Stelpuherbergi þurfa alls ekki að vera bleik

Anna Kristín Óskarsdóttir og maðurinn hennar, Reynar Ottósson, hafa komið sér vel fyrir í huggulegri íbúð í Hlíðunum. Skötuhjúin búa þar með tveimur dætrum sínum, Emblu Katrínu sem er sex ára og Andreu Kolbrúnu sem er eins og hálfs árs, en á dögunum fluttu systurnar inn í hjónaherbergið sem þær deila nú í sátt og samlyndi.

Það fer bara ótrúlega vel um okkur. Í raun var hitt herbergið alltof stór sem hjónaherbergi þannig það nýtist mun betur núna þegar þær eru komnar þangað og við komin í minna herbergið,“ segir Anna Kristín spurð hvernig fari um fullorðna fólkið í nýja herberginu. En skyldi hún mæla með þessu fyrirkomulagi.

„Hjónaherbergi þurfa alls ekki að vera risastór. Eina sem þarf að komast þangað inn eru góð náttborð, skápur og svo auðvitað rúmið. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera sem minnst áreiti í svefnherberginu, þannig að óþarflega stórt herbergi þýðir yfirleitt alltof mikið dót,“ segir Anna Kristín, en hvernig fór hún að því að innrétta barnaherbergi sem hentar báðum systrunum, þrátt fyrir töluverðan aldursmun.

„Í rauninni þurfti ég ekki mikið að hugsa út í aldursmuninn. Eina sem ég gerði var að hafa aðgengilegt dót sem yngri stelpan mín mátti leika með í hennar hæð. Síðan tók ég allt smádót sem fylgir 6 ára stelpum og setti í lítil box sem systir hennar getur ekki opnað, eða náð í, en hún sjálf getur þó auðveldlega gengið um,“ segir Anna Kristín og bætir við að sambúð systranna gangi vonum framar.

„Ég var pínu stressuð með þetta vegna þess að það eru alveg 5 ár á milli þeirra, en svo hefur þetta ekki verið neitt vandamál. Það kemur fyrir að eins árs skottan mín vakni á næturnar en blessunarlega sefur eldri stelpan mjög fast, þannig að henni hefur ekki enn tekist að vekja hana með bröltinu í sér. Þær bræddu mig alveg um daginn en þá höfðu þær greinilega vaknað örlítið á undan okkur, þegar ég kom síðan inn til að vekja þær var eldri stelpan mín komin ofan í rimlarúmið til systur sinnar og sat þar að leika við hana.“

Anna Kristín lumar á ýmsum ráðum þegar kemur að því að innrétta barnaherbergi, til að mynda forðast hún að herbergi systranna sé ofhlaðið?

„Ég vil ekki hafa of mikið af dóti inni hjá þeim í einu. Ég tek alltaf reglulega eitthvað út og geymi, og skipti svo bara um. Einnig finnst mér mikilvægt að hlutunum sé þannig raðað upp að þegar börn eru komin á ákveðinn aldur sé hægt að láta þau sjálf taka til án þess að það sé of flókið fyrir þau að ganga frá, til dæmis í aðgengileg box eða körfur sem auðvelt er að skutla hlutunum ofan í,“ segir Anna Kristín, sem sjálf er mikill fagurkeri. Hún heldur til að mynda úti blogginu annakristinoskars.com þar sem hún skrifar um hönnun, auk þess sem hún heldur úti vinsælum Instagram-reikningi undir sama nafni. Það þarf því ekki að undra að hún hafi lagt töluverða vinnu í að gera herbergi systranna huggulegt.

„Ég hef nú alveg nostrað helling við herbergið. Ég ákvað það með báðar stelpurnar að þegar þær færu í sín eigin herbergi yrðu það herbergi sem ég yrði ánægð með, og liði vel með að hafa þær í. Innblásturinn kom nú bara héðan og þaðan. Ég skoða mjög mikið skandinavísk blogg og pinterest, þannig ætli innblásturinn sé ekki eitthvað þaðan. Svo er ég nú bara þannig að ef ég sé einhverja hugmynd, eða einhvern hlut sem mér finnst fallegur fyrir þær, aðlaga ég hugmyndina bara þeim stíl sem ég er með hverju sinni. Ég tók til dæmis bæði barbie-húsið og IKEA-eldhúsið þeirra og gaf þeim smá andlitslyftingu þannig þau myndu passa þeim stíl sem er í herberginu,“ segir Anna Kristín, sem er augljóslega ekki hrifin af bleikum lit, enda er hann vart sjáanlegur í herbergi stúlknanna.

„Litapallettan kom nú bara óvart, en ég á semsagt þennan gula tekksófa sem ég tími ómögulega að losa mig við. Litapallettan raðaðist ómeðvitað dálítið í kringum hann en ég er mjög lítið þessi bleika prinsessu-mamma, ætli það hafi ekki haft mikil áhrif líka. Ég hef aldrei skilið hvers vegna stelpudót hefur alltaf þurft að vera bleikt. Af hverju mega börnin ekki ákveða sjálf hvaða lit þau kjósa að hafa í sínu herbergi. Ég leitaði til dæmis lengi að fallegu dúkkuhúsi fyrir stelpuna mína en gafst svo upp og ákvað að gera frekar upp eitt gamalt sem ég keypti fyrir klink,“ segir Anna Kristín, sem er augljóslega afar úrræðagóð, að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál