c

Pistlar:

21. september 2022 kl. 11:32

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Jafnvægi

Ég bý svo vel að eiga matjurtagarð. Á þessum árstíma er svo dásamlegt að geta hlaupið út í garð og sótt mér ferskt brokkolí og nýsprottnar gulrætur í soðið. Mér finnst það mikil forréttindi að geta notið gjafmildi jarðar svona milliliðalaust. 
 
Á föstudaginn kemur eru jafndægur að hausti. Þá skín sólin beint á miðbaug og dagur er nokkurn veginn jafn langur nótt alls staðar á jörðinni. Birta og myrkur hafa fundið sér jafnvægispunkt. Yin og yang dansa saman í jöfnum styrk.
 
Hér áður fyrr skiptist árið í fjórar mikilvægar hátíðir, vetrar- og sumarsólstöður og jafndægur að vori og hausti. Árið skiptist í misseri veturs og sumars. Haustjafndægur voru á norðurhveli hátíð uppskeru og allsnægta og tími til að fagna fræjum lífsins, fræjum sem yrði sáð fyrir uppskeru næsta árs. Þau voru þannig í nánum tengslum við vonir og drauma um lífvænlega framtíð. Þetta var tími til að safna forða fyrir veturinn og bóndinn gerði áætlun um það hversu mikið fé hann gat haft á húsi, byggt á heyforða sumarsins. 
 
Við sem búum í malbikaðri borg og upphituðum húsum finnum ekki jafn sterkt fyrir hringrás ársins eins og forfeður okkar. En á haustin fara nú samt börnin aftur í skólann og hlutirnir færast í fastari skorður. Við hér á norðurhveli finnum fyrir vindum haustsins og skuggum sem taka að lengjast. Við tökum til í garðinum, kaupum vetrargalla á börnin og gerum okkur klár til að taka á móti fyrstu lægðum vetrarins.  
 
Haustið er góður tími til að búa okkur undir veturinn og meta hversu mikla krafta við höfum fyrir verkefnin framundan. Að velja vel í hvað við eyðum orkunni og hlúa vel að okkur. 
 
Haustjafndægur minna okkur á að finna jafnvægi í lífinu. Við getum ræktað með okkur jafnvægi með því að gefa jafnan gaum að framkvæmd og slökun, með því að borða næringarríka fæðu og gefa meltingunni hvíld þess á milli. Með því að hlusta á þarfir okkar til að vera ein með okkur sjálfum og að hlusta um leið á þörfina fyrir félagsskap. Að nærast hið innra sem ytra. 
 
Í jóga erum við alltaf að vinna í að koma á jafnvægi. Jafnvægi á milli prana og apana, prana er lífsorkan og apana er sú orka sem við þurfum að hafa til að hreinsa út og losa okkur við úrgang. Jafnvægi á milli ida og pingala sem eru tvær orkubrautir sem liggja upp hryggsúluna. Ida stendur fyrir innsæi og sköpun, móttækileika og flæði. Fyrir slökun og dýpt kyrrðar. Eiginleikar sem eru stundum sagðir minna á tunglið. Pingala stendur fyrir framkvæmdakraft og hita, einbeitingu, útrás fyrir umframorku og skýra stefnu. Eiginleikar Pingala eru sagðir tilheyra sólinni. Allt jóga gengur út á að koma jafnvægi á milli andstæðra póla, sólar og tungls, himins og jarðar, ljóss og myrkurs. Að virkja krafta okkar svo við getum hljómað saman sem ein heild. 

Námskeiðið Lífið í jafnvægi er ferðalag í gegn um orkustöðvarnar þar sem við vinnum í að koma jafnvægi á hverja og eina þeirra í gegn um jóga, hugleiðslu og Gong slökun.

Orkustöðvarnar endurspegla mismunandi þætti lífsins og starfsemi innkirtlanna. 

  • Rótarstöðin stendur fyrir jörð og öryggi og tilfinningu fyrir að tilheyra. Streita og áföll geta haft djúp áhrif á tilfinningu okkar fyrir öryggi og gert okkur eirðarlaus og úr tengslum við líkamann og jörðina. 
  • Magastöðin tengist sköpun og flæði. Hún endurspeglar kynorkuna okkar og hæfileikanum til að tilfinningarnar okkar og vera með þeim í líkamanum. 
  • Þriðja orkustöð gefur okkur sjálfsöryggi og styrk. Ef við gefum henni gaum og nærum hana getur hún  leitt okkur út úr kvíða og þunglyndi og inn í framkvæmdakraft og sjálfstraust. 
  • Hjartastöðin er stöð kærleika og allsnægta. Og djúprar öndunar. 
  • Hálsstöð gefur okkur opna tjáningu og hlustun. Við lærum að tjá sannleikann og vera tilbúin að heyra hann. 
  • Ennisstöð gefur okkur innsæi og kyrrð. Og skýra sýn. 
  • Hvirfilstöð færir okkur einingu og samtal við andlegar víddir.

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira