c

Pistlar:

15. febrúar 2018 kl. 12:38

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Ertu sambandsfíkill?

Í tilefni af nýliðnum degi kærleikans Valentínusardeginum sjálfum ætla ég að skrifa nokkrar línur um litróf ástarinnar.

Ég held að allir þrái að eignast góðan maka, að vera ástfangnir og hamingjusamir til æviloka eins og gerist í öllum góðum ævintýrum, og leynt og ljóst leitum við að rétta viðhenginu sem duga skal ævina á enda svona a.m.k í fyrirætlununum. Ég held að ef við værum fullkomin í elskunni værum við líklega að framfylgja því sem fram kemur í kærleiksboðorðinu sem  vinsælast er til nota þar sem tveir aðilar ákveða að bindast hvor öðrum og gangast undir heilög heit hjónabandsins.

Það kærleiksboðorð hljóðar svo:


Kærleikurinn er langlyndur,hann er góðviljaður.

Kærleikurinn öfundar ekki.

 
Kærleikurinn er ekki raupsamur,hreykir sér ekki upp. 

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,

 
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.


Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.

 
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Falleg orð þetta og svo sannarlega til eftirbreytni og umhugsunar dag hvern.

En hver skildi svo andstæða þessa fallega kærleika vera?

Fyrir nokkrum árum kom út bók sem ég skrifaði ásamt vini mínum Theodóri Birgissyni fjölskylduráðgjafa þar sem við snerum þessum kafla kærleikans upp í andstæðu sína eða þar sem virðingu, ást og velvild vantar og settum upp með eftirfarandi hætti:

Hann er sjaldan þolinmóður

Hann er sjaldan góðviljaður

Hann öfundar

Hann hreykir sér

Hann er hrokafullur

Hann er dónalegur

Hann hegðar sér ósæmilega

Hann sækist eftir því sem er best fyrir hann sjálfan

Hann reiðist auðveldlega

Hann er langrækinn.

Því miður eru margir sem búa við óheilbrigð sambönd sem þeir ættu að vera komnir út úr fyrir löngu og þekkir sú sem þetta ritar það mjög vel frá fyrri tíð.

Ofbeldi í allri mynd og fíknir eru eitthvað sem við ættum aldrei að búa við undir nokkrum kringumstæðum þar sem það skaðar okkur til anda sálar og líkama.

Ein tegund fíknar sem veldur því að við festumst í slíkum samböndum kallast ástarfíkn og hún er alls ekki eins óalgeng og við stundum viljum halda enda rauðar bókmenntir og bíómyndir duglegar að ýta undir þær tilfinningar sem þar fara af stað, og við erum aldar upp við það (a.m.k stelpur) að svona eigi ástin að vera í allri sinni mynd.

Ef við skoðum til dæmis þá bók sem seld var í mörgum bílförmum fyrir nokkrum árum eða "fifty shades of Gray", þá sjáum við að við konur virðumst helst heillast af mönnum sem hafa lítið sem ekkert að gefa tilfinningalega, misbeita valdi, kaupa okkur með gjöfum en vilja ekki nánd, halda okkur og sleppa og svo fr. og auðvitað komum við þessum mönnum til bjargar og leiðréttum þá og allt verður gott! Þetta finnst mér nú eiga svolítið skylt við þá fíkn sem ég nefndi áðan, eða ástarfíknina.

Ástarfíknin lýsir sér einkum í því að sá sem haldinn er henni er yfirleitt ástfanginn af ástinni og þeim boðefnaruglingi sem þar á sér stað en hugsar minna um hversu æskilegur félagsskapurinn er sem hann er í til lengri tíma og hvort að sá sem á að uppfylla og fullkomna aðilann er þesslegur að hann geti skapað hamingju og öryggi í lífinu og allt of oft lenda þessir aðilar einmitt á þeim aðilum sem ekkert hafa að gefa og auka frekar á vanlíðanina hið innra frekar en hitt.

Dagdraumar og fantasíur eru hluti af daglegu lífi þess sem elskar með þessum hætti og sá sem ástina á að gefa þarf að fylla upp í allan tómleikann og sársaukann sem býr hið innra, en auðvitað geta hvorki heilbrigðir né óheilbrigðir aðilar uppfyllt tómleika þinn eða skort á sjálfsvirði þínu.

Það er einnig mjög algengt að sá sem haldinn er þessari fíkn sé með lélegt sjálfsmat og virði sjálfan sig ekki, jafnvel þurfi að upplifa verðmæti sitt í gegnum annan aðila og sé staddur langt fyrir utan sjálfan sig ekki ósvipað og gerist við aðra fíknisjúkdóma.

Og ég held satt að segja að í öllum tilfellum ef ég leyfi mér að fullyrða sé sjálfsmyndin og sjálfsvirðið hjá þeim sem haldinn er ástarfíkn sköðuð.

Kannski eru það boðefnin sem fara af stað og duga allt að 2 árum sem sótt er í þegar um ástarfíkn er að ræða og skýrir hvers vegna fólk virðist verða viti sínu fjær og detta inn í ástarþráhyggju með fólki sem það ætti alls ekki að koma nálægt, en hvað veit ég svosem um það, en það má velta því fyrir sér :)

Það sem ég veit þó er að við ættum aldrei að bjóða okkur uppá neitt nema það besta þegar að ástinni kemur og vera þar sem við fáum fallega virðingaverða framkomu, og ef ekki - hlaupum þá í burtu og það hratt! 

Og ef þú þarft aðstoð við að leysa úr þínum verkefnum í lífinu þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

Kærleikskveðja til þín sem átt bara það fallegasta og besta skilið - bæði af þér sjálfri/sjálfum og öðrum <3

xoxo

ykkar Linda

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira