Kemst ekki yfir skilnaðinn við kærustuna

Miðaldra maður er hræddur við ástina og svo hefur hann …
Miðaldra maður er hræddur við ástina og svo hefur hann ekki sinnt vinum sínum sem skyldi. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá miðaldra íslenskum karlmanni sem á erfitt því hann hefur ekki unnið úr sorginni sem fylgir sambandsslitum og skilnaði. 

Sæll!

Ég er karlmaður á miðjum aldri. Skildi fyrir 6 árum vegna framhjáhalds konunnar. Skilnaðurinn sem átti sér talsverðan aðdraganda var mér ekki mjög erfiður. Hafði lengi grunað að konan héldi fram hjá og fannst í raun  mikill léttir  að skilja og losna við alla lygina. Áttum uppkomin börn sem voru eftir hjá mér. Hellti mér út í vinnu og hafði engan áhuga á að lenda aftur í sambandi, í bili a.m.k! Var þess vegna bara einn í nokkur ár og vann mikið og bjó heimili með börnunum. Vinnan hefur alltaf verið mér mikilvæg og kannski allt of! Hef átt góða vini en síðustu árin algjörlega vanrækt þá og á í raun í dag engan trúnaðarvin. Þó að ég geti án efa leitað til þeirra ef ég virkilega þyrfti, en finnst það ekki við hæfi hafandi ekki haft mikið samband í gegnum árin. Ekki mikið fyrir að deila tilfinningum mínum.

Kynnist svo konu eftir að hafa verið einn í nokkur ár og verð ástfanginn upp fyrir haus. Var hræddur um að þetta samband væri of gott til að vera satt og var þess vegna alltaf með smá hnút í maganum að þetta myndi enda. Kannski höfnunin úr hjónabandinu hafi fylgt mér. Hélt ég hefði fundið sanna ást en eftir tæpt ár vildi hún ekki meira. Þá upplifði ég hrikalega ástarsorg og hélt ég kæmist ekki lifandi frá því! Mér fannst ég ekki geta leitað til fyrri vina og þaðan af síður til fjölskyldunnar með mína vanlíðan. Fór til sálfræðings í nokkur skipti sem ég hafði gagn af. Í dag er ég einn. Börnin flutt að heiman. Enn ekki kominn yfir skilnaðinn við kærustuna. Á engan vin til að deila sorgum mínum með! Hef reynt  tvö stutt sambönd sem ég sleit sjálfur því ég gat ekki haldið áfram. Finnst samt hræðilegt að hugsa til þess að ekki finna ástina aftur! Sem er besta tilfinning sem nokkur upplifir! Ég er ekki að losna út úr ástarsorginni þó að líðanin sé betri en áður. Á miðjum aldri er erfitt að eignast nýja vini og ég mat fyrri vináttu ekki nógu mikils til þess að halda henni við!  Ég er einhvern veginn alveg ráðalaus. Ef eitthvað er alvöru lífskrísa þá er ég staddur í henni miðri!    

Einhver ráð?!

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn kæri lesandi og takk fyrir einlæga fyrirspurn.

Ég vil byrja á því að hrósa þér sérstaklega fyrir að stíga það skref að senda inn þessa fyrirspurn. Það er góð byrjun og mjög jákvætt að fleiri og fleiri karlmenn sem og konur eru tilbúin að leita aðstoðar þegar þörf er á. Fyrsta skrefið er að ræða um það sem hvílir manni á hjarta.

Ást og ástarsorg eru gríðarlega sterkar tilfinningar og fátt betra en að upplifa það að vera ástfanginn, hvort sem það er af maka eða einhverju öðru jákvæðu í lífinu. Að sama skapi er tilfinningin sem sambandsslit veldur, einhver sú alversta sem fólk upplifir. Þetta er reyndar mjög einstaklingsbundið og mismunandi hvernig hverjum og einum líður í kjölfar þess að sambandi lýkur. Þar hefur mikið að segja hver við erum, með hvaða hætti sambandinu lýkur, hvort það er sátt um málið, hvort því lýkur snögglega eða með löngum aðdraganda, hvort því lýkur vegna framhjáhalds eða annars óheiðarleika, fjárhagsstaða, hvort aðilar eiga börn saman og svo framvegis.

Þegar að samböndum kemur er algengt að til verði ákveðin hringrás sem lýsir sér nokkurn veginn þannig að einstaklingur fellur svo kirfilega fyrir einhverjum að það verður í raun háð þeim einstaklingi, finnst það ekki vera heilt án hans eða hennar. Þetta er í raun vísbending um það sem kalla mætti ástarþrá, við finnum draumaprinsessuna eða draumaprinsinn og setjum viðkomandi á ákveðinn stall. Þar með hefst sambandið á ákveðinni afneitun, því allir hafa kosti og galla. Þetta leiðir svo gjarnan til þess að við sjáum ekki ákveðin merki um að makinn sé ekki jafnáhugasamur um sambandið og við erum og verðum fyrir miklu áfalli þegar þessi aðili virðist allt í einu vera tilbúinn að fara. Þá kemur inn þessi sára tilfinning um að verða hafnað, óttinn við að verða yfirgefinn tekur yfir. Þessi staða felur í sér margar djúpstæðar tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr, en er þó hægt. Algengt er að fólk fari ekki í gegnum það ferli að vinna úr þessum tilfinningum og þeim stöðugu hugsunum sem það veldur, en reynir frekar að deyfa þær með einhverjum hætti, til að mynda með því að fara í ný sambönd.

Til þess að gera langa sögu stutta þá langar mig að benda þér á grein hér á Smartland sem heitir „Frá draumaprins í drullusokksem kom út fyrir nokkru síðan og fjallar betur um þetta ferli. Greinin greinir frá þessu ferli á nokkuð ýktan hátt en hver og einn getur skoðað hvort þetta eigi við sig að einhverju leyti.

Það er ómetanlegt að eiga góða vini og ég hvet þig til að gera tilraun til að endurvekja samskipti við vini þína, þó ekki væri nema einn þeirra. Það hendir okkur öll að minnka samskipti á einhverjum tímabilum í lífum okkar en flestum þykir mjög gleðilegt að endurvekja gamla góða vináttu. Það er öllum holt að hafa einhvern til að tala við og góðir vinir geta verið gulli betri. Eins mæli ég hiklaust með viðtölum hjá ráðgjafa til þess að hjálpa þér að vinna úr tilfinningunum sem þú ert að burðast með og í leiðinni byggja upp leiðir sem minnka líkurnar á því að þetta gerist aftur. Eins og þú nefnir þá hafðir þú gagn af slíkri ráðgjöf þegar þú nýttir hana síðast. Allt er þetta hluti af því að næra sjálfan sig og í því liggur einmitt hluti af batanum, gera það sem er gott fyrir þig. Því meira sem þú getur gert sem lætur þér líða vel, andlega talað, því betra. Útivist, göngutúrar, sundferðir, æfingar, áhugamál, tími með börnunum, hugleiðsla og öndunaræfingar eru allt dæmi um góðar leiðir til þess að ná betri líðan og fókusa á það jákvæða sem þú hefur í lífinu. Forðastu að einangra sjálfan þig, vertu í sambandi við fjölskyldu og/eða vini eftir bestu getu.

Þú getur fundið ástina á ný og þrátt fyrir erfiða reynslu þá er hún að baki og getur vel snúist í styrkleika ef þannig er unnið með hana. Að lokum finnst mér ekki annað við hæfi en að benda á námskeið sem fjallar einmitt um þetta efni og gæti verið gagnlegt að skoða. Þar er ferli ástarsambanda skoðað, hvaða skekkjur geta myndast í því ferli og hvaða leiðir eru til þess að vinna úr erfiðum tilfinningum og áföllum sem af samböndum geta hlotist. Hér að neðan getur þú skoðað námskeiðið betur.

Námskeið: Ástarfíkn og sambandsþrá

Með kærri kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál