„Lífið snýst ekki um „sixpack“ og kúlurass“

Anna Marta byrjaði að taka lífstílinn í gegn eftir tvítugt.
Anna Marta byrjaði að taka lífstílinn í gegn eftir tvítugt. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Marta Ásgeirsdóttir þjálfari er í toppformi líkamlega og andlega. Hún segir gott mataræði og líkamlega og andlega heilsu haldast í hendur. Upp úr tvítugu fór hún að huga markvisst að betri líðan með breyttu mataræði og skemmtilegri hreyfingu. 

„Frá því að ég var barn hef ég verið með mikið fæðuóþol. Á unglingsárunum hugsaði ég lítið um næringu eða hvað þá hreyfingu. Um tvítugt fór ég að hugsa meira um heilsuna því ég var of þung og leið hvorki vel líkamlega né andlega. Á þessu tímabili ákvað ég að breyta um lífstíl því þá var ég með mikla magaverki alla daga og tengdi því miður ekki nógu fljótt við mikilvægi þess að neyta hollrar fæðu. Þegar maður er á þeim stað að vera búin að ganga á milli lækna þá þarf maður að líta í eigin barm og hugsa um sína heilsu, líkamlega sem andlega,“ segir Anna Marta um ástæðu þess að hún breytti um lífstíl á sínum tíma. 

Mikilvægt að hlusta á líkamann

Anna Marta segist hafa byrjað hægt og rólega að taka mjólkurvörur út úr mataræðinu auk þess sem hún hætti að borða vörur sem innihalda glúten og sykur. Hún fór einnig smám saman að hreyfa sig á markvissari hátt og valdi sér hreyfingu sem henni fannst skemmtileg og gladdi hana líkamlega og andlega. 

Í dag starfar Anna Marta bæði sem matarþjálfari sem og einka- og hóptímaþjálfari. Hún framleiðir einnig eigin matvörur. Spurð hversu miklu máli mataræði skiptir segir hún það skipta mjög miklu máli. „Líkaminn þarf mat sem inniheldur góða næringu. Hver og einn þarf að skoða hvaða næring hentar sér og hlusta á líkamann. Það er eitt sem allir kroppar vilja og það er góð næring og hreyfing. Öll hreyfing er mikilvæg saman hver hún er,“ segir Anna Marta.

Andlega hliðin skiptir ekki síður máli en góð næring og …
Andlega hliðin skiptir ekki síður máli en góð næring og hreyfing. mbl.is/Árni Sæberg

Það eru tískubylgjur í mataræði og hreyfingu. Er eitthvað sem þú ert hrifnari af en annað?

„Ég er mjög hrifin af kollageni. Ég hef notað kollagen frá Feel Iceland um tvö ár og finn gríðarlegan mun á mér. Númer eitt er hamingjusamur meltingarvegur, húðin, hárið, liðir og fleira. Varðandi hreyfingu hef ég prófað flest allt sem er í tísku. Mér finnst að fólk eigi að finna sína hreyfingu sem gefur mesta vellíðan á líkama og sál,“ segir Anna Marta sem er dugleg að prófa nýjustu strauma til þess að geta átt samræður við viðskiptavini sína. „Tískustraumar í heilsu henta ekki öllum en um að gera fyrir alla að prófa sig áfram.“

Eftir mörg ár í bransanum segir Anna Marta að öll hreyfing orðin að föstum lið í tilveru hennar. „Ég er dugleg að blanda ólíkum hlutum saman og æfi styrk, liðleika, kraft og snerpu. Varðandi mataræðið hef ég fylgt minni tísku sem er hrein, litrík og næringarrík fæða.“

Er í sínu besta formi

Anna Marta er meðvituð um þær breytingar sem eiga sér stað hjá konum á miðjum aldri. Sjálf hefur hún aldrei verið í betra formi. „Í dag er ég í mínu besta formi líkamlega sem andlega. Sinni báðum þáttum vel.“

Hvað þurfa konur sem eru að að nálgast miðjan aldur að hugsa um?

„Rækta sig af líkama og sál. Það er mikilvægt að velja góða næringu og hugsa um próteininntöku, trefjar, fitu og kolvetni. Þegar við eldumst fer að hægja á brennslunni, vöðvar rýrna og styrkleiki líkamans minnkar. Við þurfum því að stýra betur fæðuinntökunni og hreyfa okkur eitthvað á hverjum degi. Vellíðan ræðst líka afar vel af því að hlúa vel að svefninum og rækta vinasambönd,“ segir Anna Marta.

Snýst þetta bara um að vera í góðu formi?

„Nei alls ekki. Lífið snýst ekki um „sixpack“ og kúlurass. Lífið snýst um að líða vel í eigin skinni og temja sér ákveðið heilbrigði í hreyfingu, matarræði og jákvæðri hugsun. Það hjálpar mikið ef við erum dugleg að virkja alla vöðva líkamans, hjartað er þar með talið. Lífið snýst því um að ná ákveðnu jafnvægi í hreyfingu og matarræði sem leiðir til betri andlegrar heilsu. Ef líkaminn er hress þá er andlega heilsan í flestum tilfellum hress líka. Andlega heilsan helst saman við líkamlega heilsu.

Þegar við nærumst vel erum við í flestum tilfellum með orku til þess að hreyfa okkur. Þegar við hreyfum okkur vekjum við oftar en ekki gleðihormón í líkamanum sem gerir okkur jákvæðar en ella. Hreyfing veitir mér vellíðan og sjálfstraust.“

Anna Marta fann sína köllun í þjálfun.
Anna Marta fann sína köllun í þjálfun. mbl.is/Árni Sæberg

Skemmtilegasta vinna í heimi að hugsa um heilsuna

„Af öllum sem ég þjálfa þá hefur enginn að mér vitandi gengið út úr tíma eða frá mér og sagt þetta var ömurlegt. Ef við hreyfum okkur þá gleðjumst við. Við þurfum að forgangsraða. Súrefnisgríman fyrst á þig, svo á barnið. Það er einhver ástæða fyrir því. Ef þú hefur ekki heilsu fyrir þig þá getur þú lítið gert fyrir aðra.“

Hvað er það fyrsta sem fólk sem ætti að huga að ef það vill taka lífstílinn í gegn?

„Það fyrsta sem þarf að gerast er breyting á hugarfari. Það gerir þetta engin fyrir þig. Skoða hvað viðkomandi er tilbúin að gera með sínar lífsstílsbreytingar. Ef viðkomandi treystir sér ekki sjálfur þá getur viðkomandi leitað til mín eða einhvers annars þjálfara. Hugsa líka jákvætt, setja sér raunhæf gildi eða markmið. Hugsa um hvað maturinn eða næringin gerir fyrir viðkomandi. Hvað gerði hreyfing dagsins fyrir mig? Muna að þegar við hlúum að líkama og sál, þá segi ég iðulega að þetta sé besta og skemmtilegasta vinna í heimi, það er að hugsa um sína eigin næringu, hreyfingu og njóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál