c

Pistlar:

29. maí 2017 kl. 14:59

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Merkimiðar

Við erum stundum svo afar glöð í fullyrðingum okkar og fordómum og afar gjöful á merkimiða bæði til heilu samfélagshópanna og eins einstaklinga sem mega sín einskis gegn þessum "réttlætanlegu" merkimiðum.

Merkimiðum eins og t.d  "allir karlmenn" eru ómögulegir og hafa heilann á vitlausum stað, "allar konur" kunna ekki að keyra og því síður að bakka í stæði, "allir unglingar" eru óalandi og óferjandi. "allir kristnir" eru öfgatrúar og hommahatarar, "allir múslímar" eru hryðjuverkamenn og kvennakúgarar,"allir listamenn eru draumóramenn og latir, "allir auðmenn" eru glæpamenn og þjófar. Eins erum við ósköp dugleg við að gefa merkimiða þeim sem gera eitthvað öðruvísi en við gerum og eru kannski líka öðruvísi en við erum sjálf og það gengur ekki í okkar sjálflæga huga. 

Svona get ég haldið áfram að tína til þær merkingar sem við gefum út alveg hægri vinstri án þess þó að hugsa nokkurn hlut um það hvað við erum í raun að segja eða gera þeim sem merkinguna fá. 

Það eru líklega rúmir sjö milljarðar manna á lífi í heiminum núna, og þar af leiðandi u.þ.b sjö milljarðar sagna í gangi, því að saga okkar allra er ólík og ómögulegt fyrir okkur að skilja aðra menn nema að mjög litlu leiti.

Þó eigum við svo erfitt með að skilja þá einföldu staðreynd að við bara getum ekki skilið aðra til fulls og munum aldrei geta það!

Við eigum svo sem sameiginlega reynslu sum hver, eins og t.d veikindi af ýmsum toga,barnsfæðingar, skilnaði og slíkt, og getum skilið upp að vissu marki hvað aðrir eru að ganga í gegnum þar.

Aðra þætti lífs hans þekkjum við hinsvegar ekki og getum ekki þekkt. Sú saga er margþætt og gerir þessa persónu að því sem hún er í dag. þúsundir brota af einu eða öðru tagi hafa mótað sögu hennar og við erum ekki fær um að dæma lífsveg hennar með nokkrum hætti þar sem við sjáum ekki hvaða brot það voru sem gerðu hana að því sem hún er í dag. Og það verður ekki fyrr en að við getum séð inn í hjarta hennar sem við getum skoðað hversvegna hún framkvæmir eins og hún framkvæmir.

Ég ákvað að skrifa þennan pistil vegna þess að mig langar svo óskaplega til þess að hann verði til þess að við skoðum hvers vegna okkur finnist þörf á að gefa út alla þessa merkimiða sem eru oft eins og gyðingastjörnur Hitlers voru forðum daga fyrir þá sem merktir voru þeim.

Þessar merkingar okkar hafa oft áhrif eins og þau að einstaklingnum finnst hann ekki nógu góður eða vera of lítið eða mikið af einhverju. Þeir einstaklingar sem þetta upplifa fara í kjölfarið oft að fela sig og mynda með sér sjálfsfyrirdæmingu. Og í sumum tilfellum fara þessir einstaklingar að hata einstaklinga, þjóðfélagið eða menninguna sem merkti þá og þá er voðinn vís bæði fyrir þá sjálfa og þá sem í umhverfinu eru.  

Vörum okkur á því að falla í gryfju fullyrðinga og alhæfinga um allt og alla, fordæmum heldur ekki sögur sem við einfaldlega þekkjum aldrei það vel að við séum fær um að dæma þær, en látum þess í stað kærleikann til meðbræðra okkar leiða okkur áfram og ráða ríkjum í hjörtum okkar. Og að endingu elskurnar höfum að leiðarljósi í samskiptum okkar virðinguna fyrir persónu einstaklingsins, menningu, gildum, trú og sögu.

Aðgát í nærveru sálar er okkur alltaf til sóma og það innifelur ofkors í sér að bera virðingu fyrir þeim sjö milljörðum sagna sem byggja þennan heim nú um stundir...

KÆRLEIKUR og VIRÐING er málið elskurnar.

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira