Passar skammtastærðirnar og forðast sól

Maye Musk hugsar vel um heilsuna.
Maye Musk hugsar vel um heilsuna. skjáskot/Instagram

Í september varð fyrrisætan Maye Musk elsti talsmaður snyrtivörumerkisins Cover Girl. Musk er ekki bara fyrirsæta heldur líka næringarfræðingur og segir að megrunarkúrar og strangar æfingar séu ekki aðalatriðið til þess að halda sér unglegum. Mikilvægast er að koma skynsamlegri hegðun inn í hina daglegu rútínu. 

Musk er frá Kanada og ólst upp í Suður-Afríku en fólk kannast kannski við Musk nafnið þar sem hún er móðir Elon Musk, forstjóra SpaceX og Tesla. Hún byrjaði að vinna sem fyrirsæta 15 ára og 68 ára skrifaði hún undir fyrirsætusamning hjá IMG-fyrirsætuskrifstofunni. Musk situr fyrir í hinum ýmsu verkefnum og birtist meðal annars í myndbandi Beyconé við lagið Hunted. 

Prevention greinir frá því að Musk borði aðallega ávexti, grænmeti og grófkornafæðu ásamt fitusnauðu jógúrti og eggjum. Kjúkling, fisk og rautt kjöt borðar hún spari eins og þegar hún fer út að borða. Smjör borðar hún einstaka sinnum en borðar frekar ólífuolíu, avókadó og hnetur. Hún segist aðallega halda sinni þyngd með því að passa skammtastærðirnar. 

Eins og fleiri elskar Musk súkkulaði, kexkökur og mjúka osta. Galdurinn segir hún að eiga ekki slíkan mat heima hjá sér, þá sé auðvelt að komast hjá því að láta freistast. 

Margir predika mikla vatnsdrykkju en Musk segist bara drekka þegar hún sé þyrst. Hún segir það ekki nauðsynlegt að ganga með vatnsflösku á sér allan daginn þar sem líkaminn láti mann vita þegar hann vantar vatn. 

Fyrirsætan er ekki hrifin af miklum æfingum en hreyfir sig til þess að láta sér líða betur og viðhalda styrk. Hún fer út að ganga í 15 mínútur á dag með hundinn og nokkrum sinnum í viku fer hún í ræktina og hjólar í hálftíma og gerir æfingar með léttum lóðum. „Ef það veldur sársauka, þá hætti ég,“ sagði Musk. 

Musk snobbar ekki fyrir fínum og dýrum kremum og þvær andlitið bara með vatni og sápu. Rakakrem, augnkrem og næturkrem notar hún þó en segir það bara aukaefni við það heilsusamlega líf sem hún lifir. Hún notar sólarvörn á hverjum degi og forðast sól með því að nota hatt, hendurnar hylur hún einnig. 

Hún passar upp á að fá sinn fegurðarblund í átta til níu tíma. Svefninn er henni svo mikilvægur að hún forgangsraðar honum meira að segja þegar hún fer í vinnuferðir. Hún passar þá að eiga einn dag lausan eftir flugferð svo hún geti unnið upp svefninn. 

Maye Musk.
Maye Musk. skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál