Svona heldur þú heilsusamlega páska

Guðrún Bergmann leggur mikið upp úr því að halda páskana …
Guðrún Bergmann leggur mikið upp úr því að halda páskana hátíðlega án þess að sleppa hollustunni.

Þegar fólk breytir um lífsstíl og mataræði á það stundum erfitt með að takast á við hátíðir eins og páskana, því þá vill það sogast inn í gamlar hefðir og vana.

Guðrún Bergmann hefur unnið lengi í að efla eigin heilsu og annarra. Hún hefur prófað mjög margt af því sem hefur verið vinsælt hverju sinni og tekið það besta úr og gert að sínu. Hún segir að breyttur lífsstíll sé áskorun á hátíðisdögum. Sér í lagi þegar viðkomandi fær pressu frá nærumhverfinu.

„Það er algengt að fólk fái spurningar um af hverju það geti ekki verið eins og annað fólk. Ef við hins vegar erum með fæðuóþol eða veljum að forðast t.d. sykur hættum við að vera eins og „hinir“. Það er okkar val og ef við viljum standa með okkur sjálfum höldum við okkur við það val. Það er nefnilega hægt að borða dásamlegan mat þótt við veljum að borða hollari útgáfu af honum.“

Guðrún lítur á páskana sem fjölskylduhátið. „Hefðin er sú að allir fái páskaegg. Þeir sem vilja forðast sykur sleppa því hins vegar og ég get staðfest að það er hægt að lifa án þess – því ég hef ekki borðað páskaegg síðan árin í kringum 1990. Mér fannst súkkulaðið í þeim ekkert spes og valdi að kaupa mér frekar gott súkkulaði til að borða. Í dag er hægt að fá alls konar dökkt súkkulaði, annaðhvort sætt með hrásykri eða stevíu, og njóta meðan aðrir háma í sig páskaeggið.“

Hvað með málsháttinn?

„Það er líka hægt að lifa án hans, en ef þú vilt fá einhverja góða hvatningu geturðu fundið hana í bókum eða á spjöldum með jákvæðum hvatningum.“

Að halda reglu í lífinu

Guðrún segir að ef fólk langi til að hafa páskana heilsusamlega sé gott að halda svipaðri reglu á lífinu yfir hátíðina eins og á virkum dögum.

„Þá er gott að borða hollan morgunmat og sleppa kökum og sætabrauði. Eins er mikilvægt að muna að taka inn bætiefni og góðgerla til að viðhalda reglulegum hægðum og góðu jafnvægi í örveruflóru þarmanna. Páskamaturinn er oft þyngri en annar matur og þá er gott að taka inn meltingarhvata fyrir máltíðir, eins og til dæmis Digest Ultimate frá NOW. Ég tek reyndar daglega inn meltingarhvata fyrir allar máltíðir.

Ef um glútenóþol er að ræða og þú ætlar meðvitað (eða ómeðvitað) að borða mat þótt í honum sé glúten ráðlegg ég tvö hylki af Gluten Digest frá NOW fyrir máltíðir. Það hefur reynst mér vel ef ég lendi í þeim aðstæðum t.d. á ferðalögum að vita ekki hvað er í matnum.

Ég hef í mörg ár tamið mér að borða bara í 12 tíma á dag og hvíla líkamann á fæðu í 12 tíma. Þar virkar vel að gera það líka á hátíðisdögum. Svo er gott að fara snemma að sofa, því morgunstund gefur gull í mund og gönguferðir eða önnur hreyfing á góðum vormorgnum er frábær.“

Páskalamb að hætti að Guðrúnar Bergmann.
Páskalamb að hætti að Guðrúnar Bergmann.

Páskamatur með öðruvísi sniði

Hvaða hefðir eru hjá þér?

„Það tilheyrir að borða lambakjöt um páskana og þeim sið hef ég haldið í gegnum tíðina. Ég rakst á mjög spennandi uppskrift að lambalæri inni á síðu Mediterranean Dish nýlega sem ég ætla að prófa um páskana. Það er mikið af hvítlauk í uppskriftinni, en mér finnst Miðjarðarhafsmataræðið bæði bragðgott og spennandi. Það verður líka hægt að finna aðra uppskrift að lambalæri á vefsíðunni minni www.gudrunbergmann.is á mánudaginn.

Svo má líka búa til einfaldan og fljótlegan kjúklingarétt einhvern af hátíðisdögunum og á föstudaginn langa hef ég í gegnum tíðina alltaf haft saltfiskgratín, svona sem tákn um að föstunni (sem ég hef bara einu sinni fylgt í 40 daga, þ.e. verið án kjöts frá öskudegi) sé lokið.“

Uppskrift að heilsusamlegu páskalambi

Þetta er heilsusamleg uppskrift að páskalambi sem gleður líkama og sál.

1 lambalæri á beini svona 2-2½ kg að þyngd, fitan skorin að mestu af

himalajasalt og svartur pipar eftir smekk

extra virgin ólífuolía, sem þýðir fyrsta pressun af ólífunum

5 hvítlauksrif, afhýdd og sneidd langsum

2 bollar vatn

8 frekar stórar kartöflur, afhýddar og skornar í báta

1 meðalstór gulur laukur, afhýddur og skorinn í báta

1 tsk. paprikuduft

fersk steinselja til skreytingar (valkvætt)

Kryddblanda til að

nudda lærið með:

15 afhýdd hvítlauksrif

2 msk. þurrkað óreganó

2 msk. þurrkuð mintulauf

1 msk. paprikuduft

½ msk. malað múskat

½ bolli ólífuolía (extra virgin)

safi úr tveimur sítrónum – hugsanlega dugar safi úr einni ef hún er mjög safarík

Aðferð:

1. Takið lambalærið úr ísskápnum og látið það standa við stofuhita í um klukkustund áður en farið er að elda það. Útbúið á meðan kryddblönduna á lærið.

2. Setjið allt sem fer í kryddblönduna í matvinnsluvél og blandið vel saman og geymið í ísskáp þar til þarf að nota hana.

3. Þerrið lambalærið og skerið nokkrar raufar (fyrir hvítlauksrifin) í það báðum megin. Kryddið með salti og pipar.

4. Kveikið á grillinu í ofninum og setjið lambið á bökunargrind ofarlega í ofninn og grillið í 5-7 mínútur á hvorri hlið til að loka því. Takið úr ofninum og stillið hann á 190°C.

5. Látið lærið kólna aðeins áður en þið setjið hvítlauksrifin í raufarnir sem þið skáruð í lærið.

Berið svo kryddblönduna á allt lærið og nuddið henni vel inn. Setjið lærið á grind á ofnskúffu (eða steikingarskúffu eins og fæst í IKEA) og bætið tveimur bollum af vatni í skúffuna.

6. Kryddið kartöflu- og laukbátana með papriku- og hvítlauksdufti og salti og raðið þeim á grindina í kringum lærið.

7. Setjið álpappír þétt yfir skúffuna og setjið hana svo í miðjan ofninn og eldið í eina klukkustund. Takið skúffuna úr ofninum og takið álpappírinn af henni – og setjið hana svo aftur í ofninn í 10-15 mínútur þar til kjöthitamælirinn sýnir 60° (55° ef þið viljið hafa það medium-rare).

8. Takið skúffuna úr ofninum og látið lærið standa í minnst 15-20 mínútur áður en það er borið fram.

Við Miðjarðarhafið er lambalæri gjarnan borið fram bæði með kartöflum og hrísgrjónum. Ekki er búin til „brún sósa“ eins og við erum vön, heldur er notast við soðið úr ofnskúffunni til að dreypa yfir lærið.

Eins má útbúa með lærinu tzatziki, sem er köld sósa úr sýrðum rjóma, t.d. frá Örnu fyrir þá sem eru með laktósaóþol. Í 100 g af sýrðum rjóma er hægt að setja 1 tsk. af tzatziki-kryddblöndunni frá Kryddhúsinum, láta sósuna taka sig í svona 15 mínútur og hún er tilbúin. Einnig er gott að hafa grænt salat með lambalærinu.

Hátíðleg hrísgrjón

Ef þú vilt líka bera fram hrísgrjón með lambinu, þá eru þessi uppskrift sérlega vinsæl í fjölskyldu Guðrúnar.

2 bollar löng basmatigrjón (hvít um páska)

vatn

1 bolli brotið vermicelli-pasta (hrísgrjónanúðlur fyrir þá sem eru með glútenóþol)

2½ msk. ólífuolía

fínt himalajasalt

½ bolli ristaðar furuhnetur

Aðferð:

1. Skolið grjónin nokkrum sinnum vel undir köldu vatni og setjið í skál með vatni sem flýtur yfir þau. Látið grjónin draga í sig vatnið í 15-20 mínútur. Hellið grjónunum svo í sigti og látið vatnið renna vel af þeim.

2. Hitið olíuna í meðalstórum potti við rúmlega miðlungshita. Bætið pastanu út í pottinn og hrærið stöðugt í meðan það brúnast aðeins. Ef það brennur þarf að byrja upp á nýtt.

3. Bætið grjónunum út í og brúnið þau í olíunni líka. Kryddið með salti.

4. Hellið 3½ bolla af vatni út í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og setjið lok á pottinn. Sjóðið í 15-20 mínútur.

5. Slökkvið á hellunni þegar grjónin eru soðin en látið grjónin standa í pottinum í 10-15 mínútur til viðbótar. Takið lokið af og losið um grjónin með gaffli.

6. Setjið grjónin í framreiðsluskál og skreytið með ristuðum furuhnetum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur

Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur sem hægt er að bera fram með fersku salati, ofnbökuðu grænmeti eða grilluðum kúrbít.

1 kg bein- og skinnlausar kjúklingabringur

himalajasalt og svartur pipar eftir smekk

2 tsk. þurrkað óreganó

1 tsk. (tvær greinar) timían

1 tsk. paprikuduft

4 marin hvítlauksrif

3 msk. ólífuolía (extra virgin)

safi úr ½ sítrónu

1 meðalstór rauðlaukur, skorinn til helminga og sneiddur í þunnar sneiðar

5-6 smátómatar, skornir til helminga

handfylli af ferskri steinselju til skreytingar þegar rétturinn er borinn fram ásamt nokkrum ferskum basillaufum

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 220°C.

2. Þerrið bringurnar, setjið hverja bringu í plastpoka með rennilás, pressið loftið úr pokanum og setjið á kjötbretti. Bankið bringurnar með kjöthamri þar til þær eru allar jafnþunnar.

3. Kryddið með salti og pipar báðum megin og setjið í rúmgóða skál. Bætið kryddi, mörðum hvítlauk, ólífuolíu og sítrónusafa út í. Blandið vel svo bringurnar séu allar þaktar kryddi og hvítlauk.

4. Smyrjið eldfast mót og raðið lauknum neðst í það, síðan bringunum og svo tómötunum efst.

5. Breiðið álpappír þétt yfir mótið og bakið bringurnar í ofninum í 10 mínútur. Takið álpappírinn af og bakið í 8-10 mínútur til viðbótar. Fylgist vel með, því það gæti tekið styttri tíma að elda bringurnar, eftir því hversu þykkar þær eru. Notið kjöthitamæli til að fylgjast með, en bringurnar eru tilbúnar þegar hann sýnir 74°C.

6. Takið bringurnar úr ofninum, setjið álpappírinn yfir og látið standa í 5-10 mínútur áður en þær eru bornar fram, skreyttar með ferskri steinselju og basilíku.

Slóðin á lambalærisuppskriftina:

https://www.themediterraneandish.com/mediterranean-style-leg-of-lamb-recipe-with-potatoes/

Slóðin á kjúklingauppskriftina:

https://www.themediterraneandish.com/easy-italian-baked-chicken-recipe/

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál