Undir áhrifum frá Downton Abbey

Heiðrún Hödd Jónsdóttir nemi í innanhússhönnun í Kaupmannahöfn.
Heiðrún Hödd Jónsdóttir nemi í innanhússhönnun í Kaupmannahöfn.

Heiðrún Hödd Jónsdóttir íslensku- og fjölmiðlafræðingur býr í fallegri íbúð í Kaupmannahöfn ásamt kærasta sínum, Braga Michelssyni. Þau keyptu íbúðina í desember og hafa síðan í febrúar málað og innréttað hana á sinn einstaka hátt. Það voru hæg heimatökin við þá iðju því Heiðrún Hödd stundar nám í innanhússhönnun auk þess að starfa sem flugfreyja. 

Heiðrún Hödd flutti til Kauphannahafnar í haust en hún er uppalin á Patreksfirði. Hún er oftast með mjög skýra sýn á hvað hún vill og hvert hún stefnir en leggur um leið ríka áherslu á að lifa í núinu og njóta. „Mér finnst mikilvægt að líf mitt einkennist af því sem ég brenn fyrir og veitir mér ánægju,“ segir hún og bætir við: „Og svo vil ég hafa nóg af kertum, bókum og blómum í kringum mig,“ segir hún.

Ástæða þess að parið flutti til Danmerkur var að bæði hófu þau nám í Kaupmannahöfn. Hann í byggingafræði og hún í innanhússhönnun. „En svo langaði okkur líka þetta klassíska; að upplifa ný ævintýri.“

Vínrauði liturinn á borðstofunni kemur vel út.
Vínrauði liturinn á borðstofunni kemur vel út.
Hér sést glitta í vínrauðu borðstofuna.
Hér sést glitta í vínrauðu borðstofuna.
Vínrauður fer vel við ljósar gardínur.
Vínrauður fer vel við ljósar gardínur.


Þegar Heiðrún Hödd er spurð út í ástandið á íbúðinni segir hún að íbúðin hafi verið í þokkalegu standi.

„Það þurfti í raun lítið að gera við hana, það var nýbúið að setja upp nýja eldhúsinnréttingu og gera upp baðherbergið en stærsta verkefnið var líklegast að rífa teppi af gólfum og slípa upprunalegt plankaparket sem leyndist þar undir ásamt því að mála alla íbúðina. Við settum síðan upp nýja fataskápa og þræddum að lokum búðir bæjarins í leit að alls konar fallegum hlutum og húsgögnum.“

Ertu handlagin?

„Ætli verkefnastjórnun sé ekki frekar mitt sérsvið. Ég bý svo vel að eiga ansi viljugan kærasta sem er menntaður húsasmiður þannig að það hefur ekki mikið reynt á handlagni mína hingað til.“

Sameinist þið kærustuparið í heimilisstússi og eruð þið sammála um hvernig heimilið á að vera?

„Já, ég ætti kannski að spyrja hann hvort hann sé ekki bara nokkuð sáttur með þetta allt saman? Nei, að öllu gríni slepptu þá erum við mjög samstiga og viljum að heimilið sé staður þar sem okkur báðum líður vel og það hefur tekist hingað til. Ég eyði þó mun meiri tíma en Bragi í alls konar heimilisstúss, einfaldlega vegna þess að það er mitt helsta áhugamál.“

Hvernig myndirðu lýsa þínum stíl?

„Ætli hann sé ekki klassískur með módernísku yfirbragði. Ég hrífst mikið af hönnun þar sem vandað hefur verið til verka og þar eru Danir og Ítalir fremstir í flokki. Ég legg síðan mikið upp úr því að skapa ákveðið andrúmsloft og reyni þannig að draga fram eiginleika hönnunarinnar enn frekar, oft með því að gefa smáatriðum gaum eða huga vel að litasamsetningu.“

Heiðrún Hödd er góður raðari.
Heiðrún Hödd er góður raðari.

Íbúðin sem Heiðrún Hödd og Bragi keyptu í desember er 60 fm að stærð. Hún segir að hún hafi fundist eftir langa leit. Síðan þau fengu íbúðina hafa þau nostrað við hana og gert hana hlýlega og heillandi. Þegar Heiðrún Hödd er spurð hvað það gefi henni að hafa fallegt í kringum sig segist hún fá aukinn kraft.

„Það gefur sköpunargáfunni og ímyndunaraflinu kraft og fyllir mig oft miklum innblæstri og eldmóði. Mér finnst mjög mikilvægt að skapa mér og mínum fallegt umhverfi og umkringja okkur með því sem lætur okkur líða vel, hvort sem það er vegna nota- eða fegurðargildis. Í mínu tilfelli eykur það einfaldlega vellíðan og persónulega sköpun.“

Vínrauður veggur setur svip sinn á íbúðina.

„Þegar við keyptum íbúðina fóru alls konar innanhússpælingar strax af stað og ég var meira og minna búin að hanna hana alla áður en við fluttum inn. Ég vildi varðveita einkenni íbúðarinnar, sem er byggð árið 1914, og var því innblásturinn að mörgu leyti sprottinn út frá því tímabili. Ég sá því strax fyrir mér borðstofu eða vínstofu eins og ég kýs að kalla hana í anda Downton Abbey með nútímalegu tvisti. Ég hef alltaf verið hrifinn af þessum djúpa bordeaux-lit. Mér fannst hann passa vel við hugmyndir og hönnun rýmisins en til þess að liturinn fengi að njóta sín sem best fannst mér þó verða að vera ljósari litur til að vega upp á móti. Því varð þessi ljósgrái litur fyrir valinu á hin rýmin.“

Hvaðan koma húsgögnin?

„Þau koma hvaðanæva, við ferjuðum ýmislegt að heiman hingað út en keyptum svo mikið af nýju og gömlu. Ég vildi nýta mér það að búa í Danmörku og möguleikann að kaupa klassíska danska hönnun á slikk og var því dugleg að þræða netið og heimsækja antíkverslanir í leit að fallegum mublum. Útkoman er því góð blanda af eldri hönnun og nýrri, hvort sem það er úr Illums Bolighus eða Ikea,“ segir Heiðrún Hödd.

Hvar líður þér best á heimilinu?

„Mér líður í raun vel hvar sem er á heimilinu, enda lagði ég upp með að hanna rýmin á þann hátt að það væri gott flæði af hlýleika úr einu rými í annað, en mér líður ef til vill best á heimilinu þegar við fáum að njóta félagsskapar fjölskyldu og vina.“

Hver þrífur og tekur til?

„Ætli það sé nú ekki oftast ég, en hann hefur spilað þetta vel því hann færir mér morgunmat í rúmið á hverjum morgni og hefur gert frá því við byrjuðum saman þannig að maður horfir ósjálfrátt framhjá því að hann sé kannski ekki alveg jafn öflugur í öðrum heimilisverkum.“

Hvað gerir þú þegar þú átt lausa stund?

„Þær stundir byrja oftast á góðu kaffi, því fylgir síðan oft einhver hreyfing, hvort sem það er göngutúr, útihlaup eða rösk ganga í búðum bæjarins. Annars reynir maður alltaf að eiga notalegar stundir með fjölskyldu og vinum þegar tími gefst og við erum dugleg að bjóða í kaffi eða mat með nóg af huggulegheitum og hlátri því það eru auðvitað bestu stundirnar,“ segir hún.

Hvað leggur þú áherslu á að hafa í forgangi í lífinu?

„Hamingjan er alltaf í forgangi, ég leitast við að allar ákvarðanir og athafnir gangi út frá henni, hvort sem það tengist samböndum, menntun, vinnu eða heilsu.“

Hvað dreymir þig um að eignast inn á heimilið?

„Mig dreymir um fallegan hægindastól frá Finn Juhl, málverk eftir Eggert Pétursson og Karólínu Lárusdóttur og svo má alltaf á sig lömpum bæta þó að Bragi væri ekki sammála mér þar,“ segir hún og hlær.

Eldhúsið er með fallegri viðarinnréttingu.
Eldhúsið er með fallegri viðarinnréttingu.
Panton lampinn lýsir fallega.
Panton lampinn lýsir fallega.
Ljósi sófinn fer vel við glerborðið og önnur húsgögn í …
Ljósi sófinn fer vel við glerborðið og önnur húsgögn í stofunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál