Á leigumarkaði frá 2010 og fann lausn

Ásta Gréta Hafberg.
Ásta Gréta Hafberg.

Ellý Ármannsdóttir fjölmiðlakona opnaði hjarta sitt um húsnæðisvanda á húsnæðisþingi Íbúðalánasjóðs í gær. Hún lýsti því hvernig er að vera á götunni með barn og sagði frá því þegar hún flutti inn á 21 árs gamlan son sinn til þess að hafa húsaskjól því ekkert annað var í boði.

Ellý er ekki eina manneskjan sem hefur upplifað óróa. Ásta Gréta Hafberg hafði verið á leigumarkaði síðan 2010 þegar hún ákvað að leita nýrra leiða.

„Ég var á leigumarkaði frá árinu 2010 og þar til í júní á þessu ári með fimm börn mest allan tímann. Árið 2010 gekk þetta. Leigan var há en ekki fjarstæðukennd. Eftir því sem tíminn leið hækkaði leigan, leigusamningar voru yfirleitt ekki gerðir nema til eins árs í einu og við lentum í ýmsum hremmingum með samninga, húsnæði og leigusala,“ segir segir Ásta og bætir við:

„Við vorum öll komin með kvíða og stress af endalausum flutningum. Yfirleitt með árs millibili. Ég leitaðist við að reyna að halda börnunum í sama skóla, þó það væri ekki alltaf hægt, og það jók á stressið. Síðasta húsnæði sem við leigðum á höfuðborgarsvæðinu kostaði okkur 320.000 á mánuði og við gátum fengið árs samning í viðbót með 30.000 kr. hækkun á mánaðarleigu. Þegar þarna var komið hugsaði ég að ég gæti hreinlega ekki meira. Við vorum kvíðin, stressuð og eilíft blönk. Börnin gátu ekki verið í íþróttum eða tónlist og það mátti ekkert fara úrskeiðis því það var ekki til peningur til að gera við eða bæta,“ segir hún.

Í vor sá hún að þetta gengi ekki lengur, hún gæti hreinlega ekki meira.

„Á vormánuðum 2017 ákváðum við að venda okkar kvæði algerlega í kross og reyna að kaupa. Við hefðum aldrei getað það á höfuðborgarsvæðinu og ég átti ekki krónu. Ég tók þá ákvörðun að fara úr stressinu fyrir sunnan og tókst að kaupa fyrir norðan, rétt utan við Akureyri í dásamlegri sveit. Ég er 10 mín að keyra í vinnuna á Akureyri og hef allt sem borgarbarn þarf þar,“segir hún.

Þegar Ásta er spurð er að því hvernig hún hafi farið að þessu segir hún að hún hafi mixað hlutina. Ég yfirtók lán þegar ég keypti þannig að útborgun var frekar lág. Ég deildi útborguninni niður þannig að hún var ekki greidd í einu lagi við undirskrift. Einnig komst ég að því að hjá Íbúðalánasjóði er hægt að fara niður í 75% af neysluviðmiðinu við gerð greiðslumats. Ég þakka fasteignasalanum þann part. Ég hefði ekki fattað það sjálf í öllu stressinu sem fylgdi þessu,“ segir Ásta.

Hún segir að hún hafi loksins fundið innri frið.

„Að hafa flutt norður í sveitina hefur fært okkur ró, andlegan afgang, meiri tíma, náttúrufegurð, minni kvíða og tónlistir og íþróttir fyrir börnin mín. Leigumarkaðurinn getur kálað hvaða nagla sem er og ég var orðin vel bogin þegar ég komst út úr þessum frumskógi,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál