8 hlutir sem hamingjusöm pör gera fyrir háttinn

Ljósmynd / Getty Images

Tíminn sem pör geta eytt í sameiningu er gjarnan af skornum skammti, og því er stórsnjallt að nýta háttatímann vel. Rúmið ætti að því vera staður þar sem pör sofa, stunda kynlíf og spjalla saman. Það er ekki staður þar sem fólk ætti að hanga í snjalltækjum, límd yfir samfélagsmiðlum.

Huffington Post tók saman lista yfir átta hluti sem hamingjusöm pör gera áður en þau fara að sofa.

Játa ást sína
Láttu maka þinn vita að þú elskir hann, og í stað þess að segja það af skyldurækni áður en haldið er í háttinn er betra að segja það eins og þú meinir það af öllu hjarta.

Fara saman í háttinn
Of mörg pör fara að sofa á mismunandi tímum sem leiðir af sér aukið ósamræmi í lífi þeirra, en flestir verja miklum tíma í sundur sökum vinnu. Hamingjusöm pör reyna hins vegar að eyða tíma saman á kvöldin, þó að það sé ekki nema smá stund þar sem þau skríða saman undir sæng. Að fara saman í háttinn gefur pörum kost á að tengjast nánari böndum.

Þau aftengjast
Snjalltæki eru miklir tímaþjófar. Farsælla er að nota tímann í gott spjall, eða sýna umhyggju sína með öðrum hætti, í stað þess að hanga í símanum. Sum pör hafa því brugðið á það ráð að banna símahangs á kvöldin, eða hafa sammælst um að gera svefnherbergið að símalausu svæði.

Þau setja góðan svefn í forgang
Þetta er kannski ekkert sérlega rómantískt ráð, en góður nætursvefn er nauðsynlegur til að halda andlegri heilsu í lagi. Ef fólk hvílist vel er það iðulega í betra jafnvægi, sem aftur bætir samskipti.

Tileinka sér þakklæti
Það hefur sýnt sig að þakklæti hefur sérlega góð áhrif á skap og hugarfar, og því ekki úr vegi að tileinka sér svolítið þakklæti. Gott getur verið að enda daginn á jákvæðum nótum og deila einhverju sem þú ert þakklátur fyrir með makanum.

Fara stundum ósátt að sofa
Margir vilja meina að það sé gott að fara aldrei ósáttur að sofa. Stundum er þó einfaldlega betra að geyma rökræður þar til fólk er úthvílt og í jafnvægi. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla sér að leysa erfið mál stuttu fyrir háttatíma, þegar fólk er þreytt og þráðurinn stuttur.

Gefa sér tíma til að ræða daginn
Hamingjusöm pör ræða streituvaldana í lífi sínu, og gefa maka sínum leyfi til að blása reglulega. Það þýðir ekki að fólk eigi að missa sig í neikvæðni, en flestir kunna að meta að á þá sé hlustað.

Þau halda börnunum fjarri svefnherberginu
Lítil kríli eiga það til að skríða upp í til foreldranna á nóttinni, en ef pör vilja rækta nándina ættu þau að hvetja börnin til að sofa í eigin herbergjum. Pör þurfa næði til að halda nándinni í lagi og því ætti svefnherbergið að vera griðastaður.

Svefnherbergið ætti að vera griðastaður parsins.
Svefnherbergið ætti að vera griðastaður parsins. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál