c

Pistlar:

3. júlí 2017 kl. 16:13

Birna G. Ásbjörnsdóttir (jorth.blog.is)

HUGAÐU AÐ ÞARMAFLÓRUNNI

 

Flestir upplifa óþægindi út frá meltingarvegi einhverntíman á lífsleiðinni. Það veltur á einkennum og hversu oft þau koma hversu mikil áhrif þau hafa á lífsgæði. Uppþemba, brjóstsviði, harðlífi, niðurgangur, ristilkrampar og iðraólga (IBS) eru dæmi. Við erum með fjöldann allan af örverum í meltingarvegi, frá munni til endaþarms (1). Þarmaveggir eru þaktir örverum og seigju eða slími (mucin) sem þjónar ákveðnu verndarhlutverki. Þekjuvefsfrumur þarmaveggjanna hafa einnig það hlutverk að koma í veg fyrir bólguviðbrögð þar sem þær eiga í nánum samskiptum við ónæmiskerfi þarmanna ásamt þarmaflóru.

ÞARMAFLÓRAN

Eins og nafnið gefur til kynna þá er þarmaflóran staðsett í meltingarvegi/þörmum. Við erum með bakteríur og aðrar örverur sem lifa í munni, vélinda, maga, smáþörmum og ristli. Meltingarvegurinn kemst reglulega í snertingu við ytra umhverfi í formi fæðu (1). Þarmaflóran verður því fyrir áhrifum frá umhverfinu. Þrátt fyrir að hvert og eitt okkar sé með sína einstöku örveruflóru þá þjónar hún sama tilgangi hjá okkur öllum. Örveruflóran í meltingarveginum hefur bein áhrif á heilsufar okkar, andlega og líkamlega . Þessar örverur hjálpa okkur að brjóta niður fæðið og melta það ásamt því að framleiða ákveðin vítamín og fitusýrur sem eru okkur nauðsynleg. Örverurnar framleiða einnig boðefni sem við nýtum okkur.  Sem dæmi má nefna serotonin og dopamin. Heilbrigð þarmaflóra er forsenda heilbrigðrar starfssemi meltingarfæranna ásamt því að hafa áhrif á á taugakerfið, ónæmiskerfið og hormónakerfið (3).

DYSBIOSIS

Örveruflóran í meltingarveginum getur skaðast og kallast það dysbiosis. Einkenni koma þá oftast fram sem óþægindi út frá meltingarvegi s.s. uppþemba, loftmyndun, hægðatregða eða lausar hægðir. Ástæður geta verið margar s.s. slæmt mataræði (4). Ákveðin lyf, t.d. sýklalyf, sýrubindandi lyf eða gigtarlyf, geta stuðlað að dysbiosis en einnig haft slæm áhrif á þarmaveggina (5). Heilbrigði þarmaveggja er mikilvægt þar sem þeir stýra því hvað fer frá meltingarvegi út í líkamann (6). Ef þarmaveggir eru ekki nógu heilbrigðir hleypa þeir meira af bólgumyndandi efnum (t.d. lípópólísakkaríðum frá bakteríum) í gegn sem getur valdið margþættum vandamálum og leitt til ýmissa sjúkdóma.

GEGNDRÆPI þarmanna

Á milli frumna í þörmunum eru samskeyti sem geta opnast og lokast við ákveðnar aðstæður. Dr Fasano, sérfræðingur í meltingarfærasjúkdómum barna, hefur m.a. starfað við læknadeildina í Harvard. Það var fyrir tilviljun að hann uppgötvaði prótínið zonulin, sem eykur gegndræpi þarmanna, fyrir um 20 árum síðan. Zonulin er framleitt í þörmum spendýra en maðurinn framleiðir þó mest. Zonulin er eina lífeðlisfræðilega “verkfærið” sem vitað er um, sem rýfur tengi í þarmaveggjum (7). Þegar þessi tengi eru rofin eiga mótefnavakar, bæði frá örverum og fæðu, greiðan aðgang að blóðrás. Afleiðingar eru mögulega langvinnar/þrálátar bólgur og sjúkdómar af þeirra völdum hjá ákveðnum hóp af fólki. Samkvæmt rannsóknum veldur glúten (er í hveiti, rúgi og byggi) aukinni framleiðslu á zonulini (8). Einnig sýna rannsóknir að langvarandi streituástand getur haft þessi sömu áhrif. Þar að auki getur dysbiosis aukið framleiðslu á zonulini og þannig stuðlað að þessu aukna gegndræpi (9).

LANGVINNAR bólgur og ýmsir kvillar geta átt upptök sín í þörmunum

Ákveðnar gram-neikvæðar bakteríur í meltingarveginum gefa frá sér efni sem nefnist llípópólýsakkaríð (LPS). Ef þessi efni komast út í blóðrásina geta þau haft óæskileg áhrif á heilsu. Þegar gegndræpi þarmanna er of mikið, þegar tengin opnast of oft eða of lengi í senn, þá eiga m.a. LPS greiðan aðgang að blóðrás og berast þannig um líkamann. Fjöldinn allur af rannsóknum staðfesta óæskileg áhrif LPS á heilsu.

Smáþarmarnir eru þaktir þarmatotum sem hafa það hlutverk að auka yfirborð smáþarmanna til að frásog næringarefna verði sem mest. Sýnt hefur verið fram á að LPS hafa skaðleg áhrif á þessar þarmatotur með þeim afleiðingum að þær rýrna. Það getur leitt til næringarskorts til lengri tíma litið. LPS eykur gegndræpi þarmanna þar sem það stuðlar að aukinni zonulin framleiðslu, og þannig getur LPS viðhaldið langvinnum bólgum og afleiðingum þeirra (10, 11).

Sýnt hefur verið fram á að hægt er að framkalla þunglyndi hjá fólki með því að gefa væga skammta af LPS í æð (12). LPS hefur áhrif á heilann, getur dregið úr framleiðslu á dópamíni og serotoníni og haft skaðleg áhrif á þann hluta heilans sem hefur með minni að gera.

Heiladingull framleiðir stýrihormón fyrir skjaldkirtil sem nefnist TSH. Ef TSH framleiðsla minnkar framleiðir líkaminn ekki nægilega mikið af skjaldkirtilshormónum. Rannsóknir sýna að LPS geta haft letjandi áhrif á TSH framleiðslu (13) en einnig á virkni skjaldkirtilshormóna (líkaminn nær ekki að breyta T4 yfir í virka hormónið T3). Þessi hormón eru nauðsynleg fyrir frumurnar okkar og efnaskipti. Ef efnaskiptin eru hæg sökum hormónaójafnvægis getur það valdið ýmsum vandamálum. Afleiðingarnar geta m.a. verið óeðlileg þreyta, þyngdaraukning og depurð.

Ghrelin er hormón sem er framleitt í meltingarveginum og hefur áhrif á matarlyst. Ghrelin framleiðsla eykst þegar maginn er tómur. Aukin framleiðsla á ghrelini veldur aukinni matarlyst. Ef ghrelinframleiðsla er aukin vegna annarra þátta, t.d. LPS, þá er aukin hætta á ofáti vegna viðvarandi hungurs sem síðan leiðir til óæskilegrar þyngdaraukningar (14).

Leptin er hormón sem er framleitt í fitufrumum. Leptín slekkur á hungri og framkallar seddutilfinningu.  Þegar maginn er fullur þá framleiðir líkaminn leptin og við verðum södd. LPS getur haft áhrif á leptínframleiðslu bæði með því að draga úr framleiðslunni en einnig með því að gera leptínnema ónæma og þannig virkar ekki leptínið sem skyldi (14).

Rannsóknir sýna að LPS eykur streitu og viðheldur streituástandi með því að hafa áhrif á nýrnahettur og kortisól framleiðslu (15). Aukin kortisól framleiðsla til lengri tíma getur haft ýmsar óæskilegar afleiðingar, s.s. kvíða, depurð, höfuðverki, svefnvandamál og þyngdaraukningu.

LPS hefur einnig áhrif á upptöku ákveðinna næringarefna (16).  Sínk er mikilvægt steinefni fyrir líkamann. Skortur á sínki getur t.d. dregið úr framleiðslu á magasýrum og þannig haft áhrif á meltingu og frásog mikilvægra efna. Til lengri tíma getur þetta valdið næringarskorti.  Lágar magasýrur hafa einnig verið tengdar við ofvöxt óhagstæðra örvera í þörmum.

Fjöldinn allur af rannsóknum sýna fram á að LPS stuðla að langvinnum bólgum og svokölluðu “oxidative stress” ástandi, en hvorutveggja er slæmt fyrir líkamann og er undirliggjandi orsök margra þekktra langvinnra sjúkdóma (12,17,18,19,20). Oxidative stress hefur m.a. letjandi áhrif á ATP framleiðslu í frumum líkamans, en það getur komið fram sem orkuleysi og þreyta. LPS dregur úr framleiðslu á andoxunarefninu glutathione, en það er eitt öflugasta andoxunarefni sem til er (21).

VIÐHALD á þarmaflórunni er ævilangt verkefni

Þarmaflóran spilar lykilhlutverk í líkama okkar og hefur mjög mikið að segja um heilsufar, bæði andlegt og líkamlegt. Inntaka á mjólkursýrugerlum (probiotics) ásamt neyslu á gerlaríku fæði (s.s. jógúrti, súrkáli, kombucha, miso) hefur jákvæð áhrif á þarmaflóruna og meltingarveginn. Mjólkursýrugerillinn Lactobacillus plantarum 299v hefur sérstaklega verið rannsakaður í tengslum við dysbiosis með jákvæðum niðurstöðum og hefur sýnt breiðari verkun en aðrir mjólkursýrugerlar.  Til að viðhalda heilbrigðri þarmaflóru er mikilvægt að neyta hollrar, trefjaríkrar  fæðu sem er án aukaefna ásamt því að taka reglulega inn mjólkursýrugerla. Þannig má draga úr óþægindum út frá meltingarvegi og jafnvel fyrirbyggja langvinnar bólgur og langvinna sjúkdóma.

 

Birna G. Ásbjörnsdóttir

Birna G. Ásbjörnsdóttir

Rannsakandi við Háskóla Íslands og gestarannsakandi við Harvard Medical School, frumkvöðull og stofnandi Jörth.

 

Meltingarvegurinn og þarmaflóran hafa verið þungamiðjan í menntun Birnu og rannsóknum hérlendis og erlendis í tæpa tvo áratugi. 

 

Jörth var stofnuð með það markmið að hjálpa fólki að bæta heilsu sína og líðan með því að koma jafnvægi á meltinguna.

 

jorth.is

 

Meira