Typparúllur ómissandi í Eurovisionpartíið

Inga S. Árnadóttir klikkar ekki á smáatriðunum.
Inga S. Árnadóttir klikkar ekki á smáatriðunum. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhalds vika Eurovisionaðdáandans Ingu S. Árnadóttur er nú komin vel af stað. Vikan hófst með pompi og prakt þegar ljóst varð að framlag Íslands í Eurovision komst áfram í úrslitakeppnina sem fram fer næstkomandi laugardag í Tórínó á Ítalíu. Inga er mikil stemningskona og leggur alltaf allt í sölurnar þegar Eurovisionkeppnin og Þjóðhátíð í eyjum eru annars vegar en vikan fyrir Eurovision er hennar uppáhalds tími, að undanskilinni vikunni fyrir Verslunarmannahelgi.  

Inga hefur lagt það í vana sinn til margra ára að halda íburðarmikil Eurovisionpartí, hvort tveggja fyrir forkeppnir og úrslitakvöld. Síðastliðinn þriðjudag var Inga reyndar gestkomandi í Eurovisionveislu hjá vinafólki sínu en lét ekki sitt eftir liggja og ákvað að mæta með Eurovisionköku í partíið sem sló rækilega í gegn.

Kakan sem bakaríið Vigtin skellti í á einu augabragði.
Kakan sem bakaríið Vigtin skellti í á einu augabragði. Ljósmynd/Aðsend

„Sagan af kökunni er stutt og laggóð,“ segir Inga, aðspurð um tilkomu kökunnar. „Mér var boðið í Eurovision pítsupartí og ég lofaði að koma með eftirrétt. Ég skellti mér í Vigtina, bakarí í Vestmannaeyjum, því ég hafði áður keypt hjá þeim Daða og Gagnamagns bollakökur. Staðan var hins vegar sú að þau áttu ekkert tengt Eurovision í ár. Í staðinn var mér bara lofuð kaka sem bakararnir í Vigtinni bara bökuðu og græjuðu á „no-time“ fyrir mig,“ útskýrir Inga en samfélagið í Vestmannaeyjum veit vel hversu mikið dálæti Inga hefur á Eurovisionkeppninni. „Ég náði svo í þessa glæsilegu köku rétt fyrir lokun hjá þeim og sló auðvitað í gegn í partíinu,“ segir Inga og er að vonum ánægð með þjónustuna í bakaríinu.

Hvers vegna ertu forfallinn Eurovisionaðdáandi?

„Keppninni fylgir bara svo mikil gleði. Það er ekki annað hægt en að hrífast með. Og tala nú ekki um að fara á keppnina sjálfa það er draumi líkast. Maður labbar bara inn í einhvern ævintýraheim þar sem allir eru með brosið frosið fast á sér,“ segir Inga en hún var viðstödd keppnina í Portúgal árið 2018 og segir það hafa verið ólýsanlega upplifun. 

Inga skreytir heimilið hátt og lágt þegar Eurovisionkeppnin gengur í …
Inga skreytir heimilið hátt og lágt þegar Eurovisionkeppnin gengur í garð. Ljósmynd/Aðsend

Inga viðurkennir að hafa fyrst um sinn átt erfitt með framlag Íslendinga í keppninni í ár en hún segist jafnframt vera búin að taka lagið í sátt. Sem stuðbolti af Guðs náð hefði hún heldur kosið að senda fjörugra lag en silkimjúka ballöðu en hún segir lagið Með hækkandi sól hafa vanist vel.

„Ég hef ef lært að elska þetta lag. Þetta var ekki það sem ég kaus í Söngvakeppninni, mig langaði í meira stuð. En þetta lag er rosalega fallegt og vel gert og það er ekki hægt að segja neitt annað en að þær systur séu þvílíkir fagmenn,“ segir Inga sem hefur fylgst grannt með keppninni síðan árið 1999, þegar Selma Björnsdóttir gerði garðinn frægan með laginu All Out of Luck.  

„Það var á þeim tímapunkti sem ég kolféll fyrir keppninni. Ég hafði alveg horft á Eurovision fyrir þann tíma en þetta er fyrsta alvöru minningin mín,“ segir hún. „Það besta við Eurovision er að ná öllum vinunum saman, borða góðan mat og halda gott partí. Helst svo gott og hávært að löggan kemur að skipta sér af,“ segir Inga og hlær. „Það þýðir ekkert annað en að syngja með af innlifun og hafa allt í botni. Það eru partí að mínu skapi,“ segir hún ákveðin og játar að spila gömlu Eurovisionslagarana Nínu og Is It True í ófá skipti þegar hún heldur partí, enda eru það hennar eftirlætis Eurovisionlög. 

Inga ásamt vinkonu sinni á Eurovisionkeppninni í Portúgal árið 2018.
Inga ásamt vinkonu sinni á Eurovisionkeppninni í Portúgal árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er alltaf með stórt Eurovisionpartí. Skelli börnunum í pössun og bið alla sem ætla að mæta um að koma með einhvern rétt með sér - sem hefur gefist mjög vel. Svo hef ég veðbanka uppi á stóru blaði þar sem partígestir kjósa um fyrsta, annað og síðasta sætið. Sá sem er með flest rétt vinnur og það er alltaf bjórpottur í vinning,“ segir Inga sem skreytir heimilið hátt og lágt með blöðrum, fánum og öllu tilheyrandi.

„Stundum er ég með ákveðið þema, stundum ekki. Þetta eru mín partí og mínar reglur,“ segir Inga glettin. „Það er bannað að blaðra mikið yfir keppninni og ég er alveg mjög dugleg og óhrædd við að sussa.“

Það er rík hefð hjá Ingu og fjölskyldu að flagga …
Það er rík hefð hjá Ingu og fjölskyldu að flagga íslenska fánanum með þessum hætti þegar mikið liggur við. Ljósmynd/Aðsend

Lumar þú á uppskrift af góðum Eurovisionrétti sem gott er að hafa við höndina í Eurovisionpartíinu á laugardaginn?

„Það er enginn að finna upp hjólið þegar kemur að sniðugum réttum en það sem hefur verið vinsælt eru litlar Ritz-kex kjötbollur í sósu, beikonvafðar döðlur, mini-borgarar, og ostasalat að ólöstuðum typparúllunum. Já, sko, við köllum Mexíkó-vefjur typparúllur. Þá eru skinka, rauð paprika og blaðlaukur, skorið niður í smáa bita, rjómaosti og salsasósu hrært saman og smurt á tortillur. Tortillu-kökunum er svo rúllað upp og skornar í munnbita,“ segir Inga og lofsamar typparúllurnar fyrir öll helstu veislutilefni. „Svo er ofsalega smart að setja Doritos flögur á disk og raða bitunum yfir.“

Þessi sérsaumaði kjóll hefur Inga notað mikið við hin ýmsu …
Þessi sérsaumaði kjóll hefur Inga notað mikið við hin ýmsu tilefni, til dæmis eins og Eurovision. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál