Amma veitti innblástur

Steinunn Vala Sigfúsdóttir skartgripahönnuður og eigandi Hring eftir hring.
Steinunn Vala Sigfúsdóttir skartgripahönnuður og eigandi Hring eftir hring. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Nýjasta afurð Hring eftir hring er skartgripalínan Guðrún. Steinunn Vala Sigfúsdóttir hönnuður og eigandi Hring eftir hring segir að línan kalli á þátttöku neytenda við framleiðsluna. Efniviðurinn er nefnilega að langmestu leyti endurnýttur. Línuna hannaði hún í samvinnu við Ólöfu Jakobínu Ernudóttur innanhússarkitekt. 

„Amma mín, Guðrún Jónsdóttir arkitekt, var stór og mikill karakter og hafði mikil áhrif á mig í uppvextinum. Hún var fyrirmynd mín á mörgum sviðum. Sterk, dugleg, listræn og hugrökk. Hún var ein af fyrstu íslensku kvenarkitektunum og vann sem arkitekt fram á síðasta dag á eigin stofu, hún tók þátt í stjórnmálum og þegar yngsta barn hennar fæddist 1973 og hana vantaði barnapössun opnaði hún leikskóla í kjallaranum sínum. Ég fékk oft að fylgja ömmu á menningarviðburði, opnanir listsýninga og frumsýningar og kynntist með henni leikhúsinu og listinni,“ segir Steinunn Vala. 

Amma hennar lést fyrir ári og átti hún marga fallega og eigulega hluti eftir listamenn og hönnuði. 

„Hún gekk alltaf í vönduðum, litríkum og klassískum fötum, gjarnan með stóra skartgripi enda bar hún það vel. Amma mín var nýjungagjörn og afar listræn en líka hagnýt og sparsöm og mikill safnari eins og margir af hennar kynslóð. Hún stoppaði í götóttar flíkur og notaði áfram. Hún henti nánast engu og því var það mikið verkefni að fara í gegnum eigur hennar, sem fylltu heimilið hennar allt og teiknistofuna. Sumt af því sem hún geymdi fannst mér skoplegt að finna en aðrir hlutir og gögn eru þýðingarmikil fyrir okkur og söguna. Dýrmætir munir sem munu áfram geymdir á safni,“ segir hún. 

Það kom í hlut Steinunnar Völu að fara í gegnum eigur ömmu sinnar. Þar á meðal var stór kommóða sem geymdi skartgripina hennar.

„Suma þeirra notaði hún svo mikið að þeir voru nánast orðnir ómissandi hluti af henni. Þeir munir eru okkur afar dýrmætir og einstakir. Annað skart notaði hún sjaldnar og sumt hafði ekki verið snert í langan tíma en var þó í hennar anda, vandað, listrænt og eigulegt fyrir vikið. Til dæmis þung svarthvít perlufesti frá ferð hennar til Afríku. Ég prufaði að máta nokkur hálsmenanna  sem amma átti og langaði til að geta notað þau áfram sjálf en þau fóru mér ekki eins vel og henni. Sum hálsmenanna vissi ég að fleiri en mig langaði til að eiga og því fæddist sú hugmynd hjá mér að ef til vill gæti ég tekið þau í sundur og sett aftur saman á nýjan hátt. Eða jafnvel búið til nokkur hálsmen úr einu þannig að við, afkomendur ömmu, gætum öll fengið sérstaklega gerð hálsmen úr skartinu hennar. Mér þótti erfið tilhugsun að skartið hennar myndi daga uppi ónotað, eins fallegt og eigulegt og það er.“

Steinunn Vala fékk Ólöfu Jakobínu Ernudóttur innanhússarkitekt og hönnuð til liðs við sig við hönnun línunnar. 

„Sum hálsmenin skarta undurfögrum perlum, skeljum og steinum sem rötuðu til okkar á einn eða annan veg en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa áður verið annar skartgripur. Við erum afar ánægðar með útkomuna sem við munum kynna til leiks og hefja sölu á nú í nóvember á Handverki og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fyrstu munirnir í þessari línu, sem ber heitið Guðrún eftir ömmu minni, eru í einfaldari kantinum. Það eru síð tvílit hálsmen en sum þeirra með fallegu tvisti. Næstu munir í línunni, sem verða líka hálsmen, eru miklu skrautlegri og íburðarmeiri. Þau hálsmen munum við frumsýna á Hönnunarmars í vor,“ segir hún og bætir við: 

„Við höfum nú þegar sett saman gott úrval af hálsmenum, sum þeirra eru einstök en í öðrum tilvikum höfum við gert fleiri en eitt eins. Okkur langar að bjóða fólki að koma með gamlar hálsfestar og armbönd til okkar og fá í staðinn inneignarnótu eftir vigt sem það getur notað þegar þau kaupir beint af okkur skartgripi, til dæmis á Ráðhúsmarkaðnum,“ segir Steinunn Vala.

mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál