c

Pistlar:

14. febrúar 2018 kl. 14:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verður nóg til í ellinni?

Þetta er ekki beinlínis spennandi umræðuefni en eftir því sem fólk eldist því oftar ber það á góma. Við Íslendingar höfum vanist þeirri hugsun að lífeyrismálin séu í ágætu standi hér á landi. Sjóðstreymiskerfið sjái til þess að þær kynslóðir sem nú eru að hefja töku lífeyris muni ganga að þokkalegum sjóðum sem tryggi ásættanlegt líf. En allt er breytingum undirorpið. Ekki eru mörg ár síðan menn töluðu um að lífeyrisþegar Íslands yrðu í öfundsverðri stöðu en nú eru fleiri og fleiri sem efast um ágæti sjóðsöfnunarkerfisins okkar sem tekur stöðugt meira til sín af launakostnaði samfélagsins. Um leið virðast stjórnendur kerfisins vera að taka yfir atvinnulíf landsins. Er tryggt að kerfið standi undir væntingum landsmanna? Það þarf ekki að taka fram að mikið er undir.líf

Nýlega fengum við í hendur skýrslu frá starfshópi sem forsætisráðherra skipaði á miðju síðasta ári. Starfshópurinn átti að skoða hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs. Niðurstaða hópsins staðfesti að alþjóðlegur samanburður sýnir að íslensku lífeyrissjóðirnir eru hlutfallslega stórir miðað við hagkerfi landsins. Lífeyrissjóðirnir eiga um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi og spár gera ráð fyrir að eignarhlutur sjóðanna geti aukist á næstu árum. Eignir sjóðanna nema rúmlega einni og hálfri landsframleiðslu sem er þrefalt hærra hlutfall en í Finnlandi þar sem það er næst hæst á Norðurlöndunum. Einnig komst starfshópurinn að því að eignir lífeyrissjóðanna eru einsleitar sem stafar af því að erlendar eignir eru rétt um fjórðungur. Afar mikilvægt er að sjóðirnir auki vægi erlendra eigna á næstu árum. Það minnkar áhættu í eignasöfnum þeirra og dregur jafnframt úr umsvifum hér á landi.

Sjóðirnir og samkeppni

Í niðurstöðunni segir: „Víðtækt eignarhald lífeyrissjóða getur haft áhrif á samkeppni og þar af leiðandi á verð og þjónustu við neytendur. Þess vegna er áríðandi að lífeyrissjóðir marki stefnu um það hvernig þeir beita sér sem hluthafar í fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í. Þar sem sjóðirnir byggja á skylduaðild er eðlilegt að gera ríkar kröfur til þeirra um upplýsingaskyldu gagnvart sjóðfélögunum, eigendum sjóðanna. Lífeyrissjóðirnir gæta mikilla hagsmuna og eru því virkir hluthafar í fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Sjóðirnir eiga að leggja metnað í að innleiða leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og stuðla að því að stjórnarmenn fyrirtækja séu sjálfstæðir í störfum sínum og hafi engin tengsl við tiltekna hluthafa umfram aðra.”

Smá hugleiðing um þetta. Undanfarið höfum við fengið ítarlegar fréttir af því að lífeyrissjóðirnir séu í samstarfi um að kaupa hlut í Arion-banka. Ekki verður séð annað en að þeir komi fram sem einn aðili. En skoðum umsvif þeirra í Kauphöll Íslands. Hlutdeild sjóðanna í markaðsvirði skráðra hlutafélaga á Íslandi jókst úr 6% í árslok 2006 í 41% í árslok 2016. Þeir eiga hlut í nánast öllum hlutafélögum í Kauphöllinni, yfir 45% í skráðum fasteignafélögum, 43% í tryggingafélögum og yfir 50% í fjarskiptafyrirtækjum. Líklega hefur ekki dregið úr þessu á árinu 2017. Ef horft er til samstarfs þeirra í Arion-kaupunum væri hægt að leyfa sér að skilgreina þá sem ein aðila. Hvað segir það okkur um stöðu þeirra í Kauphöllinni? Er ekki skýr yfirtökuskylda þar - eða horfum við bara framhjá þessu?

Er lífeyrissjóðskerfið ósjálfbært?

En þegar á allt þetta er litið hljóta menn að hrökkva við þegar Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra og, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur í sölum Seðlabankans þar sem hann veltir því upp að lífeyrissjóðskerfið sé ósjálfbært. Jú, við höfum tíma til stefnu en framtíðarhorfurnar eru þær að þjóðin eldist og lífeyrissjóðirnir þurfa að fara að borga meira út, vaxtahorfur eru neikvæðar og fjárfestingarmöguleikar of litlir. Stærð þeirra í íslenska hagkerfinu er yfirþyrmandi í dag og það mun taka tímann sinn að komast út. Um leið blasir við að það verður erfitt að finna ávöxtun sem stendur undir 3,5% verðtryggðri ávöxtunarkröfu þeirra.

Þegar þetta er skoðað er auðvitað ástæða til að skoða sérstaklega næstu breytingar á lífeyriskerfinu. Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda, sem samið var um í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA í janúar 2016, kemur nefnilega til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkar framlagið um 1,5% til viðbótar og verður þá 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs mun frá 1. júlí 2018 nema samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.

Gylfi veltir því upp hvort við ættum að endurskoða sjóðsöfnunarkerfi okkar og hverfa til einhverskonar gegnumstreymiskerfis, í það minnsta með hluta lífeyrisframlagsins. Fyllsta ástæða er til að skoða það.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.