komið á unglingsaldur. Er best fyrir mig að kæra móðurina og fá sérfræðing í málefnum barna inn í málið? Hvað er best fyrir mig og barnið sem um ræðir? Hvað á ég að gera? Ég bað móðurina að kæra mig en hún vill það ekki því hún veit upp á sig sökina. En ég vil fá þetta fyrir dómstóla því þetta eru ærumeiðandi ummæli og mannorðsmorð fyrir mig. Er best fyrir mig og barnið að ég kæri móðurina fyrir upplognar sakir og ærumeiðandi ummæli?

Kv X

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll og takk fyrir að senda inn bréfið. 

Það hvernig þú bregst við þessu verkefni, mun kenna barninu sem þú hefur gengið í föðurstað hvernig maður leysir úr verkefnum lífsins. Ef þú vilt kenna því að taka hlutunum persónulega og refsa hart fyrir það sem meiðir, þá er dómstólaleiðin örugglega besta leiðin til þess. 

Ef þú vilt kenna því að taka ábyrgð, að eflaust sé alltaf hægt að gera betur, að þú gerir ekki mistök viljandi, heldur frekar í vanmætti, þá leitar þú sátta við líffræðilega móður barnsins. 

Ef barnið sem þú hefur gengið í föðurstað er ekki með föður sinn nálægan má áætla að það sé nú þegar með tengslavanda af þeim sökum. Barnið á móður sem það elskar án skilyrða, síðan get ég ekki ímyndað mér annað en að barnið elski þig líka ef það lítur á þig sem föður. 

Það þarf reglulega mikla sjálfsvirðingu, fúsleika og vilja til að setja börn í fyrsta sætið í svona aðstæðum. 

Það er ákaflega auðvelt að sjá sig sem fórnarlamb. En að þora að líta í spegil, taka ábyrgð á sínum hluta og vera sá sem réttir fram sáttarhönd er sterki aðilinn að mínu mati í svona deilum. 

Hvernig ertu vondur? Hvað hefur meitt fyrrverandi konu þína í þessu sambandi? Hvað á að hafa meitt barnið? Meiddi hún þig?

Til að sambönd gangi upp til lengri tíma er ég á því að fólk þurfi að kunna að elska sig án skilyrða og síðan aðra þannig líka. Heilbrigð mörk og heiðarleiki er síðan það sem eflir nánd og innileika í samböndum.

Það er ekkert dýrmætara fyrir barn að mínu mati heldur en að sjá hina fullorðnu ná tökum á lífinu, vaxa og þroskast. Að vera fyrirmynd barna þegar kemur að ást og samböndum er einnig mikilvægt hlutverk og leiðarvísir fyrir þau inn í framtíðina. 

Mig langar að taka eitt fram að lokum og hef ég ekkert nema innsæið fyrir mér í þessu. Ef ásökun fyrrverandi konu þinnar um að þú sért vondur, byggir á því að þú gætir verið í stjórnleysi þegar kemur að fíkn eða meðvirkni, þá mæli ég með því að þú leitir þér að sérfræðingi á því sviði. Að finna góðan ráðgjafa sem þú getur treyst og dæmir þig ekki er lykilatriði að mínu mati í þessu samhengi. 

Ég skrifa þetta án allra fordóma eða sleggjudóma. Fíkn er lúmskur sjúkdómur sem meiðir vanalega aðstandendur meira en fólk gerir sér grein fyrir. Sú fíkn sem þið gætuð verið að kljást við bæði er ástarfíkn. Eins ef annað ykkar eða bæði eru að nota áfengi þannig að það sé að skemma fyrir ykkur í samböndum eða lífinu almennt.

Ég myndi ekki vera of upptekinn af áliti samfélagsins á þessu stigi málsins. Það eru allir með skoðanir á okkur og hefur það minnst með okkur sjálf að gera og meira með aðra. Jákvæð manneskja sem er þroskuð mun alltaf vita að það þarf tvo til að stofna til sambands og tvo til að búa til vandamál og enda það. Lífið er alls konar og allir að ganga í gegnum eitthvað. Sumir eru bara aðeins betri í að fela vandamálin en aðrir. 

Gangi þér sem allra best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál