Getur barn utan hjónabands fengið arf?

mbl.is/Thinkstockphotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu um erfðarétt og börn utan hjónabands. 

Góðan dag. 

Maður á þrjú börn með eiginkonu sinn og eitt barn utan hjónabands. Falli maðurinn frá á eiginkonan trúlega rétt til setu í óskiptu búi, sæki hún um það. Spurningin er hvort barnið utan hjónabands geti krafist uppgjörs á föðurarfi þrátt fyrir það og hvort sérstakan gjörning þurfi til þess að koma í veg fyrir það. Ef svo er: Þarf að leita til lögfræðings vegna slíks gjörnings eða er mögulegt að gera það hjá sýslumannsembættum?
Takk fyrir.

Kveðja, 
HP

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæll HP

Takk fyrir spurninguna! 

Aðstaðan sem þú lýsir er sú að eftir andlátið skilji maður eftir sig eiginkonu og fjögur börn, þrjú þeirra sem hann á með eiginkonu sinni og eitt utan hjónabands, ég vísa til þess sem stjúpbarnsins hér á eftir. Nú segir þú ekki hvort börnin séu fjárráða eða ekki. Almenna reglan er sú að því hjóna sem lengur lifir er heimilt að sitja í óskiptu búi eftir hið látna með börnum þeirra. Reglan á líka við um stjúpbörn ef þau veita samþykki sitt fyrir því. Sé stjúpbarnið ófjárráða þarf samþykki forráðamanns þess. Erfðalögin gera því ráð fyrir því að stjúpbarnið þurfi að veita samþykki fyrir því að eiginkonan sitji í óskiptu búi og það er því þannig að eiginkonan fær ekki útgefið leyfi til setu í óskiptu búi nema formlegt samþykki stjúpbarnsins liggi fyrir.

Ef ég skil þig rétt vill stjúpbarnið fá greiddan út föðurarf sinn. Hvort sem leyfi til setu í óskiptu búi hefur þegar verið gefið út eða ekki þarf að sækja um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu til þess að ganga frá greiðslu arfs. Þegar það leyfi hefur verið gefið út er hægt að skipta búinu og fellur þar með búsetuleyfi eiginkonunnar úr gildi, hafi það áður verið veitt.

Alla gerninga sem tengjast skiptum á dánarbúum er hægt að gera hjá sýslumannsembættum og hægt er að nálgast góðar leiðbeiningar á heimasíðu þeirra. Sértu óöruggur með þetta er óvitlaust fyrir þig að leita ráða hjá lögfræðingi.

Kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu Björk spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál