Íslensk kona berst við skilnaðarsamviskubit

Hamingjusöm hjónabönd enda ekki með skilnaði.
Hamingjusöm hjónabönd enda ekki með skilnaði. Ljósmynd/Getty

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér leitar íslensk kona til hans sem er að farast úr skilnaðarsamviskubiti sem hún kemst ekki yfir. 

Sæll Valdimar

Ég þjáist af svo miklu skilnaðarsamviskubiti. Er það eðlilegt? Og hvað er til ráða? Skildi fyrir 8 árum við eiginmann minn til 16 ára. Við tók tímabil þar sem börnin okkar voru viku og viku til skiptis hjá okkur með tilheyrandi flutningum milli húsnæða, misjöfnu tilfinningalífi mínu, ójafnvægi og óvissu. Í dag er ég í öðru hjónabandi og lífið stabílt en þá hellist yfir mig þvílíkt samviskubit yfir því að hafa lagt skilnaðinn á börnin mín og er alltaf að reyna [að] bæta þeim það upp. Finnst ég hafa brugðist þeim að vissu leyti, ekki staðið mig sem skyldi, hafa verið sjálfselsk og alveg getað lifað í hjónabandinu þeirra vegna.

Takk og kveðja. X0X

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.

Hamingjusöm hjónabönd enda yfirleitt ekki með skilnaði. Það er ástæða fyrir því að þú skildir á sínum tíma og reynslan sýnir að það er ekki góð ákvörðun að vera óhamingjusamur í hjónabandi barnanna okkar vegna. Ef við erum óhamingjusöm og líður ekki vel í hjónabandi, þá er ólíklegt að börnunum okkar líði vel. Það er því best að reyna að „sleppa tökunum“ á þessu og forðast að halda áfram með hugann við fortíðina.

Í kjölfar skilnaða koma tímabil sem vara mislengi og hafa mismikil áhrif á fólk. Það sem hefur einna mest áhrif er hvort að skilnaðurinn var eitthvað sem báðir aðilar voru sammála um, hve mikil tengsl voru orðin á milli maka í sambandinu og við tengdafjölskyldu þegar að skilnaðinum kom og hvort aðilar eigi börn saman. Þó svo að við viljum auðvitað sýna fyrrverandi mökum okkar virðingu og að skilnaðurinn fari fram á sem jákvæðastan máta þá er almennt ekki mælt með meiri samskiptum en nauðsynleg eru í kjölfar skilnaðar. Ástæðan er einfaldlega sú að við þurfum að fá okkar tíma og svigrúm til að syrgja, komast yfir áfallið sem skilnaðir geta verið, finna öryggi á ný yfir því að standa á eigin fótum og finna okkar sjálf í nýjum aðstæðum. Ef samgangur og samskipti eru mikil og snúast um eitthvað fleira en praktísk atriði sem varða skilnaðinn og umgengni við börnin, þá getur þessi tími verið lengur að líða en ella. Það er ekki til einhver föst regla um það hvað þetta ferli ætti að taka langan tíma en það er ekki óalgengt að fólk hafi farið að mestu í gegnum það um það bil ári eftir skilnaðinn.

Af ofansögðu er því ekki ólíklegt að það sé ekki skilnaðurinn sem slíkur sem veldur þér áhyggjum heldur upplifun þín af líðan barna þinna og sambandi þeirra við þig og aðra eins og það er í dag. Það er ekki ósennilegt að þú búir til tengingar á milli þessara atriða og skilnaðarins, jafnvel meira en góðu hófi gegnir. Góðu fréttirnar eru að þú getur vel unnið þig frá þessari líðan. Sú vinna snýst ekki síst um viðhorfsbreytingu, hvernig þú lítur á hlutina sem þú ert að upplifa í dag. Það er gott að hefja slíka vinnu með setninguna í huga „ég er nóg“ og að minna sjálfa þig á að við erum öll að gera okkar besta miðað við getuna hverju sinni og enginn er fullkominn. Ég segi stundum að maður tekur aldrei ranga ákvörðun, maður tekur bara ákvörðun og svo er spurning hvað maður lærir af henni. Stundum er lærdómurinn erfið reynsla og þá er gott að spyrja, hvað get ég lært af því? Hvað get ég gert í dag til þess að nýta þessa reynslu til góðs og hvað get ég gert til að gera það besta úr stöðunni eins og hún er núna? Það sem börnin okkar vilja og þurfa fyrst og fremst er að við séum til staðar fyrir þau og að við látum þau vita hvað okkur þykja þau mikils virði. Það gerum við með því að gefa þeim af tíma okkar, hlusta á þau og tala við þau af virðingu. Ef þú leggur þig fram við það, þá máttu vita að þú getur ekki veitt þeim neitt betra. Þið eigið svo öll reynslu að baki sem hver og einn upplifir á sinn hátt og getur vonandi nýtt hana á jákvæðan máta í framtíðinni.

Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál