„Af hverju drekkur þú ekki?“

Gunnar Oddur, Sóley Birta, Argrímur Bragi og Elsa Rut eru …
Gunnar Oddur, Sóley Birta, Argrímur Bragi og Elsa Rut eru fyrirmyndar ungt fólk sem er að gera það gott í dag.

Fjölmargir drekka ekki áfengi. Þetta fólk á það sameiginlegt að lifa góðu lífi og vill vera fyrirmynd fyrir aðra í lífinu. 

Samkvæmt World Health Organization látast þrjár milljónir einstaklinga árlega vegna neyslu áfengis. WHO talar opinskátt um hversu oft er litið framhjá þeirri staðreynd að áfengi hefur neikvæð áhrif á heilsuna. Það er ekki lengur talið viðeigandi að drekka áfengi, þótt magnið sé lítið, ef litið er til heilsunnar og áhrifa á hana. Í raun má rekja flest ótímabær andlát fólks á aldrinum 15-49 ára til áfengis. Áfengi veldur m.a. krabbameini og æða- og hjartasjúkdómum. Talið er að allt að 5,2% sjúkdóma í heiminum séu vegna áfengis. 

Þótt áfengi sé enn stór hluti menningar landsins hafa fjölmargir áttað sig á þessu. Fólkið tók saman lista af ungu fólki sem er til fyrirmyndar á þessu sviði. Það segir lífið áhugavert og ýmislegt hægt að gera þótt áfengi sé ekki haft við hönd.

Gunnar Oddur Hafliðason segir að hann njóti hvers dags og …
Gunnar Oddur Hafliðason segir að hann njóti hvers dags og vilji vera fyrirmynd í lífinu.

Gunnar Oddur Hafliðason var að útskrifast sem tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands og stefnir að því að vinna sem aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð fyrir unglinga til að afla sér stjórnendareynslu á þeim vettvangi áður en hann tekur við sem forstöðumaður sjálfur einn daginn. 

„Ég er einnig knattspyrnudómari og er það mitt helsta áhugamál og ástríða í lífinu. Ég kýs áfengislausan lífsstíl vegna þess að það er mikill alkóhólismi í minni fjölskyldu og mér finnst ég bera þessi gen einnig þar sem í öllu sem ég geri fer ég alla leið. Áfengisneyslan held ég að myndi fara sömu leið hjá mér. Einnig er ég mikið í íþróttum og stefni á að ná miklum árangri í minni grein og tel að áfengi muni hindra mig í því. Starf mitt krefst þess einnig að ég sé góð fyrirmynd fyrir þau börn og unglinga sem ég starfa með og tel ég að áfengislaus lífsstíll hjálpi mikið þar. Mér líður mjög vel í mínu lífi og hlakka til hvers dags. Ég finn aldrei fyrir löngun í áfengi og get skemmt mér með vinum og kunningjum langt fram á nótt án áfengis og þarf því ekki að fást við afleiðingar þess á neinn hátt.“

Elsa Rut Leifsdóttir vil vera fyrirmynd fyrir unga fólkið sem …
Elsa Rut Leifsdóttir vil vera fyrirmynd fyrir unga fólkið sem hún vinnur með í hlutastarfi.

Elsa Rut Leifsdóttir er að læra að verða tanntæknir og vinnur í hlutastarfi í félagsmiðstöð í Hafnarfirði þar sem starfið krefst fyrst og fremst þess að vera fyrirmynd fyrir nemendur í 5.-10. bekk.

„Ég tók þá ákvörðun að drekka ekki áfengi bara þegar ég var lítil og hef ekki enn fengið löngun til að prófa áfengi og þá er ég ekkert að reyna pína það ofan í mig. Margir af vinum mínum drekka en mér finnst alveg jafn gaman og er rosa virk að mæta og hafa gaman með þeim. Mér finnst mjög gott að lifa þannig lífi. Að geta bara hoppað út í bíl og keyrt heim eftir gott partí og vaknað fersk í ræktina daginn eftir!“

Sóley Birta Harðardóttir segir hægt að spara mikinn pening ef …
Sóley Birta Harðardóttir segir hægt að spara mikinn pening ef honum er ekki eytt í áfengi.

Sóley Birta Harðardóttir er að læra viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. 

„Ég tók þá ákvörðun að mig langaði lítið sem ekkert að drekka áfengi þegar ég var yngri og svo hefur það alltaf haldist þannig. Fyrst var þetta einhver svona týpískur samningur milli foreldra að maður fékk bílprófið frítt ef maður væri ekki byrjaður að drekka. Það var nú frekar auðvelt fyrir mig þar sem ég hafði engan áhuga á að byrja að drekka. Ég hef haldið mér á þeirri braut þar sem mér hefur aldrei líkað sú óvissa hvernig maður gæti breyst og hagað sér öðruvísi undir áhrifum. Ég tel þennan lífsstíl góðan og klæjar ekkert í puttana núna 21 árs að aldri að byrja að drekka. Að mínu mati er alveg eins hægt að skemmta sér edrú. Svo er ekkert verra að spara allan þennan pening sem fer í allt þetta áfengi.“

Arngrímur Bragi Steinarsson á Músíktilraunum með hljómsveit sinni.
Arngrímur Bragi Steinarsson á Músíktilraunum með hljómsveit sinni.

Arngrímur Bragi Steinarsson tónlistarmaður hefur unnið í félagsmiðstöð í unglingadeild í nokkur ár ásamt alls konar aukastörfum. 

„Það var nú engin sérstök ákvörðun sem ég tók einhvern tímann um að drekka ekki og í rauninni hef ég ekki hugsað mikið út í það þrátt fyrir að hafa oft fengið spurninguna: Af hverju drekkurðu ekki? Mér hefur alltaf þótt þessi spurning frekar kjánaleg. Ég svara oft með spurningu til baka: Af hverju drekkur þú? Ég fæ alltaf sama svarið: Af því að það er gaman. Ef það er ástæðan fyrir því að fólk drekkur þá býst ég við því að svarið mitt sé álíka einfalt: Mig bara langar ekki til þess.

Ég get augljóslega ekki sagt frá beinni reynslu af áfengisnotkun en ég hef umgengist mikla drykkju í gegnum tónlistarlífið í bænum og partíum og geri mér grein fyrir hversu stór hluti af lífi margra áfengi getur verið. Ég hef séð fólk upplifa hluti sem mér þykir ekki spennandi og sannfærist þá meira um að ég sé að gera rétt. Ég hef aldrei verið á móti því að fólk drekki en ég hef tekið eftir því að ég er farinn að halda mig frá þannig aðstæðum meira en ég gerði. Líklega vegna þess að oft verða svona kvöld mikil endurtekning á öðrum svona kvöldum. Þetta er þó alls ekki algilt, þetta fer mikið eftir vinahópum. Flestir kunna sér hóf og eru ábyrgir hvað þetta varðar. Ég hef alltaf getað skemmt mér án áfengis og það besta við það er að ég get alltaf keyrt heim eftir á og liðið vel morguninn eftir. Jafnvel átt jafn mikinn pening og kvöldið áður sem annars hefði farið í bjór og leigubíl.“

Herdís Tómasdóttir segist njóta hvers augnabliks í lífinu án þess …
Herdís Tómasdóttir segist njóta hvers augnabliks í lífinu án þess að drekka áfengi.

Herdís Tómasdóttir er að læra landfræði við Háskóla Íslands og að hefja sitt annað ár í náminu í haust á þessu ári.

„Það var einhverra hluta vegna alltaf draumsýn hjá mér sem unglingi að stilla mig inn á áfengislausan lífsstíl. Það er engin ein ástæða fyrir því. Mér fannst það bara eftirsóknarvert. Ég get því miður ekki sagt að ég hafi verið edrú allt mitt líf þar sem ég hef drukkið nokkrum sinnum. Ætli ég hafi ekki þurft að prófa það til þess að vera viss um hvort áfengi væri eitthvað sem ég þyrfti í líf mitt. Raunin var ekki og því hef ég síðan sleppt áfengi án þess að efast um það val hingað til.

Mesta vesenið er það að fólk er ekki tilbúið að samþykkja þennan lífsstíl 100%. Vinir og ættingjar bjóða mér ennþá alltaf upp á áfengi og virðast vera að bíða eftir að þessu „skeiði“  mínu  ljúki og ég fari að drekka eins og allir hinir. Einnig er ég margoft spurð sömu spurningar: Af hverju drekkur þú ekki? Ég skil það aldrei af hverju áfengislaus lífsstíll er eitthvert afrek eða eitthvað örðuvísi eða af hverju fólk sem drekkur áfengi er ekki spurt: Af hverju drekkur þú? Svarið er líklegast félagslegar ástæður eða af því það er gaman.

Þetta eru ástæður þess að ég drekk ekki. Ég vil ekki vera bundin alkóhóli til að geta notið lífsins eða kynnst fólki og í því er frelsi. Frelsi til þess að vera ég sjálf alltaf og lifa og njóta hvers einasta augnabliks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál