Ösp gefur ráð til að fá ekki flensu

Ösp Viðarsdóttir, næringaþerapisti hjá Heilsu.
Ösp Viðarsdóttir, næringaþerapisti hjá Heilsu.

Nú er einn mesti flensutími ársins að fara í hönd. Ösp Viðarsdóttir, næringarþerapisti hjá Heilsu, segir að það skipti mestu máli að fara vel með sig og borða hollan mat. Hún mælir með því að fólk borði ávexti og grænmeti í öllum regnbogans litum til að fá sem mesta breidd næringarefna á hverjum degi. Auk þess mælir hún með því að fólk mæti ekki í vinnuna þegar það er með flensu. 

„Einnig er gott að lágmarka sykurneyslu, hreyfa sig reglulega og hvílast nóg. Streita og svefnleysi veikja varnirnar okkar. Svo skiptir höfuðmáli að meltingin sé í lagi. Ef meltingarvandamál eru til staðar þarf að huga að því. Stór hluti ónæmiskerfis okkar er í meltingarveginum og þarmaflóran þarf að vera sterk. Svo bara þetta klassíska, handþvottur og að halda sig heima þegar fólk er veikt. Það er ekkert töff að mæta veikur í vinnuna þótt það séu alveg ótrúlega margir sem gera það, ég hef gert það sjálf. Við höldum alltaf að við séum svo ómissandi. Það er engin töfralausn í þessu frekar en öðru, þetta snýst allt um jafnvægi,“ segir Ösp.  

Er eitthvað sem fólk getur gert þegar flensan er mætt?

„Hvíld er það allra mikilvægasta en það eru ýmis ráð sem hægt er að nota til að létta aðeins á vanlíðan.“

Hún mælir með því að fólk sjóði vatn og setji piparmyntu eða eucalyptus-ilmkjarnaolíu út í og andi að sér gufunni með handklæði yfir hausnum.

„Þetta getur létt á stíflum og öndun. Líka gott að hafa ilmolíulampann í gangi með þessum olíum eða setja einn dropa undir nefið.“

Hún mælir líka með saltvatnsúða eða „neti pot“-nefskolun sem geta létt á þrýstingi og stíflum í nefi og kinnholum. 

„Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fólk sem er gjarnt á að fá sýkingar á þessi svæði.“

Engiferte er gott við flensunni.
Engiferte er gott við flensunni.

Ösp segir að fólk þurfi að drekka nóg vatn og jurtate og þá sérstaklega engiferte með smá hunangi því það fer vel í sáran háls. 

„GSE-hálsspreyið sem fæst í apótekum er það allra besta sem ég hef prófað við hósta og særindum í hálsi. Linar ertingu samstundis, mæli heilshugar með því. Og svo skiptir næring einnig máli. Matarmiklar súpur eru rosalega góður kostur, léttar í magann og auðmeltar en geta verið gríðarlega næringarríkar. Þegar ég verð veik passa ég alltaf að eiga nóg af eplum. Hef alltaf lyst á þeim sama hvað. Mikilvægt að reyna að halda sig sem mest í hollustunni, það styrkir okkur betur en nammipokinn.“

Hvernig er best að ná flensunni úr sér?

„Þegar flensan er komin er lítið annað hægt að gera en hvíla sig og bíða. Hún gengur yfirleitt yfir á 7-10 dögum. Best að vera bara heima og reyna að hafa ekki áhyggjur af öllum verkefnunum sem bíða. Bara leyfa þessu að hafa sinn gang. Heilsan er mikilvægari en vinnan, það er bara þannig. Ekki fara í ræktina og reyna að pína úr þér pestina. Það getur bara gert illt verra auk þess sem þú ert auðvitað smitberi, það vill enginn sjá þig í ræktinni með flensu.“

Hvaða vítamíni mælir þú með til þess að minnka líkur á flensu?

„D-vítamín er sennilega það helsta. Okkur hér á norðurhveli skortir það oft og það er mjög mikilvægt fyrir ónæmiskerfið, og margt annað auðvitað. Gott er að fá blóðprufu til að kanna stöðuna og haga svo inntöku eftir niðurstöðunum. Flestum veitir ekkert af því að taka inn D-vítamín árið um kring eða því sem næst. 1000-2000 AE ættu að mæta þörfum flestra.

Annað er bara einstaklingsbundið. Sem dæmi er mikilvægt að fylgjast með járnstöðu. Járnskortur getur veikt ónæmiskerfið og því er mikilvægt fyrir fólk að taka það inn ef þörf er á. 

Svo fer þetta auðvitað eftir mataræði og lífsstíls hvers og eins. Ef mataræðið er einhæft, þú borðar lítið grænmeti og mikið af ruslfæði er næsta víst að einhver næringarefni skorti. Þá getur verið góð hugmynd að taka gott fjölvítamín eða einhverja næringaruppbót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál