c

Pistlar:

18. apríl 2017 kl. 10:44

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ástin er ekki til sölu!

ThinkstockPhotos-621146516 (2)Brúðkaup eru svo innilega uppáhalds fyrir svo margar sakir. Það er alltaf gaman að fagna því að þeir sem manni þykir vænt um hafi hitt hinn helminginn af sér.

Það er nefnilega alls ekki sjálfsagt. Í flóru einhleypra er í raun merkilegt að tvær manneskjur nái saman, verði eitt og ákveði að ganga lífsins veg saman með öllum kostum og göllum hvors annars. En kraftaverkin gerast eins og sjá má á fjölda brúðkaupa.

Ef fólk finnur stóru ástina á það endilega að gifta sig sem fyrst og njóta alls þess sem ástin hefur upp á að bjóða.

Ástin er nefnilega svo mögnuð því hana er hvorki hægt að kaupa né leigja. Ef það væri hægt væru peningaöflin löngu búin að tappa ástinni á brúsa og selja hana svo dýrt að eina fólkið sem hefði efni á ástinni væri fólkið á Forbes 500-listanum.

Það er einmitt þess vegna sem fólk á að fagna ástinni, hvort sem það gerir það í Laugardalshöllinni með öllum og ömmu þeirra eða heima í þröngum hópi með heimagerðum brauðtertum og kjúklingasúpu. Svo er líka alveg hægt að gifta sig án þess að neinn sé viðstaddur nema sýslumaður og vottar. Þótt það hljómi ekki rómantískt verður dagurinn brúðkaupsdagur þegar á hólminn er komið. Og ef fólk er nægilega ánægt með hvort annað þarf ekkert óþarfa prjál.

Þótt það sé hægt að fagna ástinni á fjölbreyttan hátt held ég að flestir séu sammála um að það er stuð að fara í brúðkaup. Ég meina, hverjum finnst ekki vera stemming í að klæða sig upp og fagna ástinni með þeim sem manni þykir vænt um?

Nú er heitasti brúðkaupstími ársins að fara í hönd. Það er ósköp skiljanlegt að fólk vilji ganga í hjónaband þegar dagar og nætur renna saman í eitt og birtan er í forgrunni. Á björtum sumarnóttum þarf enginn að sofa. Það er þó ansi margt sem brúðhjón þurfa að hafa í huga, fyrir utan að panta prest, kirkju, sal og allt það. Það þarf í raun að hanna atburðarás dagsins fyrir fram og gæta þess vel að tímaplan haldist. Það er til dæmis mikill „partýkiller“ þegar brúðhjón fara í brúðkaupsmyndatöku eftir athöfnina og láta gestina bíða í meira en tvo klukkutíma. Fólki finnst nefnilega ekki gaman að bíða og alls ekki í veislum.

Ef brúðkaupsveislan mun standa fram á nótt er nauðsynlegt að bjóða upp á mat í kringum miðnætti. Maturinn þarf ekki að vera flókinn. Hann má vera grillaðar samlokur eða eitthvað slíkt en það þarf að vera búið að skipuleggja hver á grilla samlokurnar og hvernig eigi að bera þær fram. Svo skiptir máli að brúðhjónin stilli áfengisneyslu í hóf – en það er náttúrlega smekksatriði eins og svo ótal margt í lífinu.