10 lífsreglur Diane von Furstenberg

Diane von Furstenberg er sterk kona sem hefur byggt upp …
Diane von Furstenberg er sterk kona sem hefur byggt upp stórveldi. Þjónusta við samfélagið og sterk hugsjón einkennir hennar lífsviðhorf. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Diane von Furstenberg er einn áhugaverðasti tískuhönnuður okkar tíma. Hún bjó til vörumerki sitt til að standa sterk kona á eigin fótum. Hún er hugmyndarík, samkvæm sjálfri sér og fagurkeri fram í fingurgóma. 

18 mánuðum fyrir fæðingu Furstenberg losnaði móðir hennar úr útrýmingarbúðum nasista og var einungis skinn og bein, undir 40 kg. Hún kenndi dóttur sinni að það hefði verið Guð sem bjargaði henni úr búðunum, svo vannærð og nærri dauðanum var hún. Hún trúði að henni hefði verið bjargað til að eignast Furstenberg og lagði sig fram um það alla tíð að elska, vernda og ala Furstenberg upp eins og um köllun væri að ræða. 

Hér er haldið áfram að skoða lífs­regl­ur þeirra sem hafa haft áhrif á heim­inn með hug­mynd­um sín­um og lífs­skoðunum.

Vertu sjálfstæð/sjálfstæður

„Þegar ég fór af stað með mitt eigið viðskiptaveldi gerði ég það með eina hugsun í huga. Mig langaði að vera sjálfstæð kona. Kona sem gæti borgað sína eigin reikninga. Kona sem gæti rekið sitt eigið líf – seinna varð ég þessi kona.“

Þú skapar þína eigin sögu

„Ævintýri enda vanalega á því að stúlkan giftist prinsinum og þau lifa hamingjusöm til æviloka. Í mínu tilviki þá var sagan öðruvísi. Mitt ævintýri byrjaði einmitt þegar ég hafði skilið við minn prins. Þá varð ég sú sem mér er ætlað að verða. Skapaðu þína eigin sögu, þitt eigið líf. Ekki láta neinn segja þér hvernig það á að vera og ekki leyfa neinum að dæma þína sögu, þína köllun.“

Mikilvægasta sambandið þitt

„Mikilvægasta sambandið í þínu lífi, er sambandið sem þú átt við þig. Eftir að þú hefur komið á sterku sambandi við þig, sem getur verið mikil vinna að koma á, þá muntu geta hannað þitt eigið líf byggt á sterkum gildum og stöðugleika.“

Þjónustaðu samfélagið

„Móðir mín var sterk kona sem lifði af útrýmingarbúðirnar. Hún vildi að ég væri sterk kona og gaf mér vald og verkfæri til að verða það. Ég vildi einnig sjálf vera sterk og sjálfstæð kona og varð það. Núna langar mig að þjónusta samfélagið mitt og gefa hverri konu það tækifæri að vera sterk kona. Þessi hugsun litar allt mitt líf. Ég geri þetta með því að hanna fatnað á konuna sem valdeflir hana. Ég geri það með orðunum sem ég vel af kostgæfni og set út í samfélagið. Ég geri það með vinnunni minni, með peningunum mínum. Ég trúi á lögmálið að þjónusta heiminn í staðinn fyrir að selja heiminum.“

Lifðu drauminn

„Ég hef aldrei viljað tala um það sem mig dreymir um. Ég vil láta drauma mína verða að veruleika og vel að tala um þá þegar ég er lifandi draumana. Þegar við náum markmiðum okkar og þegar við trúum á ákveðin gildi er ekkert sterkara en að sýna gildin með daglegu lífi okkar. Þannig gefur þú fleira fólki leyfi til að dreyma og lifa sína drauma.“

Ótti er blekking

„Ég leyfi ekki sjálfri mér að vera hrædd. Móðir mín gerði mig þannig. Sem barn, ef ég var hædd við t.d. myrkrið, þá setti mamma mig inn í skáp og leyfði mér að finna á eigin skinni að það var ekkert að fara að gerast í myrkrinu. Svona hluti gerði hún og ég veit að mörgum kann að finnast það skrítið. En hún hafði sitt lag á að gera hlutina og hún gerði það með lærdóm og jákvæðni að markmiði. Sem dæmi talaði hún mikið um þann tíma sem hún var í útrýmingarbúðunum, en ekki um það sem hún óttaðist, heldur jákvæðu hlutina sem hún lærði af því að upplifa þessa tíma. Þannig kenndi hún mér að sama hvað við göngum í gegnum, þá er það afstaðan okkar sem leiðir söguna, en ekki óttinn í aðstæðunum.

Ég varð hræðilega óttaslegin í fyrsta skiptið sem það komu upp erfiðleikar í fyrirtækinu mínu. Auðvitað varð ég dauðhrædd þegar ég fékk krabbamein árið 1994. Ég var einnig hrædd þegar sonur minn keyrði of hratt. En ég trúi að óttinn undirbúi okkur ekki fyrir lífið, það er ekki val fyrir mig að vera óttaslegin. Þess vegna reyni ég eftir fremsta megni standa andspænis óttanum og sigra hann.“

Kvenlegur styrkur

„Ég hef alltaf verið heilluð af þeim styrk sem konur búa yfir. Eftir því sem ég verð eldri verður þetta mér sífellt ljósara. Konur búa yfir þvílíku hugrekki. Í raun hef ég aldrei kynnst konu sem býr ekki yfir óstjórnlegum krafti sem einkennir allar konur. Ég þori að staðhæfa að ekki sé til sú kona sem ekki er sterk í grunninn.“

Tileinkaðu þér sjálfsöryggi

„Ef þú getur tileinkað þér það að vera örugg/öruggur þá getur þú hvað sem er. Það er enginn að fara að reyna að stjórna eða breyta manneskju sem stendur bein í baki og fer eftir sinni bestu samvisku og þekkingu. Reynslan kennir okkur og við eigum að fagna því að læra í lífinu. En á meðan við göngum áfram á okkar lífsvegi, skulum við gera það með öryggi og reisn.“

Mistök eru til að læra af þeim

„Ekki hafa áhyggjur af því að mistakast. Ef þú dæmir þig ekki, þá dæmir þig enginn. Auðvitað getur maður suma dagana vaknað upp og fundist maður misheppnaður. En ekki leyfa því sem gerist í lífinu, og er að undirbúa þig fyrir það sem þér er ætlað að gera, að skilgreina þig. Ef þú leyfir það ekki, þá gefur þú engum öðrum leyfi til að gera það.“

Ekki breyta þér

„Ég er ein af þeim sem elska að eldast, í raun elska ég allt við að eldast að undanskildu útliti mínu. Ef ég á að vera alveg heiðarleg, þá finnst mér ég betri manneskja með aldrinum, mér finnst ég auðmýkri og vitrari. Hins vegar tók ég þá ákvörðun að ég myndi aldrei láta eiga við andlitið mitt. Það er ekki mitt að reyna að líta öðruvísi út en ég geri og mér finnst ekki fallegt að hitta konur sem eru að eldast og eru mikið að láta eiga við andlitið sitt. Við þurfum að sýna að allur aldur er áhugaverður. Ef við erum mikið að breyta okkur erum við að senda þau skilaboð út til samfélagsins að það sé eitthvað að okkar aldri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál