Getur verið að ég hafi fæðst einmana?

Orðið einmana vísar í það að vera einn. Hins vegar …
Orðið einmana vísar í það að vera einn. Hins vegar er lækningin við því að eiga erfitt með að tengjast fólki oft og tíðum sjálfsvinna í að finna hamingjuna innra með sér. Þannig getur maður tengst öðrum betur. Tengslaröskun í æsku getur verið ein ástæða þess að fólki finnst það utan við samfélagið. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona á besta aldri hvort það geti verið að hún hafi fæðst einmana. 

Kæra Elínrós
Stundum velti ég fyrir mér hvort ég hafi fæðst einmana. Mér finnst oftast mikil fjarlægð milli mín og annars fólks. Líka milli mín og þeirra fáu vina sem ég á. Ég á yndislegan mann sem ég elska enn eftir 30 ára samband og 2 góð börn sem mér þykir vænt um og ég er í ágætu sambandi við. En jafnvel með þessu fólki finn ég til einsemdar og tilfinningar um að standa utan við allt. Mér finnst þessi tilfinning hafa fylgt mér frá barnsaldri, bæði í gleði og sorg stend ég ein. Ég var ekki í nánu tilfinningasambandi við móður mína. Er skýringanna að leita þar eða var ég ekki í sambandi við hana af því það vantar eitthvað í sjálfa mig? Ég er tilfinningarík en reyni að fara dult með það. Get ég gert eitthvað svo mér líði betur?

Kveðja, X

Elínrós Líndal er NLP-ráðgjafi með áherslu á meðvirkni og fíknisjúkdóma. …
Elínrós Líndal er NLP-ráðgjafi með áherslu á meðvirkni og fíknisjúkdóma. Hún er með grunnmenntun í sálfræði. mbl.is/Eggert

Sæl mín kæra. 

Ég held að þú sért bara alveg frábær, nákvæmlega eins og þú átt að vera með það verkefni í höndunum að vinna úr æskunni, finna þig, tilfinningar þínar og tengja aðeins betur við umhverfið.

Voðalega er ég samt stolt af þér að leita til mín með þetta. Það er eitthvað að ýta verulega við þér með þetta mál. Veistu af hverju ég tel svo vera? Af því þú ert með sterkt innsæi og sendir bréfið á hárréttan stað til mín. Ég þekki þessa vinnu og hef farið í gegnum hana sjálf.

Það að vera ekki í sterku tilfinningalegu sambandi við þá sem annast okkur í æsku er alltaf upphafið að því sem þú ert að finna fyrir í dag. Ég segi þetta í kærleik með það að leiðarljósi að allir hafi verið að gera sitt allra besta í þinni æsku. Hvenær lærðir þú að bæla niður tilfinningarnar þínar? Varstu barn sem fékkst að upplifa sorg, gleði, hlátur og það að vera kát en lokaðist svo? Eða fékkstu hrós fyrir að vera stillt, prúð og dugleg? 

Ef þú ert aðstandandi, þ.e. einhver í kjarnafjölskyldu hafi þá verið veikur eða alkóhólisti myndi ég skoða þessi mál í Al-Anon eða Kóda. 

Ertu einnig með tilfinningu um tómleika inni í þér? Þú lýsir engu stjórnleysi í bréfinu þínu en þeir sem hafa upplifað skert tengsl við uppalendur í æsku og eru með tómleikatilfinningu fara stundum að fixa sig með mat, ferðalögum, fatnaði og þess háttar. Þegar fixið fer aðeins í öfgar þá getur það alið á meiri fjarlægð við fólk. Þú skoðar það bara með kærleik þegar þú ert tilbúin.

Þú getur sigrast á þessu verkefni með því að leita þér aðstoðar með þetta hjá ráðgjafa eða sálfræðingi. Um leið og þú hættir að bæla niður tilfinningarnar fara þær að koma upp og þá getur þú byrjað að hlæja ótrúlega mikið eða gráta. Bæði er gott. Þú ættir að opna á þetta allt. Sestu niður með fólkinu þínu og segðu þeim hvað þú ert að gera. Þegar þú kemst í bata og upplifir hamingju innra með þér byrjar þú að tengja betur við aðra í kringum þig. Stundum erfist þessi tilfinning til barna okkar. Þess vegna verður batinn okkar gjöf til þeirra. Við vísum leiðina í svo mörgum verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur. 

Mundu að þegar þú grætur og reynir ekki að stöðva það getur það tekið nokkra daga, en tárin hætta að koma þegar þú hefur heilað það sem þurfti að koma upp. Eins með hláturinn. 

Ertu að gera það sem þér þykir gaman á hverjum degi? Ertu að prófa nýja hluti? Sinnir þú þér vel? 

Sérðu hvað þú ert að fara inn í skemmtilega vinnu? Þú ert ekki ein og miklu fleiri en þig grunar hafa farið í svona vinnu. Meðal annars ég. 

Ég mæli með bókinni A Return to Love með Marianne Williamson. Þú getur lesið upp úr henni á Youtube, til að sjá hvort þér líki boðskapurinn. Hún er meistari í svona vinnu. 

Gangi þér vel. 

Kær kveðja, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál