c

Pistlar:

19. nóvember 2017 kl. 13:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Arfleifð Robert Mugabe

Það skiptir kannski litlu hvort menn viðurkenni formlega að völdunum hafi verið rænt í Zimbabwe eða ekki. Öllum er ljóst að valdatíð Robert Mugabe er lokið en hann hefur ríkt í landinu síðan 1980, með vægast sagt döprum árangri. Mestu skiptir að valdaskiptin núna verði sæmilega friðsöm. Líklega er nær að tala um valdabaráttu en stjórnarbyltingu. Herinn hefur þó tekið völdin og mikil spenna ríkir í landinu en hinn 93 ára gamli Mugabe er augljóslega búinn að missa tökin á eigin flokki og stjórn landsins. Mugabe skilur við landið fátækara en þegar hann tók við því fyrir 37 árum og stjórnarfarið er talið eitt það spilltasta sem finnst. Eðlilegt er að menn spyrji út á hvað valdatíð hans hefur gengið á þessum tímamótum?

Fyrir fjórum árum var á þessum vettvangi umræða um þróun mála í Zimbabwe (sumir nota íslenska ritháttinn Simba­bve) og Suður-Afríku í tilefni andláts Nelson Mandela (1918-2013). Um líkt leyti var hér samantekt um Mandela. Í tilefni tímamótann nú er þessar greinar uppfærðar hér og endurritaðar að hluta. Hafa verður í huga, að aðstæður og saga landanna eru með sterkum samsvörunum þó að þróunin sé vissulega ólík á mörgum sviðum. En Mandela og Mugabe nálguðust stjórnmálin með ólíkum hætti. Mandela var kosinn forseti 1994 og lagði mikla áherslu á að vernda það stjórnkerfi og atvinnulíf sem var fyrir í Suður-Afríku. Í Zimbabwe var farin önnur leið undir stjórn Mugabe. Á þeirri vegferð hefur verið tekist á um margt sem á sér hliðstæðu víða um heim, meira að segja hér á Íslandi. Það verður hins vegar að hafa í huga að þróun mála er oftast heldur flóknari en tekst að gera skil í stuttri samantekt.

Byltingarsinninn Mugabe og umbótamaðurinn Mandela

Vissulega finnast þeir sem segja Mandela hafa verið nytsaman sakleysingja í höndum hvíta minnihlutans. Þeir hinir sömu segja Mugabe sannan byltingarsinna og í Zimbabwe var lengi vel litið á hann sem frelsishetju. Auðvitað er það rangt og að endingu staðnaði Zimbabwe algerlega undir stjórn Mugabe. Engum duldist að í Suður-Afríku var Mandela tilbúinn að vinna innan stofnanauppbyggingar fyrri valdhafa, með von um að með tímanum gæti svarti meirihlutinn orðið hluti af því kerfi og nýtt sér það. Að hluta til sá Mahatma Gandhi (1869-1948) fyrir sér svipaða framvindu á Indlandi en þrátt fyrir margvíslegar hrakspár hefur tekist að reka þar fjölmennasta lýðræðisríki í heimi í ríflega hálfa öld.

Hafa verður í huga að Mandela lauk laganám og bar virðingu fyrir lögum og reglu þrátt fyrir langa og óréttláta fangavist. Laganám Mugabe var hins vegar í skötulíki og sum hugtök réttarríkisins virðast ekki hafa verið á námsskránni. Þá virðist hann hafa kafað djúpt í eignarréttarkaflann! Þegar ummæli Mugabe og ræður eru skoðaðar sést að hann hefur verið innblásin af þjóðernislegri sameignarhyggju og átti auðvelt með að tala um réttlæti og jöfnuð en yfirleit þó út frá einhverskonar átakakenningum vinstri manna. Nýju réttlæti verði ekki komið á nema með því að uppræta eldra óréttlæti. Fyrir nokkrum árum gagnrýndi hann Mandela fyrir að hafa tekið of mjúkum höndum á hvíta minnihlutanum. Þannig talar Mugabe beint inn í umræðuhefð sósíalista um allan heim, uppgjörið er stundum mikilvægara en uppbyggingin.

Mugabe verður ekki skilin með einfaldri pólitískri greiningu en eins og svo margir aðrir afrískir leiðtogar taldi hann kommúnisma veita leiðsögn við uppbyggingu ríkis án lýðræðishefðar eða viðeigandi stofnanakerfis. Stjórnar hans er ekki getið í Svartbók kommúnismans en þó er ótvírætt að hann studdist við kommúníska hugmyndafræði eins og reyndar fleiri afrískir leiðtogar. Mugabe ákvað að veita Mengistu Haile Mariam, einum helsta morðhundi kommúnista í Afríku, skjól og neitaði að framselja hann þegar til stóð að rétta yfir honum í Addis Ababa árið 1994. Við fall kommúnismans í Austur-Evrópu missti Mengistu nauðsynlegan stuðning en vegur Mugabe í hinu afríska leiðtogasamfélagi óx upp úr því. Framan af voru menn ekki að setja fyrir sig þó að morð og dráp væru tíð undir stjórn Mugabe. Sérstaklega átti það við fyrsta áratuginn sem hann var við völd en þá ríkti nánast óöld í landinu.robert-mugabe

Ófært um að stýra eigin málum

Afríkuríkið Zimbabwe er næstum því fjórum sinnum stærra en Ísland og þar búa um 17 milljónir manna. 2006 fundust verðmætar demantanámur í landinu og eru demantar nú ein helsta útflutningsvara landsmanna. Meðaltekjur á mann eru nálægt 580 Bandaríkjadölum eða um 60 þúsund krónur. Verðbólgan í landinu í upphafi áratugarins sló öll met og færði landið aftur á stig vöruskipta. Fyrir nokkrum árum hætti Zimbabwe að reyna að reka eigin gjaldmiðil og erlendir gjaldmiðlar hafa tekið við. Stjórnvöld hafa þannig sýnt að þau eru algerlega ófær um að stýra eigin peninga- og gjaldmiðilsmálum. Óstjórnin er mikil og ríkið tekur til sín um 65 til 70% af landsframleiðslu. Regluverkið er þunglamalegt og heftandi fyrir nýsköpun og atvinnurekstur. Á sama tíma er hverskonar ríkisrekstur rausnarlega niðurgreiddur.

Zimbabwe var lengst af kennd við Cecil John Rhodes (1853-1902) og var suðurhluti þess ríkis sem kallað var Rhodesía. Norðurhlutinn klauf sig frá og heitir í dag Zambía. Eftir að Bretar höfðu látið af stjórn á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar tók við 15 ára stjórn hvíta minnihlutans undir forystu Ian Smith. Hann lýsti landið lýðveldi 1970 en það var viðurkennt af fáum og fordæmt af flestum fyrir aðskilnaðarstefnu. Skæruhernaður og átök grófu undan veldi hvíta minnihlutans.

Árið 1980 tók svarti meirihlutinn við stjórn landsins undir forystu Roberts Mugabe sem hafði leitt ZANU, aðra tveggja skæruhliðahreyfinga landsins, sem meðal annars hafði notið aðstoðar frá Fidel Castró, forseta Kúbu. Mugabe hafði fjölbreytta skólagöngu að baki, meðal annars frá Englandi, en um áform hans var ekki mikið vitað. Ummæli hans um að ný stjórnvöld gætu ekki hagað sér eins og þau gömlu vöktu vonir um að mildilega yrði tekið á málum. 1987 breytti hann stjórnarskrá landsins og varð forseti sem hann hefur verið óslitið síðan og er í dag elsti þjóðarleiðtogi heims.  

Miklar andstæður voru í landinu þegar valdaskiptin urðu. Hvíti minnihlutinn átti stóran hluta landsins og ræktaði þar landbúnaðarafurðir eins og te, kakó og kaffi til útflutnings. Þessar rekstrareiningar voru í raun smáiðnaður og stóðu undir nánast öllum útflutningstekjum Zimbabwe. Smábændur, sem flestir voru af afrískum uppruna, stóðu hins vegar undir talsverðum hluta af matvælaframleiðslu landsins. Þrýstingur var á stjórnvöld frá upphafi að efla hóp smábænda og margir töldu óeðlilegt að hvíti minnihlutinn skildi eiga og reka stórbýli og sitja að besta landinu. Frá upphafi stefndi stjórn Mugabe að breyta þessu sem kallaði á margvísleg átök og óttuðust hvítir bændur og fjölskyldur þeirra um líf sitt stóran hluta þess tíma. Urðu býli þeirra oft að vopnuðum virkjum en dugði oft ekki til. Öryggi íbúanna hvarf smám saman og margir flúðu land.

Sótti í smiðju Maó

Fyrir uppskiptingu lands voru fyrst og fremst réttlætisrök sem voru studd af pólitískum markmiðum Mugabe-stjórnarinnar sem hefur haldið völdum allan þennan tíma, oft í kjölfar misáreiðanlegra kosninga. Ekki verður þó dregið dul á að Mugabe hefur löngum notið tiltrúar meirihluta landsmanna þó hann hafi oftast hegðað sér eins og argasti einræðisherra en flokkur hans studdist að hluta til við kenningar Maó formanns. Þó var ljóst að það þjónaði ekki efnahagslegum hagsmunum landsins að hefja átök við hvíta minnihlutann og búrekstur hans rétt eins og Mandela hafði orðið ljóst í Suður-Afríku. Hafa verður í huga að allar útflutningstekjur Zimbabwe komu frá þessum búum. Um var að ræða smáar og hagkvæmar rekstrareiningar sem veittu miklum fjölda fólks atvinnu. Framan af fór Mugabe sér hægt í upptöku og útdeilingu lands og svo virðist sem hann hafi gert sér grein fyrir hættunni sem því var samfara fyrir efnahag landsins. Undir kraumaði þó og vopnuð átök og reglubundin hryðjuverk gripu athygli umheimsins. Átakalínur milli fólks af Shona og Ndebele ættunum flækja málið. Allt eins má tala um sitthvora þjóðina en líklega eru slíkar átakalínur ólíkra þjóða innan sömu landamæra helsta meinsemd Afríku. Ætthygli er landlæg og vantraust ríkir milli ólíkra þjóðarbrota.

Þjóðnýting lands sett á oddinn

Upp úr aldamótunum síðustu missti Mugabe að lokum þolinmæðina og þjóðnýting lands var sett á oddinn. Hvítum eigendum um 3000 býla var tilkynnt að þeir hefðu 90 daga til að koma sér í burtu. Bótum var lofað fyrir „endurbætur" á landinu en ekki fyrir landið sjálft. Rökin voru þau að landinu hefði í upphafi verið stolið af réttmætum eigendum þess á nýlendutímanum. Engin ástæða væri því til að endurgreiða landið. Aðgerðin gekk ekki eins hratt fyrir sig og að var stefnt, meðal annars vegna skriffinnsku og tregðu margra í stjórnsýslu landsins þar sem efasemdir ríktu um ágæti eignarupptökunnar. Hugmyndin gekk út á að ein maður ætti eina jörð. Frá upphafi gekk illa að hrinda því í framkvæmd. Spilling og óstjórn gerði það að verkum að nýir eigendur, sem nutu pólitískrar velvildar, náðu verðmætu landi til sín. Áfram var þó haldið á braut þjóðnýtingar. Árið 2005 var því lýst yfir að allt land sem notað væri til landbúnaðar skyldi færast í eigu ríkisins. Land var tekið frá 4000 hvítum bændum og endurúthlutað. 72.000 bændur fengu 2,19 milljónir hektara og 127.000 minni bændur fengu 4,23 milljónir hektara. Í lok síðasta árs voru aðeins eftir um 300 hvítir bændur af þeim 4.500 sem störfuðu í landinu í upphafi valdatíma Mugabe.news_bmugabe-sick-1

Frá upphafi hefur verið deilt um ágæti þessarar aðgerðar eins og áður sagði. Spilling og vanhæfni hafa vissulega markað sín spor. Einnig sú staðreynd að þekking á landbúnaði eða rekstri var lítils metin í aðgerðunum. Þeir sem tóku við rekstri búanna vissu lítið hvernig átti að halda utan um framleiðsluna eða höfðu ekki þekkingu til að breyta henni. Á skömmum tíma missti landið getu til að brauðfæða sig og útflutningstekjur hurfu. Þurrkar og refsiaðgerðir hafa ekki bætt úr skák. Frá aldamótum hefur Zimbabwe misst um 50% af framleiðslugetu sinni og um leið misst peningalegt sjálfstæði sitt. Þjáningar landsmanna hafa verið gríðarlegar og smám saman hafa þau litlu borgaralegu réttindi sem ríktu í landinu horfið. Ástandið var mjög slæmt fyrir nokkrum árum án þess að séð væri að Mugabe skyldi þjáningar þjóðar sinnar.  

Til að bæta gráu ofan á svart hefur stjórn Mugabe verið náttúru landsins dýrkeypt. Óstjórnin hefur leikið hana grátt og stórsér nú á viltu dýralífi landsins og skóglendi minnkað verulega.

Að geta brauðfætt sig

Þeir finnast sem segja að eftir þessa mestu eignatilfærslu í suðurhluta Afríku standi þó vísir að stétt smábænda sem með tímanum geti brauðfætt landið. Þó verði að sjá þeim fyrir útsæði og og áburði um ókomin ár. Ef slík rök duga til að réttlæta þá aðgerð sem ráðist var í, í Zimbabwe þá eru menn um leið tilbúnir að horfa framhjá miklum þjáningum landsmanna auk þess sem ýmsar stoðir samfélagsins hafa veikst og munar þar mest um þau áföll sem réttarríkið hefur orðið að þola. Líklega verða menn að vera ansi miklir marxistar til að trúa því að þjóðnýting eins og sú sem framkvæmd var í Zimbabwe sé skynsamleg. Allt var það að sjálfsögðu gert undir formerkjum réttlætis og jöfnuðar. Það er því gráglettni réttlætisgyðjunnar að umtalsverður hluti landsins hafnaði hjá ættflokki og fjölskyldu Mugabe. Hann sjálfur er gjarnan á lista Forbes tímaritsins yfir ríkustu einræðisherra Afríku. Þegar ásakanir um slíkt voru bornar undir Mugabe svaraði hann: „True, some land was bought by a few Cabinet Ministers. They bought the land. No minister, to my knowledge acquired land which was meant for resettlement."

Ólík þróun

Það sem er þó alvarlegast er að Mugabe stjórnin tókst ekki að styrkja getu landsmanna til að ráða eigin málum. Þekking hefur horfið og stjórnvöld hafa neitað að horfast í augu við að það voru hæpnar forsendur fyrir aðgerðum eins og þeim sem ráðist var í. Á meðan Mandela vildi styrkja svarta meirihlutann til að eflast innan kerfis sem þegar var fyrir hendi vildi Mugabe umbylta kerfinu. Mandela taldi að umbætur og aðlögun væru réttu forsendurnar og að Suður-Afríka yrði að skapa aðstæður fyrir millistétt af báðum litarháttum. Það er síðan annað mál hvernig það hefur gengið og í dag er að nýju ástæða til að hafa áhyggjur af veikleikum suður-afríska samfélagsins.

Mugabe endaði á að öreigavæða landið í viðleitni sinni við að skapa jöfnuð. Hann horfði framhjá þeim möguleikum sem voru til þess að reisa við millistétt í landinu sem hefði getað stutt við framþróun og efnahagslegt sjálfstæði landsins. Þess hafa landsmenn goldið nú þegar virðist ljóst að komið er að endalokum valdatíðar Mugabe.    

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.